Jón Kalman Mosfellingur ársins 2017

mosiarsins2018

Rithöfundurinn Jón Kalman Stefánsson er Mosfellingur ársins 2017. Hann gaf út skáldsöguna Saga Ástu fyrir jólin og fékk hún hvern fimm stjörnu dóminn á fætur öðrum.
Jón Kalmann er einn af fremstu rithöfundum þjóðarinnar og hefur margsinnis verið tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs auk þess að hljóta Íslensku bókmenntaverðlaunin. Á árinu var hann jafnframt orðaður við sjálf Nóbelsverðlaunin í bókmenntum.
Jón Kalman býr með eiginkonu sinni, börnum og hundi í Svöluhöfða og hefur fjölskyldan búið í Mosfellsbæ í rúm 20 ár.
„Maður er bara glaður að fólki finnst ástæða til þess að velja mig,“ segir Jón Kalman um útnefningu Mosfellings. „Þá kannski hefur maður gert eitthvað gott.“

mosfellingurarsins_afhendingByrjaður að skrifa næstu bók
Fyrsta bók Jóns Kalmans kom út árið 1988 og á hann því 30 ára rithöfundaafmæli á árinu. Hann hefur gefið út 3 ljóðabækur og 12 skáldsögur.
Er reglan að gefa út bók annað hvert ár?
Það hefur verið rytminn síðustu árin en ekkert kappsmál. Ég tek mér svona rúmt ár í hverja bók en kannski á eftir að hægjast eitthvað á manni.
Ertu byrjaður á nýrri bók?
Já, ég byrjaði á nýrri bók undir lok síðasta sumars en ég kláraði Sögu Ástu um vorið. Annars tala ég aldrei um það sem ég er að vinna að.
Hvenær megum við eiga von á næstu bók?
Það verður bara að koma í ljós. Ef takturinn helst þá verður það í lok árs 2019 en svo gæti það líka alveg eins orðið 2029. Skáldskapurinn er þannig að þú getur ekki sagt honum fyrir verkum.
Og skrifarðu mest heima í Svöluhöfðanum?
Yfirleitt vinn ég heima en hef farið í sumarbústað eða til útlanda. Ég kláraði t.d. Sögu Ástu með því að vera tvo mánuði í París. Ætli ég geri ekki meira af því í framtíðinni. Það er mjög gott að geta einbeitt sér algjörlega að því sem maður er að gera.

Ekkert lát á hugmyndaflæðinu
Í kvöld verður Himnaríki og helvíti frumsýnt í Borgarleikhúsinu. Sýningin byggir á þríleik Jóns Kalmans, bókunum Himnaríki og helvíti, Harmur englanna og Hjarta mannsins – einu umtalaðasta stórvirki íslenskra bókmennta á síðari tímum.
„Þetta verður löng sýning í þremur hlutum. Ég hef svosem ekkert skipt mér af uppfærslunni en ég er mjög spenntur að sjá útkomuna. Vonandi sér maður eitthvert nýtt og sjálfstætt verk.
Fram undan hjá Jóni er einnig útgáfa nýjustu bókarinnar erlendis og eftirfylgni sem tengist því.
En fær maður endalausar hugmyndir að nýjum sögum?
„Ég er alltaf opinn og með alla anga úti, þó oftast án þess að velta því fyrir mér. Maður er alltaf að taka inn umhverfið. Hingað til hefur ekkert lát verið á hugmyndaflæðinu en verkin verða oft til á meðan maður er að skrifa þau. Skáldskapurinn er þannig að það er svo mikil óvissa í honum að þú getur ekki skipulagt hann. Það finnst mér mjög fallegt og mikilvægt.
Færðu einhvern innblástur í Mosó?
Maður er alltaf undir áhrifum frá umhverfi sínu og yfirleitt áhrif sem erfitt er að setja fingur á. Ég sæki mikið í náttúruna hér í kring og það andar einhvern veginn inn.
Nafn þitt kom upp í tengslum við Nóbelsverðlaun, hefur þú eitthvað pælt í því?
Ekki þannig, en auðvitað ákveðin truflun inn í hversdaginn manns. Ég lá samt ekkert andvaka. Ég átti ekkert von á því að hljóta titilinn, það eru svo margir góðir höfundar til í heiminum. En auðvitað mikill heiður og ánægja að vera nefndur.
Hvað myndir þú gera ef þú ynnir Nóbelinn?
Ef ég á að segja alveg eins og er þá hef ég ekkert velt því mikið fyrir mér. En ég myndi kaupa besta viskíið sem til er í ríkinu og njóta gleðinnar.