Jóga er tenging við hinn innri mátt
Íris Dögg Oddsdóttir flugfreyja, jógakennari og leiðsögumaður hefur það að markmiði að hjálpa fólki við að bæta heilsu og vellíðan.
Jóga er talið elsta mannræktarkerfi veraldar og miðar að þroskun líkama, hugar og sálar. Orðið jóga þýðir tenging eða sameining við hinn innri mátt. Allir geta stundað jóga óháð aldri eða líkamlegri getu og það er aldrei of seint að byrja.
Íris Dögg Oddsdóttir fór í jógakennaranám til Rishikesh á Indlandi. Hún leiðir nú námskeið í jóga hjá GoMove og Mjölni ásamt því að vera með hleðsluhelgar á hótelum víða um land.
Íris Dögg er fædd í Reykjavík 25. maí 1983. Foreldrar hennar eru Guðrún Jónsdóttir bókari og Oddur Þórðarson rannsóknarmaður hjá Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins.
Systkini Írisar eru Þórður f. 1966, Þórdís Anna f. 1972, Jón Finnur f. 1976 og Vignir Örn f. 1978.
Ljúft að alast upp í Barrholti
„Ég er alin upp í Barrholtinu, foreldrar mínir byggðu þar hús 1981 og búa þar enn. Það var ljúft að alast upp í þessari götu, yndislegir nágrannar og hverfið stútfullt af börnum. Á auða svæðinu milli Bergholts og Barrholts var leik- og fótboltavöllur, þar lékum við okkur mikið. Þar var líka fyrsti kossinn og fyrstu og einu slagsmálin,“ segir Íris Dögg og brosir.
„Ég á góða fjölskyldu og minningarnar eru margar og þá sérstaklega við eldhúsborðið því það var alltaf matur hjá mömmu klukkan 19:00, þá komu allir heim.“
Góðar minningar frá Gufunesi
„Við systkinin vorum mikið í Gufunesi á okkar yngri árum og við eigum frábærar minningar þaðan. Afi og Hjálmar sem var eins og þriðji afi okkar voru með hesthús á þessu svæði en þeir unnu báðir hjá Áburðarverksmiðju ríkisins.
Þetta var alvöru sveit í borg með heyskap og girðingarvinnu. Þetta var minn öryggisstaður ef ég loka augunum, inni í hlöðu, í rólunni eða liggjandi út í haga.“
Tókum inn sitthvorn hestinn
„Það var eftirminnilegt þegar við fengum að ríða á hestunum með afa og Hjálmari frá Gufunesi upp í Mosfellsbæ og alla leið heim í Barrholt. Mig dreymdi alltaf um að geta haft hestana á Varmárbökkum í hesthúsahverfinu og það fór svo að árið 1994 tókum við systurnar inn sitthvorn hestinn. Systir mín flutti síðan til Kaupmannahafnar og ég var því ein með hestana þann veturinn en þó aldrei ein því foreldrar mínir studdu alltaf við bakið á mér.
Það var líka vel hugsað um mann í hesthúsahverfinu, mikið af góðu fólki og ég á Þresti Karlssyni vini mínum mikið að þakka, ég fékk inni hjá honum í húsi og hann hjálpaði mér óendanlega mikið og hefur alltaf gert.“
Starfaði á hestaleigu
„Ég gekk í Varmárskóla og Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar og leið alltaf vel í skólanum. Við stelpurnar vorum lengi í fótbolta en svo færðum við Ása vinkona okkur yfir í handbolta. Á sumrin passaði ég börn, sinnti hestunum mínum, starfaði á reiðnámskeiði, var í unglingavinnunni og nokkur sumur starfaði ég á hestaleigunni á Reynisvatni, þaðan á ég yndislegar minningar.
„Ég fór í Menntaskólann við Sund en skipti svo yfir í Borgarholtsskóla og kláraði stúdentinn 2003. Með námi starfaði ég hjá World Class en eftir stúdentinn vissi ég ekki hvað ég vildi gera svo ég hélt áfram störfum þar.“
Við getum hlaðið okkur orku
„Í World Class fór ég í minn fyrsta jógatíma, þá kviknaði ljósið og ég fann þennan innri frið sem fylgir þessari iðkun. Síðar á lífsleiðinni eða árið 2018 skellti ég mér í jóganám til Rishikesh á Indlandi. Þegar kom að því að finna starf á þeim vettvangi hér heima þá lá beinast við að ræða við eigendur World Class. Hafdís hvatti mig áfram og ég vona að mér hafi tekist að kveikja jóganeista hjá iðkendum.
Jóga þýðir sameining, á einstaklingssálinni og alheimssálinni, þegar við köfum dýpra þá finnum við þessa tengingu, að eitt er allt og allt er eitt. Ég trúi því að við getum hlaðið okkur orku og vellíðan með jóga og tengingu við náttúruna. Við losum um ákveðin boðefni innra með okkur og komum auga á falleg augnablik þegar við leyfum okkur að vera hér og nú en ekki föst í fortíð og framtíð.“
Nýtur þess að brölta um landið
„Ég hóf nám í Háskóla Íslands í líffræði en eftir fyrstu önnina skipti ég yfir í dönsku. Ég útskrifaðist 2010 og fór í framhaldi í kennslufræði. Ég starfaði sem dönskukennari við FMOS á árunum 2011-2016. Það var dásamlegt að koma inn í skóla sem fór algjörlega eftir nýjum vísindum og stefnum í kennslufræðum.
Samhliða kennslunni starfaði ég tvö sumur á ferðaskrifstofu og eftir það fór ég í leiðsögunám. Eftir að ég hóf störf sem leiðsögumaður uppgötvaði ég að það væri mikilvægt að hafa meirapróf svo ég bætti því við. Ég tek að mér stök verkefni og nýt þess að brölta um landið með ferðamenn.“
Ákveðin liðsheild sem myndast
Sambýlismaður Írisar er Haraldur Árni Hróðmarsson knattspyrnuþjálfari. Sonur þeirra er Hjálmar Þór f. 2020 en fyrir átti Íris þá Loga f. 2005 og Leo f. 2010. Íris Dögg hefur undanfarin ár starfað sem flugfreyja hjá Icelandair og líkar vel.
„Árið 2015 hvatti Lára vinkona mín mig til að sækja um sumarstarf hjá Icelandair. Ég lét tilleiðast og verð alltaf þakklát fyrir það því eftir fyrsta sumarið fann ég að mig langaði til að halda áfram og ég kvaddi því FMOS með trega.
Ég elska flugið og samstarfsfólk mitt, þetta er lifandi starf og enginn dagur er eins. Það er ákveðin liðsheild sem myndast um borð og það er gott að vinna á þannig vinnustað.“
Bíllinn kom á miklum hraða
Í apríl 2022 var Íris að koma heim úr flugi frá Stokkhólmi þegar keyrt var á bíl hennar við hringtorg í Mosfellsbæ. Hún var kyrrstæð þegar pallbíll kom á miklum hraða og keyrði aftan á hana. Íris missti meðvitund og var flutt á sjúkrahús með áverka á höfði. Viku eftir slysið var hún lögð inn á gjörgæslu þar sem hún lá í fimm daga. Íris er enn að glíma við eftirköstin en segist aldrei hafa misst trúna á að hún myndi ná fullum bata.
„Í dag er ég í 50% starfi hjá Icelandair og stjórnendur þar hafa reynst mér vel. Ég starfa einnig sem jógakennari en ég leiði námskeið hjá GoMove og Mjölni. Árið 2020 setti ég á stofn mitt eigið verkefni sem ég kalla irisyogablisss, þar blanda ég saman jóga og útivist með það að markmiði að hjálpa fólki við að bæta heilsu og vellíðan. Ég hef líka verið með svokallaðar hleðsluhelgar á hótelum úti á landi og á höfuðborgarsvæðinu.
Ég veit að ég get gert gagn með því að vinna með fólki, ég treysti á flæðið og karma og ég vil gefa það áfram sem hefur hjálpað mér. Jóga og útivist gripu mig eftir slysið og voru stór þáttur í því að koma mér til heilsu aftur og auðvitað læknar, heilbrigðisstarfsmenn og allt góða fólkið í kringum mig, þetta er ómetanlegt,“ segir Íris að lokum er við kveðjumst.