Íslandsmeistari í kokteilagerð
Lokaviðburður Reykjavík Cocktail Weekend var haldinn í Gamla Bíó á sunnudaginn, 7. apríl, með pomp og prakt.
Mikið fjölmenni tók þátt og dagskráin var æsispennandi og fjölbreytt. Spennan náði hámarki þegar úrslit hátíðarinnar voru kunngjörð.
Haldinn var galakvöldverður sem skipulagður var af Barþjónaklúbbi Íslands og dagskráin var þétt. Boðið var upp á metnaðarfulla skemmtidagskrá.
Sópaði að sér verðlaunum á lokakvöldinu
Keppt var til úrslita í Íslandsmeistaramóti barþjóna í hraðakeppni, en þar þurftu keppendur að reiða fram fimm mismunandi kokteila á undir sjö mínútum.
Grétar Matthíasson barþjónn bar sigur úr býtum og var því krýndur Íslandsmeistari annað árið í röð. Grétar fer því út fyrir Íslands hönd í október og keppir á heimsmeistaramótinu í Madeira í Portúgal.
Þetta voru ekki einu verðlaunin sem Grétar á Blik fékk en hann hreinlega fór á kostum og vann til sex verðlaun:
– Fagleg vinnubrögð í klassískri kokteilagerð.
– Fallegasti kokteillinn í klassískri kokteilagerð.
– Besti kokteillinn í klassískri kokteilagerð.
– Besti árangur í þef- og bragðprófi.
– Besti árangur í hraðaprófi.
Og svo auðvitað Íslandsmeistari barþjóna í samanlögðu.
„Drykkurinn minn ber nafnið Volvoinn og er gerður til heiðurs nýlátnum föðurbróður mínum sem var einn af okkar bestu barþjónum á Íslandi“, segir Grétar Matthíasson.
Verðlaunadrykkur Grétars verður að sjálfsögðu í boði á Blik Bistro í Mosfellsbæ.