Innleiðum nútímalegri stjórnun á bæjarfélaginu

oddvitar_mosfellingur_valdimar

Kjósendur í Mosfellsbæ geta valið á milli átta framboða í sveitarstjórnarkosningunum laugardaginn 26. maí. Í nýjasta tölublaði Mosfellings sitja oddvitar framboðanna fyrir svörum. Hér er á ferðinni oddviti Viðreisnar.

 

Nafn: Valdimar Birgisson

Aldur: 55

Gælunafn: Ég var alltaf kallaður Valli Bigga Vald á Ísafirði, en Valdi hér fyrir sunnan.

Starf: Auglýsingasérfræðingur.

Fjölskylduhagir:
Kvæntur Sigríði Dögg Auðunsdóttur fréttamanni og eigum við hjónin sex börn. Að auki á ég tvö barnabörn.

Hvar býrðu? Akurholti 17.

Hvað hefur þú búið lengi í Mosó?
Hef búið hér með einu hléi frá 2008.

Hvað áttu marga vini á Facebook?
Rúmlega 2.000

Um hvað snúast kosningarnar 2018?
Kosningarnar snúast um hvort við viljum innleiða nútímalegri stjórnun á bæjarfélaginu eða halda okkur við það gamla.

Hver er merkasti Mosfellingurinn?
Það er Halldór Laxness en af núlifandi Mosfellingum er það Jökull í Kaleo.

Hvernig er kynjahlutfall og aldursdreifing á listanum ykkar?
Við erum með fléttulista þannig að það er jafnt hlutfall kynja á listanum. Hrafnhildur Jónsdóttir er elst 59 ára, Tamar Klara Lipka Þormarsdóttir og Ari Páll Karlsson eru bæði 21 árs. Fimm af fyrstu 9 eru 30 ára eða yngri.

Hefur þú komist í kast við lögin?
Ég er nýbúinn að fá sekt fyrir að leggja ólöglega í Skaftahlíð. Mjög neyðarlegt.

Er pólitík skemmtileg?
Hún getur verið það, já, og ætti ekki að vera skemmandi ef við gætum þess að fara í málefnin en ekki manninn. Það er ekkert að því að takast á um málefni en um leið verður að gæta þess að bera virðingu fyrir fólki.

Uppáhaldsviðburður í Mosó?
Það er Í túninu heima. Gaman að sjá hvernig sú hátíð hefur vaxið og íbúar taka þátt í henni.

Hvað drekkur þú marga kaffibolla á dag?
Ég drekk opinberlega tvo bolla á dag.

Fallegasti staður í Mosfellsbæ?
Það fyrsta sem ég féll fyrir þegar ég bjó á Ökrum voru bakkar Varmár frá dælustöðinni og uppúr. Núna get ég talið upp fleiri, svo sem Leiruvogurinn og strandlengjan þar, og svo er Mosfellsdalurinn allur fallegur.

Besti matur í Mosó?
Það er Osso Bucco sem konan mín eldar af stakri snilld eins og svo margt annað. Það er eiginlega besti matur í heimi að mati sérfræðinga.

Eitthvað sem fólk veit ekki um þig?
Örugglega fullt. Til dæmis var ég í unglingalandsliðinu á skíðum, ég var sjómaður í mörg ár og svo vann ég við að selja snyrtivörur um hríð.

Hverja tækir þú með þér á eyðieyju?
Konuna mína, Sigríði Dögg, því að ég myndi vilja upplifa eyðieyjudvöl með henni, Gordon Ramsay, til að elda fyrir mig góðan mat, Ricky Gervais til að stytta mér stundir, og Elon Musk til að koma mér heim aftur.

Hvað finnst þér vanta í Mosó?
Það væri gott að hafa góðan matsölustað í bænum. Það vantar meiri þjónustu í Mosfellsbæ.

Síðasta SMS sem þú fékkst?
Tveir fyrir einn á Bergsson …

Hvað er markmiðið að ná mörgum inn í bæjarstjórn?
Markmiðið er að ná tveimur inn.

Með hverjum hugnast þér að starfa eftir kosningar?
Góðu fólki. Það er fullt af því í öllum flokkum í Mosfellsbæ og við sjáum bara tækifæri en ekki vandamál þar.
Spilar árangur flokksins á landsvísu rullu í Mosó? Eflaust eitthvað en sveitarstjórnarkosningar snúast um þær áskoranir sem eru hér en ekki annars staðar.

Af hverju ætti fólk að kjósa þinn lista?
Vegna þess að það er kominn tími á breytingar og við erum fólkið sem getur komið þeim breytingum á.

—–

Kynning á framboðslista Viðreisnar– Viðreisn ætlar að gera betur

Viðreisn í Mosfellsbæ á Facebook