Íbúar í Mosfellsbæ ánægðir
Gallup kannar árlega þjónustu sveitarfélaga og mælir viðhorf íbúa til þjónustu í 20 stærstu sveitarfélögum landsins.
Eins og undanfarin ár situr Mosfellsbær í efstu sætum könnunarinnar. Þegar spurt er um sveitarfélagið sem stað til þess að búa á og þjónustuna í heild er Mosfellsbær yfir landsmeðaltali í ellefu málaflokkum af þrettán, en rétt undir landsmeðaltali í tveimur málaflokkum sem felur í sér tækifæri til úrbóta.
Efstu sætin tvö með sömu einkunn
Á árinu 2020 reyndust 88% aðspurðra frekar eða mjög ánægðir með sveitarfélagið sem stað til að búa á. Um 10% svara spurningunni með svarinu hvorki né og einungis 2% íbúa eru óánægðir með sveitarfélagið sem stað til þess að búa á. Mosfellsbær hækkar um eitt sæti og deilir nú efsta sætinu með Garðabæ en bæði sveitarfélögin eru með einkunnina 4,4 á 5 punkta skala og skilur eingöngu þriðji aukastafur sveitarfélögin að.
Um 77% íbúa eru ánægðir með þjónustu sveitarfélagsins á heildina litið bæði út frá reynslu þeirra og áliti. Hér hækkar sveitarfélagið úr meðaleinkunninni 3,9 í 4 en landsmeðaltalið er óbreytt milli ára. Segja má að þessar tvær spurningar rammi inn mat íbúa á frammistöðu sveitarfélaganna í einstaka málaflokkum og má þar sérstaklega nefna spurninguna um heildarmat á þjónustunni þar sem sú spurning kemur í framhaldi af spurningum um einstaka málaflokka.
Um 97% þeirra sem eiga börn á leikskóla í Mosfellsbæ eru ánægðir með þjónustuna
Yfir landsmeðaltali í flestum flokkum
Eins og áður sagði var Mosfellsbær yfir landsmeðaltali árið 2020 í ellefu málaflokkum af þrettán. Málaflokkarnir tveir þar sem sveitarfélagið er undir landsmeðaltali eru annars vegar þjónusta við aldraða og hins vegar þjónusta við fatlað fólk.
Þegar þjónusta leikskóla er skoðuð má sjá að 75% íbúa voru ánægðir með þjónustu leikskóla en þegar eingöngu er litið til þeirra svarenda sem eiga börn í leikskólum Mosfellsbæjar þá reyndust 97% þeirra ánægðir með þjónustuna. Þá reyndist 81% svarenda mjög eða frekar ánægðir með aðstöðu til íþróttaiðkunar og um 70% eru mjög eða frekar ánægðir með þjónustu við barnafjölskyldur.
Mosfellingar eru samkvæmt könnuninni ánægðir með gæði umhverfisins og eru um 81% ánægðir með þann þátt. Mosfellsbær deilir fyrsta sæti með fjórum öðrum sveitarfélögum þegar kemur að gæði umhverfisins í bænum. Mosfellsbær er í þriðja sæti meðal stærri sveitarfélaga með skipulagsmál almennt, en meðaleinkunn í þeim flokki er almennt mjög lág í samanburði við aðra málaflokka hjá öllum sveitarfélögunum.
Könnunin veitir mikilvægar upplýsingar
Haraldur Sverrisson bæjarstjóri segir að könnun Gallup sé sem fyrr mikilvægur hluti af þeim gögnum sem nýtt eru til þess að vinna að umbótum í starfsemi Mosfellsbæjar en nú standi yfir kynning á niðurstöðum könnunarinnar í nefndum bæjarins.
„Enn sem fyrr raðar Mosfellsbær sér í efstu sæti þegar kemur að mati íbúa á Mosfellsbæ sem stað til að búa á og við stöndum sterk í meginþorra málaflokka. Það skiptir okkur sem störfum fyrir Mosfellinga máli að vita að þeir eru í megindráttum ánægðir með þjónustuna. Könnunin veitir okkur mikilvægar upplýsingar sem við nýtum til þess að standa okkur enn betur og þá sérstaklega þar sem ánægjan minnkar milli ára.
Við höfum markað þá stefnu að vöxtur sveitarfélagsins hafi jákvæð áhrif á þjónustu og þjónustustig og það virðist hafa tekist að mínu mati. Það er hins vegar ekki nóg fyrir okkur að vera yfir landsmeðaltali í ellefu af þrettán málaflokkum.“
Hvatning til starfsfólks
„Niðurstaðan varðandi málefni fatlaðs fólks og þjónustu við aldraða er nokkuð sem við munum rýna vel í góðri samvinnu og samtali við þá sem njóta þessarar þjónustu. Hvað varðar grunnskólana sjáum við það í gögnum könnunarinnar að meðaleinkunn stærri sveitarfélaga hvað varðar grunnskólana er lægri en hjá minni sveitarfélögum.
Ein leið til þess að vinna með þessi gögn er að kanna sérstaklega hvað minni sveitarfélög eru að gera öðruvísi en við. Könnun Gallup er því mikil hvatning til okkar starfsfólks Mosfellsbæjar. Hún lýsir því hvað er að takast vel hjá okkur og beinir sjónum okkar að þjónustu þar sem við getum gert betur.“