Hvernig viljum við þroskast sem samfélag?

Dagný Kristinsdóttir

Mosfellsbær varð formlega að kaupstað 9. ágúst 1987 og fagnaði því 35 ára kaupstaðarafmæli á liðnu ári. Á liðnum áratug eða svo hefur íbúum sveitarfélagsins fjölgað mikið. Það kemur okkur ekki á óvart – því það er gott að búa í Mosó.
Nú þegar íbúum sveitarfélagsins hefur fjölgað þurfum við sem samfélag að velta því fyrir okkur, hvernig viljum við halda áfram og hvernig viljum við þroskast? Hvað viljum við sjá í okkar samfélagi eða erum við bara sátt við það eins og það er?
Myndum við ekki vilja að fleiri legðu leið sína í okkar fallega bæ til að skoða, njóta og staldra við?
Hvað eru aðrir að gera?
Ástæður þessara vangaveltna og þessarar greinar eru þær að um liðna helgi lagði ég leið mína í Hafnarfjörð og þar streymdi fólkið að. Fólk var annars vegar að sækja tónleika Hunds í óskilum og hins vegar bæjar- og tónlistarhátíðina Hjarta Hafnarfjarðar, en sú hátíð er haldin vikulega yfir hásumarið. Fyrr í sumar var haldin hin árlega Víkingahátíð sem fjölmargir sóttu og að auki er boðið upp á menningar- og heilsugöngur, alla miðvikudaga, sem eru unnar í samstarfi nokkurra stofnana bæjarins. Svo einhverjir viðburðir séu nefndir. Þessir viðburðir eru ekki allir skipulagðir af bænum – en þeir eiga það sameiginlegt að fólk er að leggjast á eitt um að bjóða upp á margvíslega, skemmtilega dagskrá sem fær fólk til að koma í bæinn og kynnast því sem boðið er upp á. Eftir sitja heimsóknir og tekjur sem liggja hjá fyrirtækjum í bænum.
Hvernig væri að við hugsuðum þetta fyrir komandi ár?
Við höfum upp á svo margt að bjóða. Við gætum boðið upp á skipulagðar göngur á fellin, jafnvel einn eða tvo daga þar sem öll fellin væru tekin í einu eða tvennu lagi. Við gætum líka boðið upp á hjólaferðir, söguferð um Álafosskvos, göngutúr um Reykjahverfið og fræðst um hernámið. Við gætum fengið tónlistarfólk bæjarins til að halda tónleika t.d. í Lágafellskirkju, á túninu við Hlégarð eða á Miðbæjartorginu. Við gætum verið með útileikföng á Miðbæjartorginu. Einnig væri hægt að vera með ratleik sem gengi í gegnum bæinn. Markaðurinn í Mosskógum hefur dregið marga að og nú er lag að einhver taki við boltanum þar.
Margt af þessu er gert á Menningu í mars eða á bæjarhátíðinni en við viljum fá fleiri í bæinn en þá einu helgi. Með markvissu skipulagi og vinnu allra aðila værum við að koma bænum á kortið sem áfangastað, ekki bara svefnbæ sem maður keyrir í gegnum. Af þessari vinnu leiðir að fleiri staldri við, sem þýðir að meiri þjónustu er hægt að bjóða upp á í bænum.
Við höfum upp á svo margt að bjóða í okkar umhverfi sem væri gaman að sýna öðrum og myndi lífga upp á sumarlífið okkar.

Dagný Kristinsdóttir
Bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar