Farsæl efri ár

Guðleif Birna Leifsdóttir

Íslensk stjórnvöld hafa nýlega sett fram aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk sem ber nafnið „Gott að eldast“ sem byggir á nýrri hugsun við ört stækkandi hóp í samfélaginu.
Í þeirri áætlun er leitast eftir að breyta og bæta þjónustu við eldra fólk, tryggja þjónustu við hæfi á réttu þjónustustigi og fjölga þeim sem taka virkan þátt í samfélaginu. Lögð er áhersla á heilbrigða öldrun með andlegri, líkamlegri og félagslegri heilsueflingu. Sérleg áhersla er á að auka félagslega virkni og draga úr félagslegri einangrun og einmanaleika eldra fólks.
Félagsleg einangrun einstaklinga er vaxandi vandamál á heimsvísu. WHO Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur vakið athygli á alvarleika málsins og metur félagslega einangrun sem ógn við lýðheilsu á pari við reykingar, ofneyslu áfengis og hreyfingarleysi. Félagsleg einangrun og einmanaleiki eru einnig tengd kvíða, þunglyndi, sjálfsvígum og heilabilun og geta aukið líkur á hjarta- og æðasjúkdómum og heilablóðfalli.
Á sex svæðum á landinu hafa verið ráðnir tengiráðgjafar, sem hafa m.a. það hlutverk að hafa yfirsýn yfir bjargir í nærsamfélaginu, auka félagsleg samskipti einstaklinga og hópa í viðkvæmri stöðu, vinna að betri tengingu á milli þjónustuaðila og auka samtal milli félagsþjónustu, heilsugæslu, félagasamtaka, trúfélaga, sjálfboðaliðasamtaka og fleiri aðila.
Hugmyndin er að virkja nærumhverfið og taka betur utan um fólk sem er félagslega einangrað eða einmana. Hlutverk tengiráðgjafa er þannig að stíga inn í og finna lausnir sem henta hverjum og einum.
Það er mikilvægt að draga úr félagslegri einangrun sem hefur áhrif bæði á einstaklinga og samfélagið. Aukin félagleg tengsl efla bæði andlega og líkamlega heilsu, auka lífsgæði, vellíðan og bæta samfélagið.
Undirrituð er tengiráðgjafi fyrir Mosfellsbæ, Kjalarnes og Kjós og starfar á velferðarsviði Mosfellsbæjar. Velkomið er að hafa samband við mig varðandi ráðgjöf og upplýsingar um þá þjónustu sem er í boði.

Guðleif Birna Leifsdóttir
Tengiráðgjafi á velferðarsviði Mosfellsbæjar
gudleifl@mos.is
s. 525-6700