Hvernig viljum við sjá bæinn okkar þróast?
Á þeim 50 árum sem ég hef búið í Mosfellsbæ, þá hef ég verið sannfærðari og sannfærðari um að það sé best að búa í Mosfellsbæ.
Við höfum okkar sérkenni innan höfuðborgarsvæðisins sem erfitt er að útskýra fyrir utanbæjarmönnum, en hugtakið sveit í borg er ein leiðin til að útskýra þetta. Við erum enn pínu sveitó og ég held að flest okkar vilji bara vera það. Við eigum eitt íþróttafélag – við erum öll í Aftureldingu – vonandi breytist það aldrei. Svo eigum við félagsheimilið Hlégarð – hversu sveitó er það?
Ég var að rýna í niðurstöður úr áhugaverðri rannsókn sem Kolbeinn H. Stefánsson, dósent við félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands, vann fyrir Reykjavíkurborg um „Félagslegt landslag í Reykjavík (og nágrenni)“ og kynnt var sl. föstudag.
Í skýrslunni er mjög áhugaverður samanburður á íbúasamsetningu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu út frá ýmsum sjónarhornum.
Þar kemur m.a. fram að:
– meðalaldur íbúa í Mosfellsbæ er lægstur á höfuðborgarsvæðinu (35,7 ár)
– hlutfall barna undir 18 ára aldri er hæst í Mosfellsbæ (26%)
– hlutfall fólks á eftirlaunaaldri (+66 ára) er með því hæsta á höfuðborgarsvæðinu (16,5%)
– hlutfall barna sem voru með lögheimili hjá einstæðu foreldri er með því lægsta á höfuðborgarsvæðinu (17,9%).
Svo þegar kemur að samanburði á tekjujöfnuði á milli sveitarfélaga, þá kemur Mosfellsbær best út allra sveitarfélaganna.
Við erum með lægsta Gini-stuðul ráðstöfunartekna (0,268), hlutfall á milli meðaltals og miðgilds eiginfjárstöðu heimila var það næst besta á höfuðborgarsvæðinu og lágtekjuhlutfall (innan við 60% af miðgildi ráðstöfunartekna) var það lægsta innan höfuðborgarsvæðisins (10,9%).
Þessi rannsókn sýnir okkur bara enn einn vinkilinn á því að Mosfellsbær er einstakt sveitarfélag samanborið við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu.
Útskýringar á því af hverju Mosfellsbær kemur svona vel út úr þessari könnun eru eflaust margþættar, en ég efast ekki um að sú staðreynd að í Mosfellsbæ er áberandi önnur samsetning á íbúðabyggð en í hinum sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu, er ein af skýringunum.
Í Mosfellsbæ er ca. 50% íbúða í sérbýli og 50% íbúða í fjölbýli. Stærð í íbúða í sérbýli í Mosfellsbæ er líka sérstök, þar sem við erum með hátt hlutfall af litlum sérbýlishúsum. Einnig erum við með áberandi hátt hlutfall af litlum fjölbýlum, eins og 4-8 íbúða fjölbýlum með sér inngangi. Þetta hefur þó breyst mjög hratt sl. 10 ár, þar sem allur fókus hefur verið á að byggja stór fjölbýlishús með lyftu og bílakjallara.
Við þurfum að gæta að því að uppbygging íbúðarhúsa verði ekki of einsleit á næstu árum, til að eyðileggja ekki þetta jafnvægi á milli sérbýla og fjölbýla, sem við búum við í dag
Ég vona svo sannarlega að bæjarfulltrúar okkar kynni sér þessa könnun og að þeir velti fyrir sér, hvað er það sem skilgreinir okkur sem Mosfellinga og af hverju er svona gott að búa í Mosfellsbæ? Af hverju vilja fjölskyldur ala upp börn í Mosfellsbæ, og af hverju vill eldra fólki búa áfram í Mosfellsbæ?
Af hverju er félagslegur jöfnuður meiri í Mosfellsbæ en í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu?
Að lokum vona ég að bæjarfulltrúar Mosfellsbæjar falli sem fyrst frá þeim hugmyndum að byggja upp þétta borgarbyggð í landi Blikastaða, en skv. drögum að aðalskipulagi, sem kynnt voru í sumar, þá gerir sveitarfélagið ráð fyrir að byggðin á Blikastöðum verði svo til þrefalt þéttari (45,3 íb/ha) en byggðin í Holta-, Tanga og Höfðahverfi (nú 15,4 íb/ha).
Þar ráðgerir Mosfellsbær að 80% allra íbúða skuli vera í fjölbýli, en eingöngu 20% í sérbýli.
Þetta er í engu samræmi við aðra byggð í bænum okkar og ég er sannfærður að þetta muni gjörbreyta þessu viðkvæma jafnvægi sem gerir Mosfellsbæ eins góðan og hann er í dag.
Einar Páll Kjærnested