Hvernig líður þér í fótunum?
Að fara reglulega til fótaaðgerðafræðings ætti að vera jafn mikilvægt og að fara til tannlæknis.
En hverjir eru það sem ættu að fara til fótaaðgerðafræðings? Svarið er einfalt – ALLIR. Þeir sem hafa farið til fótaaðgerðafræðings hafa fundið fyrir hversu mikil vellíðan fylgir slíkri heimsókn. Allir ættu að huga vel að fótum sínum því þeir leika stórt hlutverk í því að halda líkama okkar uppi og koma okkur frá einum stað til annars.
Til fróðleiks má geta þess að með hverju skrefi sem við tökum setjum við 1,5 x eigin þyngd okkar á fótinn í hverju skrefi. Manneskja sem vegur 70 kg setur þannig 105 kg á fótinn í hverju skrefi.
Þeir sem hafa einhvern tíma glímt við einhvers konar fótamein vita hversu hvimleitt það er að finna fyrir sársauka í hverju skrefi og þurfa jafnvel að beita líkamanum á annan hátt til að minnka fótverki. Slík líkamsbeiting getur í sumum tilvikum haft slæmar afleiðingar, til dæmis verki upp í bak. Þegar óþægindi láta á sér kræla til dæmis niðurgróningur á nögl eða jafnvel sprungur á hælum er mikilvægt að leita til fótaaðgerðafræðings svo hægt sé að koma í veg fyrir frekara mein.
Fótaaðgerðafræðingar ráðleggja einnig þeim sem eru sykursjúkir um mikilvægi umhirðu fóta, hvað beri að varast og ekki síst mikilvægi þess að láta fylgjast reglulega með fótunum svo sem skynjun, húðbreytingar og margt fleira.
Mosfellingar nýta sér án efa þá náttúruperlu sem nánasta umhverfi þeirra býður upp á og eru það mikil forréttindi. Gönguferðir eru eflaust vinsælar og er þá mikilvægt að vera vel skóaður og ekki síður í góðum sokkum. Þessir þættir eru ekki síður mikilvægir þegar kemur að umhirðu og heilbrigði fóta.
Of þröngir skór og sokkar geta leitt til fótameina sem væri hægt að komast hjá ef við erum meðvituð um hvað gerir okkar fætur heilbrigða og hvað við getum gert til að viðhalda því.
Sá sem nýtir sér þjónustu fótaaðgerðafræðings fær einnig fræðslu um hvernig best sé að hugsa um fæturna og veita fótaaðgerðafræðingar góð ráð varðandi umhirðu fóta, val á skóm, sokkum, innleggjum og hlífum.
Rósa Jósefsdóttir fótaaðgerðafræðingur
Fótaaðgerðastofu Mosfellsbæjar