Hvað viltu?

Vala Mörk

Vala Mörk

Að taka ákvörðun um að byrja á verki og takast á við það er skemmtilegt. Að ljúka verkefni vel fylgir mikil vellíðan. Það skiptir ekki öllu hvort verkefnið hafi verið stórt eða lítið.
Allt frá því að negla upp myndina sem er búin að liggja á gluggakistunni síðustu fjórar vikur eða brjóta saman þvottahrúguna sem hylur sófann. Það getur líka verið stórt verkefni eins og að mála húsið eða klára viðbygginguna sem virtist ætla að verða endalaus. Svona verk krefjast sýnilegrar orku og við sjáum árangurinn skýrt.
Góða tilfinningin sem fylgir því að virða fyrir sér útkomuna, leyfa sér að njóta tilfinningarinnar og hrósa sjálfum sér fyrir vel unnið verk. Jafnvel þótt það sé bara myndin sem komst loks upp á vegg.
Huglægu verkefnin eru snúnari. Þau eru ekki eins sýnileg. Allar ákvarðanir sem við tökum ættu að vera tengdar vitundinni um hvert við viljum stefna. Þegar við gleymum (eða frestum því) að hugsa um hvað við viljum og hvað okkur langar í lífinu, verður erfitt að taka stórar ákvarðanir og enn erfiðara að taka réttar ákvarðanir fyrir okkur sjálf.
Ef við vitum ekki hvað við viljum erum við líklegri til að fresta því að taka ákvarðanir hvort sem þær tengjast vinnunni, flutningum, bílnum, börnunum, hreyfingunni og bara því sem hvílir á huganum.
Ákvarðanirnar ættu að vera í takti við hvað við viljum og hjálpa okkur þá að stefna að því. Láta drauma rætast. Með því að gefa okkur tíma til að skoða langanir okkar og skoða möguleikana sem við höfum eða getum búið til, erum við að taka ákvörðun um að fresta ekki draumnum okkar heldur láta hann rætast.
Gefðu þér tíma og hugsaðu eitt ár fram í tímann. Hér eru tvö verkefni: Skrifaðu niður stóran draum og gerðu eitthvað í dag til þess að færa þig nær honum.
Vala Mörk, iðjuþjálfi.

Heilsuhornið
Mosfellingur 22. október 2015