Hvað er Rótarý?
Rótarý er hreyfing fólks úr viðskipta- og atvinnulífi og opinberri þjónustu. Rótarýhreyfingin er alþjóðafélagsskapur sem er starfandi í meira en 200 löndum í öllum heimsálfum.
Félagar eru rúmlega 1,2 milljónir í um 35 þúsund klúbbum. Þessi alþjóðlegu samtök standa fyrir mannúðar- og menningarstarfi, stuðla að sem bestu siðgæði í öllum starfsgreinum og hvetja til góðvildar og friðar í heiminum. Til marks um það er opinbert kjörorð alþjóðahreyfingarinnar: „Þjónusta ofar eigin hag“.
Á Íslandi eru starfandi 31 rótarýklúbbur með um 1300 félaga. Í klúbbunum er lifandi starf og vikulegir eða hálfsmánaðarlegir fundir með fróðlegum fyrirlestrum og umræðu. Félagar eru á öllum aldri og af báðum kynjum. Rótarýfélagi getur sótt rótarýfund hjá hvaða rótarýklúbbi sem er í heiminum.
Rótarýdagurinn er haldinn hátíðlegur þann 24. febrúar næstkomandi og af því tilefni er Rótarýhreyfingin á landsvísu að vekja athygli á starfsemi sinni.
Hvað gerir Rótarý fyrir samfélagið ?
Rótarý leggur áherslu á ýmis mannúðarmál og ber þar fyrst að nefna verkefnið End Polio Now þar sem klúbbarnir leggja sitt af mörkum í baráttunni við útrýmingu lömunarveiki í heiminum. Rótarý á Íslandi styrkir síðan árlega efnilega tónlistarmenn í gegnum tónlistarsjóð sinn og var Víkingur Heiðar Ólafsson fyrsti styrkþegi tónlistarsjóðsins. Rótarýklúbbur Mosfellssveitar hefur veitt árleg samskiptaverðlaun til grunskólanema og ennfremur staðið fyrir skógrækt hér í heimabænum. Síðast en ekki síst veitti Rótarý í tengslum við nýliðið Umdæmisþing styrki til þriggja mjög verðugra samfélagsverkefni hér í Mosfellsbæ.
Hvað gefur Rótarý félögum sínum ?
Rótarý er félagsskapur sem eflir þekkingu og kunningsskap milli starfstétta og þar skapast tækifæri til áralangrar vináttu og samstarfs í gegnum skemmtileg viðfangsefni. Haldnir eru fjölbreyttir og fræðandi fyrirlestrar þar sem farið er yfir það sem efst er á baugi hverju sinni. Árlega heldur klúbburinn skemmtilega hátíðarfundi og fer saman í ferðir og nýtur útivistar í nærsamfélaginu en einnig hafa félagsmenn skellt sér saman í ferðir utan landssteinanna.
Rótarýklúbbur Mosfellssveitar
Rótarýklúbbur Mosfellssveitar var stofnaður þann 17. mars 1981 og er hann því rétt tæplega 37 ára gamall. Fundað er yfir vetrartímann á þriðjudögum kl. 18:15 í nýja Golfskálanum Kletti. Hafir þú eða þið áhuga á Rótarý eða viljið gerast félagar er velkomið að hafa samband við Jóhönnu Björgu Hansen forseta Rótarýklúbbs Mosfellssveitar starfsárið 2017-2018 eða Þuríði Yngvadóttur ritara klúbbsins.
Jóhanna Björg Hansen
Forseti Rótarýklúbbs Mosfellssveitar
starfsárið 2017-2018