Huldumenn með útgáfutónleika

Það hafa aldrei verið læti í Birgi Haraldssyni söngvara, nema þegar hann syngur. Þá heyra það allir. Hann hefur verið verkstjóri hjá Ístex í hartnær 30 ár en um helgar breytist þessi annars hægláti maður í öskrandi tröll. Það þekkja allir Bigga Gildru, manninn með gullbarkann og faxið síða.

Splunkuný plata spiluð í heild sinni
Biggi hóf feril sinn með hljómsveitinni Gildrunni árið 1986 og var fljótt landsþekktur fyrir háa rödd sem þeyttist yfir tónsviðið án fyrirhafnar. Þegar Gildran sendi síðan frá sér Vorkvöld í Reykjavík skaust hann ásamt félögum sínum upp á rokkstjörnuhimininn.
Gildran starfaði í hartnær 30 ár með hléum og muna flestir Mosfellingar eftir „Fló og fjör“ þar sem hljómsveitin fyllti Álafosskvosina ár eftir ár en einnig urðu þeir félagar þekktir fyrir að leika tónlist CCR á veitingastaðnum Álafoss föt bezt sem trymbill hljómsveitarinnar Karl Tómasson rak.
Nú snýr Birgir aftur í Hlégarð með splunkunýja plötu sem hann vann með félögum sínum í hljómsveitinni Huldumönnum. Hann og Sigurgeir Sigmundsson gítarleikari sömdu lögin en flestir textarnir eru eftir Mosfellingana Þóri Kristinsson og Bjarka Bjarnason.

Blanda saman rokki og kór
„Þetta verður frábært kvöld“ segir Birgir. „Við munum flytja lögin af plötunni okkar „Þúsund ára ríkið“, sérstakur gestur er Rokkkór Íslands undir stjórn Matthíasar V. Baldurssonar. Það er yndislegt að blanda saman rock and roll og kórtónlist þannig að úr verður eldheit upplifun. Svo fljóta örugglega með nokkrir Gildru­smellir og kannski Creedence-syrpa.“
Eflaust hafa margir hug á því að sjá Bigga aftur með Huldumönnum 6. mars en tónleikarnir hefjast kl. 21 og miðasala er á Tix.is.