Hugurinn skapar þann veruleika sem við upplifum…
Í janúar er ár frá því að ég tók þeirri áskorun að stíga inn í okkar pólitíska umhverfi. Árið hefur verið mér afar lærdómsríkt og ég er ykkur einstaklega þakklát fyrir allan þann stuðning sem mér hefur verið sýndur.
Eftir síðustu kosningar tók ég sæti varabæjarfulltrúa sem 5. maður á lista Sjálfstæðisflokksins og sit í fræðslunefnd bæjarins.
Það sem af er kjörtímabilinu hef ég lagt mig fram að kynnast málefnum bæjarins, sækja bæjarstjórnafundi og sinna starfi mínu í fræðslunefnd. Ég er afar stolt af bænum okkar og öllu því starfi sem hér er í gangi og ekki síst öllu því góða fólki sem leggur sitt af mörkum til að gera bæjarfélagið eins og það er í dag.
Á bæjarstjórnarfundum er oft tekist á um málefni þar sem ólíkar skoðanir mætast í lýðræðislegu samfélagi. Þetta getur verið flókið samspil enda skapar hugurinn þann veruleika sem við upplifum og sem varabæjarfulltrúi hef ég fengið einstakt tækifæri til að hlusta, skilja og sjá. Sjá hvernig umræðan sem ætti að vera málefnaleg helgast af misskilningi aðila á milli.
Bæjarstjórn okkar Mosfellinga er skipuð 6 stjórnmálaflokkum og þrátt fyrir ólíkar áherslur og frábrugðinn skilning á samvinnu og samlyndi á hinum ýmsum málefnum má finna einhug innan meirihlutans og okkar sjálfstæðismanna. Einhug um að skapa sterkt og öflugt samfélag. Samfélag sem hefur ekki einungis það hlutverk að auka velferð okkar heldur einnig að flétta saman þá þætti sem þarf til þess að tryggja velferð okkar bæjarbúa.
Einn þessara þátta er m.a fræðslunefndin. Í fræðslunefnd bæjarins situr gott og efnilegt fólk og við getum sagt með stolti að við eigum góða og öfluga skóla hér í Mosfellsbæ. Inni í fræðslunefnd sé ég að innan veggja skólanna eru góðir og metnaðarfullir kennarar, nemendur, stjórnendur og annað starfsfólk sem alla daga leggja sitt af mörkum við að gera sitt besta. Ég finn að utan veggja skólanna stendur kröftugur hópur foreldra sem óskar sér einskis annars en að börnum þeirra vegni vel.
Utan um þennan hóp allan heldur svo fræðsluskrifstofa bæjarins sem einnig leggur allt sitt af mörkum að aðstoða við að láta alla þessa ólíku hópa og skoðanir mætast til að skólasamfélagið í heild gangi upp í ört stækkandi bæjarfélagi. Það er heiður að fá að taka þátt í þessu starfi, fá tækifæri til að hlusta, sjá og læra inn á ólíkar skoðanir og skapa þann veruleika sem við upplifum.
Ég hlakka til að halda áfram að starfa í þágu bæjarins og í samstarfi við ykkur sinna starfi mínu í fræðslunefnd og sem varabæjarfulltrúi.
Arna Hagalíns, varabæjarfulltrúi
og nefndarmaður í fræðslunefnd.