Samgönguáætlun og fjármögnun samgöngumannvirkja

Bryndís Haraldsdóttir

Bryndís Haraldsdóttir

Nýverið samþykkti Alþingi samgönguáætlun, í fyrsta skipti til 15 ára með aðgerðaáætlun til 5 ára. Er það hluti af breyttum áherslum í Stjórnarráðinu um að horft sé til lengri tíma í allri stefnumótun. Umræðan um samgönguáætlun var að miklu leyti um hugmyndir að því hvernig hægt sé að hraða enn frekar uppbyggingu samgöngumannvirkja með gjaldtöku. Alþingi fól samgönguráðherra að koma fram með slíkar tillögur. Ísland er strjálbýlt land og vegakerfið okkar mjög umfangsmikið miðað við fólksfjölda. Fjárfestingarþörfin í heild er á milli 350–400 milljarðar kr.

Við útfærslu hugmynda um veggjöld er lögð áhersla á að við endurskoðun almennra gjalda, þ.e. olíu- og bensíngjalds og bifreiðaskatts, þarf að tryggja að sértæk gjaldtaka eins og veggjöld auki ekki álögur á bifreiðaeigendur umfram þann ábata sem hlýst af greiðara og öruggara umferðarflæði og bættu umhverfi.
Lögð er áhersla á að gætt verði meðalhófs við ákvörðun fjárhæðar gjaldsins og horft verði til þess að veita magnafslætti en einskiptisgjöldin verði hærri. Ekki er gert ráð fyrir að fjárframlög ríkissjóðs til samgönguframkvæmda lækki vegna gjaldtökunnar. Í umræðunni hefur það líka komið skýrt fram að ef komi til sölu ríkiseigna sé horft til þess að nýta þá fjármuni í samgöngumál.

Samgöngubætur í Mosfellsbæ
Í Mosfellsbæ eru tvær mjög brýnar framkvæmdir á áætlun. Fyrst vil ég nefna Vesturlandsveg milli Skarhólabrautar og Hafravatnsvegar, þar er nauðsynlegt að ráðast í öryggisumbætur og tryggja örugga og greiða umferð á 2+2 vegi með aðgreindar aksturstefnur. Nú er tryggt að af því verkefni verður á þessu ári.
Þá er það Þingvallavegur en nauðsynlegt er að tryggja þar öruggar samgöngur bæði fyrir þá sem í gegnum Mosfellsdal fara en ekki síður fyrir þá sem þar búa og þurfa að komast leiðar sinnar hvort sem er gangandi, hjólandi eða akandi.
Mosfellsbær hefur unnið að deiliskipulagi vegarins með hringtorgum, undirgöngum og öruggum hjóla- og göngustíg. Þessi framkvæmd er nú komin á samgönguáætlun og verður vonandi lokið að fullu árið 2021.

Borgarlína og breyttar samgönguvenjur
Öll borgarsamfélög í heiminum leggja áherslu á auknar almenningssamgöngur. Ástæðan er helst betri landnýting og bætt borgarsamfélag en ekki síður loftslagsmál og umferðaröryggismál.
Við vitum að okkur mun fjölga og ef við náum ekki að breyta ferðavenjum mun umferð bíla aukast um 40% fram til ársins 2030. Það væri þvert á stefnu sveitarfélaganna og myndi tryggja að við næðum ekki markmiðum okkar í loftlagsmálum.
En þrátt fyrir breyttar ferðavenjur mun umferðin aukast um allt að 24% á þessum tíma. Þörfin er því brýn bæði í bættum stofnvegum og öflugri almenningssamgöngum. Því er brýnt að hugmyndir að Borgarlínu verði að veruleika í góðu samstarfi ríkis og sveitarfélaga.

Bryndís Haraldsdóttir
Þingmaður Sjálfstæðisflokks