Hugsaðu jákvætt, það er léttara!

Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir

Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir

Heilsa er líkamleg, andleg og félagsleg líðan og gerir einstaklingnum kleift að lifa innihaldsríku lífi (skilgreining WHO). Þriðji áhersluþáttur verkefnisins Heilsueflandi samfélag er geðrækt, líðan og félagslíf. Fyrsta geðorðið hvetur okkur til þess að hugsa jákvætt. Það er auðvelt að festast í viðjum vanans og rannsóknir hafa sýnt fram á að það er algengara að neikvæðar hugsanir brjótist fram í amstri dagsins. Við þurfum að þjálfa heilann til að hugsa jákvætt.
Það að vera jákvæður er ekki aðeins að brosa, vera glaður og ánægður, heldur snýst það um að meta umhverfi sitt á jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Þannig getum við betur haldið einbeitingu, metið aðstæður og tekið skynsamar ákvarðanir.

Neikvæðar hugsanir eins og ótti taka völdin þegar við mætum ljóni og hlaupum í burtu. Flestir hugsa aðeins um það eitt að forða sér og hlaupa en gleyma skynsemi og að meta aðstæður. Það sama á við þegar við hugsum neikvæðar hugsanir um okkur sjálf, við sjáum ekki lausnir fyrir áhyggjum og neikvæðni. Álag og stress margfaldast. Heilinn í raun lokar á umhverfi sitt og einbeitir sér að því neikvæða sem er t.d.: „Ég náði ekki að klára öll verkefnin í dag, ég fór ekki í heimsókn til mömmu eða…“
Á meðan náum við ekki að einbeita okkur að öðrum valkostum, þegar við erum glöð, jákvæð og ánægð. Við tökum oft ekki eftir því þegar við getum verið hamingjusöm, aðeins þegar við erum það ekki. Við verðum að staldra við í amstri dagsins og horfa í kringum okkur og læra að meta allt það sem er í kringum okkur. Ekki bara að vera að hugsa um morgundaginn, eða gærdaginn, hugsum um daginn í dag.
Temjum okkur að sjá það jákvæða, þegar neikvæðar hugsanir heltaka okkur. Í öllum tilfellum er hægt að sjá það jákvæða – við þurfum bara að þjálfa og rækta heilann til þess.
Er glasið þitt hálffullt eða hálftómt?

Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, 
fagstjori EFLU.

Heilsuhornið
Mosfellingur 28. janúar 2016