Sendum fullskipað lið á landsmót

jonadis

Jóna Dís Bragadóttir framhaldsskólakennari og formaður Harðar segir stórt ár framundan í hestamennskunni.
Þann 26. febrúar 1950 kom saman hópur manna úr Mosfellssveit, Kjalarnesi og Kjós. Sameiginlegt áhugamál þeirra var íslenski hesturinn og ræktun hans. Þessir menn stofnuðu Hestamannafélagið Hörð og var fyrsti formaður félagsins Gísli Jónsson í Arnarholti á Kjalarnesi.
Hörður er í dag fjórða stærsta hestamannafélag landsins með um 800 félaga. Formaðurinn, Jóna Dís Bragadóttir, segir mikinn uppgang hjá félaginu og að þau leggi mikla áherslu á barna- og unglingastarfið.

Jóna Dís er fædd í Reykjavík 4. apríl 1963. Foreldrar hennar eru þau Edda Hinriksdóttir hárgreiðslumeistari og fv. framhaldsskólakennari og Bragi Ásgeirsson tannlæknir. Jóna Dís á tvö yngri systkini, þau Hinrik og Guðrúnu Eddu.

Gott að alast upp í Borgarnesi
„Ég ólst upp í Borgarnesi frá sjö ára aldri til tvítugs, fyrir utan menntaskólaárin. Þar var gott að alast upp og ég átti yndislega æsku. Foreldrar mínir hafa alltaf verið í hestamennsku og mín fyrsta bernskuminning er þegar pabbi fór með mig á hestbak og sat með mig fyrir framan sig en þannig byrjaði ég að ríða út. Það var mikil gróska í hestamennskunni á þessum tíma og við fjölskyldan ferðuðumst mikið á hestum.
Nú eigum við sumarbústað á þessum slóðum með foreldrum mínum og erum dugleg að fara þarna í hestaferðir því umhverfið er hvergi fallegra,“ segir Jóna Dís og brosir.

Flutti til Reyjavíkur í nám
„Úr Borgarnesi flutti ég í Stykkishólm þar sem ég bjó í nokkur ár. Þar var líka gott að vera, gaman að koma úr landbúnaðarhéraði yfir í samfélag þar sem allt snérist um fisk, gaman að kynnast því. Þar byggði ég hesthús og reið mikið út.
Ég flutti svo til Reykjavíkur árið 1988 og fór í Háskóla Íslands og lauk þaðan BA-prófi í uppeldis- og menntunarfræðum. Síðar eða árið 2001 lauk ég kennsluréttindanámi og M.Ed.-prófi í stjórnun menntastofnana. Eftir að ég flutti í bæinn stundaði ég hestamennsku með foreldrum mínum og fjölskyldu í Fáki.“

Sameiginlegt áhugamál að ferðast
„Árið 1989 kynntist ég eiginmanni mínum, Helga Sigurðssyni, dýralækni og sagnfræðingi og fljótlega flutti ég í Mosfellsbæinn. Við Helgi eigum samtals sex börn og sjö barnabörn þannig að fjölskyldan er orðin ansi stór. Eygerður er fædd 1978, Fjóla Dögg fædd 1980, Bragi Páll fæddur 1984, Marel fæddur 1987, Anna Jóna fædd 1993 og Hinrik Ragnar fæddur 1994.
Fljótlega eftir að ég flutti fengum við okkur hesta. Á þessum tíma var mikið að gera hjá okkur en ég fann alltaf tíma til að ríða út, það algjörlega bjargar sálartetrinu,“ segir Jóna Dís og hlær.
Í dag hefur þetta breyst, Helgi ríður ekki eins mikið út, hann sinnir hestum í sinni vinnu og hans áhugamál er að skrifa bækur. Sameiginlegt áhugamál okkar hjóna í gegnum árin hefur verið að ferðast og höfum við komið til rúmlega 70 landa og allra heimsálfa nema einnar. Auðvitað höfum við komið oft til sumra landa oftar en einu sinni en reynum að komast öðru hverju á nýjar slóðir.
Ég vann hjá Mosfellsbæ í sautján ár, fyrst á leikskólanum Reykjakoti og kenndi síðan í Varmárskóla í fjórtán ár. Nú kenni ég í Tækniskólanum í Reykjavík sem er mjög skemmtilegt en þar kenni ég útlendingum íslensku.“

Reiðhöllin er hornsteinninn okkar
„Fyrir rúmum þremur árum var ég beðin um að taka að mér að vera formaður Hestamannafélagsins Harðar og ég tók þeirri áskorun.
Hörður er fjórða stærsta hestamanna­félag á landinu með um 800 félaga og er jafnframt fyrirmyndarfélag innan ÍSÍ.
Stjórn Harðar vinnur vel saman en við erum níu í stjórn. Við vorum heppin þegar við tókum við, en þá var nýbúið að byggja reiðhöllina en hún er hornsteinninn í okkar félagsstarfi á veturna. Hún er mjög mikið notuð og mikið skipulag þarf til að koma öllum þeim námskeiðum fyrir sem við bjóðum upp á. Helmingur af höllinni er svo ávallt opinn almenningi. Einnig leigjum við FMOS reiðhöllina undir hestabrautina sem þar er kennd.“

Öflugt starf fyrir fatlaða
„Í Herði er rekið öflugt starf fyrir fatlaða en þeir koma á hestbak sex daga vikunnar frá september fram í maí. Öll sú starfsemi er rekin af sjálfboðaliðum og hefur það starf hlotið margar viðurkenningar. Starfið við fatlaða er unnið í samstarfi við skólana í Mosfellsbæ, en krakkarnir koma og aðstoða og fá einingar fyrir.
Við leigjum líka út reiðhöll sem er í einkaeign á svæðinu svo að við getum boðið upp á enn fjölbreyttari námskeið. Reiðkennar­arnir okkar eru allir menntaðir og við leggjum mikla áherslu á barna- og unglingastarfið. Þau fara í hinar ýmsu ferðir, fá fyrirlesara og fleira fyrir utan námskeiðin sem eru vel sótt.“

Félagsheimilið stækkað um helming
„Síðastliðið ár höfum við verið að byggja við félagsheimilið okkar, Harðarból. Það var karlaklúbbur Harðar, Áttavilltir, sem stóð að þeirri byggingu og var öll sú vinna unnin í sjálfboðavinnu og félagsmennirnir lögðu til efni og annað sem til þurfti.
Það er ótrúlegt hvað félagsmenn eru tilbúnir til að leggja mikla vinnu á sig fyrir félagið.
Félagsheimilið var stækkað um helming og er nú orðið hið glæsilegasta. Salurinn tekur 180 manns í sæti og næsta vers er að safna fyrir stólum, borðum og borðbúnaði. Salurinn er líka leigður út til almennings.“

Landsmót framundan að Hólum
„Framundan er stórt ár í hestamennskunni, landsmót verður haldið að Hólum í Hjaltadal og verður það mjög spennandi. Við sendum fullskipað lið og erum þegar farin að undirbúa það.
Sumarið 2015 var mjög ánægjulegt fyrir okkur Harðarmenn en þá eignuðumst við heimsmeistara í Herning í Danmörku. Það var Reynir Örn Pálmason sem vann þann titil ásamt því að fá tvö silfur.“
Reynir Örn hlaut á dögunum titilinn íþróttamaður Mosfellsbæjar.

Landsbyggðin hefur alltaf heillað mig
„Fyrir rúmu ári var ég kosin í stjórn Landssambands hestamannafélaga og er þar varaformaður. Þar kynnist maður landsbyggðinni sem hefur alltaf heillað mig. Stjórn LH hefur farið víða í heimsóknir til hestamannafélaga og er ótrúlega gaman að sjá hvað grasrótin vinnur mikið og gott starf.
Það er mikið að gerast í hestamennskunni, t.d. viðamikið markaðsverkefni sem stjórnað er af Íslandsstofu og styrkt af ráðuneytum. Að þessu verkefni koma öll fag­félög hestamennskunnar ásamt háskólunum.
Við héldum ráðstefnu í haust þar sem rætt var um framtíð landsmóta og eru hestamenn mjög sammála um hvernig landsmót eiga að vera. Nú erum við að fara að ákveða hvar landsmótin 2020 og 2022 eiga að vera og það verður sannarlega áhugavert,“ segir Jóna Dís er við kveðjumst.

Myndir og texti: Ruth Örnólfs