Jafnréttisviðurkenning Mosfellsbæjar
Búsetukjarninn í Þverholti 19 hlýtur jafnréttisviðurkenningu Mosfellsbæjar 2015.
Jafnréttisdagur Mosfellsbæjar var haldinn hátíðlegur föstudaginn 18. september og var yfirskrift dagsins 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna. Dagskrá fór fram í hátíðarsal Framhaldsskólans í Mosfellsbæ. Hápunktur dagsins var þegar jafnréttisviðurkenning Mosfellsbæjar 2015 var veitt.
Viðurkenningin er veitt þeim einstaklingi, stofnun, félagasamtökum eða fyrirtæki sem hefur staðið sig best í að framfylgja jafnréttislögum og/eða Evrópusáttmálanum um jafna stöðu kvenna og karla í sveitarfélögum og héruðum og/eða jafnréttisstefnu Mosfellsbæjar.
Leita sérstaklega að hæfum körlum
Í ár hlýtur búsetukjarninn í Þverholti 19 jafnréttisviðurkenninguna fyrir að vinna markvisst að því að hafa jöfn kynjahlutföll í starfsmannahópnum.
Það er Hólmfríður Dögg Einarsdóttir sem veitir búsetukjarnanum forstöðu en hún hefur lagt sig sérstaklega fram við að auglýsa eftir og leita að hæfum karlmönnum til starfa. Nú er svo komið að jöfn kynjahlutföll hafa verið í starfsmannahópi búsetukjarnans í Þverholti síðastliðið eitt og hálft ár og því ber að fagna.
Með viðurkenningunni vill Fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar hvetja forstöðumenn hjá Mosfellsbæ áfram til góðra verka í tengslum við jafnréttismál.