Hlégarð heim!
Félagsheimili okkar Mosfellinga, Hlégarður, á sér orðið rúmlega 70 ára sögu. Félagsheimilið er eitt kennileita bæjarins og hefur verið okkar stolt.
Í húsinu hafa lengi verið ýmsir viðburðir haldnir og félagasamtök í bænum til dæmis haft þar athvarf og aðstaðan hefur verið ómetanleg til stuðnings ýmsu félagsstarfi og íbúar og fyrirtæki í bænum hafa í gegnum tíðina getað nýtt húsið til veisluhalda. Síðustu átta ár eða svo hefur rekstur Hlégarðs verið í höndum einkaaðila og Mosfellingar ekki haft sama aðgang að húsinu og áður. Félagsstarfið á ekki lengur neitt athvarf og hafa hin ýmsu félög því verið á hrakhólum og hefur það án efa dregið úr þeirra starfsemi.
Hafist var handa við endurbætur á húsinu fyrir nokkru síðan og er nú endurbótum að hluta til lokið og neðri hæðin tilbúin. Þar er því hægt að halda viðburði og er mjög mikilvægt að nýta aðstöðuna vel fyrir menningarstarfsemi í bæjarfélaginu. Þar eru möguleikarnir óteljandi. Þá þarf að klára endurbætur á annarri hæðinni og skapa þar aðstöðu fyrir félagsstarfsemi. Einnig mætti nýta útisvæðið betur og jafnvel byggja við.
Hvað vilja bæjarbúar?
Samfylkingin vill efna til hugmyndasamkeppni meðal bæjarbúa um uppbyggingu á svæðinu og hvernig Hlégarðssvæðið getur nýst íbúum sem best.
Hlégarður eins og hann er í dag er ekki nógu stór til að standa undir nafni sem menningarhús án þess að einhver uppbygging eigi sér stað. Listaskólinn þarf til dæmis varanlegt húsnæði og leikfélagið þarf húsnæði, svo eitthvað sé nefnt. En einhvers staðar þarf að byrja.
Samfylkingin vill fyrst og fremst fá Hlégarð aftur heim, að rekstur hússins verði í höndum bæjarins og bæjarbúar fái aftur aðgang að húsinu. Það er orðið löngu tímabært að hlúa að menningu og listum í Mosfellsbæ. Listafólk þarf að fá aðstöðu til að sinna list sinni, halda sýningar, efna til tónleika og leiksýninga og leyfa íbúum bæjarins að njóta allrar þeirrar listar og menningar sem kraumar í Mosfellsbæ.
Fyrsta skrefið er að fá Hlégarð aftur í hendur bæjarins og hefja uppbyggingu saman.
Settu x við S á kjördag og við hefjum menningarlífið til vegs og virðingar saman!
Elín Árnadóttir og Jakob Smári Magnússon, skipa 4. og 5. sæti á lista Samfylkingarinnar