Hvers vegna XD í Mosó á laugardag?

Ásgeir Sveinsson

Mosfellsbær er fjölskylduvænt, heilsueflandi og framsækið bæjarfélag þar sem er gott og eftirsóknarvert að búa.
Samkvæmt könnunum eru íbúar með þeim ánægðustu á landinu og hér hefur orðið ein mesta hlutfallslega fjölgun íbúa undanfarin ár. Samfara þessari þróun hefur verið í gangi mesta framkvæmdaskeið í sögu sveitarfélagsins í uppbyggingu innviða auk þess sem þjónusta við bæjarbúa er sífellt að aukast. Mosfellsbær stendur vel fjárhagslega, þökk sé ábyrgri stjórn fjármála og á líðandi kjörtímabili hafa framkvæmdir í Mosfellsbæ aldrei verið meiri. Sú uppbygging mun halda áfram með miklum framkvæmdum á íþróttamannvirkjum að Varmá og nýjum leikskóla í Helgafellshverfi svo eitthvað sé nefnt.
Sjálfstæðisflokkurinn í Mosfellsbæ hefur haft það að leiðarljósi að halda álögum á íbúa eins lágum og best getur við rekstur bæjarins. Við erum stolt af því að hafa lækkað álögur á íbúa á líðandi kjörtímabili m.a. með lækkun fasteignaskattaprósentu á íbúða- og atvinnuhúsnæði. Þá hafa álögur á barnafólk lækkað verulega þegar leikskólagjöld lækkuðu um 20% á líðandi kjörtímabili og nú býðst 12 mánaða börnum í Mosfellsbæ dagvistarpláss.

Jana Katrín Knútsdóttir

Það er sterkt og faglegt skólasamfélag í Mosfellsbæ sem við ætlum að styrkja enn frekar og veita meiri stuðning fagfólks inn í skólana. Við ætlum að opna stafræna Fab Lab smiðju og viljum opna Þróunar- og nýsköpunarsmiðju sem veitir ótal tækifæri fyrir alla aldurshópa.

Skipulagsmálin eru stór þáttur í vaxandi samfélagi og uppbygging í Mosfellsbæ heldur áfram. Búið er að ná samningum um uppbyggingu á Blikastaðalandi þar sem rísa mun glæsilegt vistvænt hverfi með fjölbreyttu íbúðamynstri fyrir alla aldurshópa. Í Blikastaðalandi sem mun rísa í áföngum til næstu 20-25 ára mun einnig verða fyrsta flokks þjónusta þegar litið er til skóla- og íþróttamannvirkja auk hágæða samgangna. Uppbygging mun einnig halda áfram á öðrum stöðum í bænum.
Við munum áfram standa vörð um sérkenni Mosfellsbæjar sem „sveit í borg“ og huga vel að dýrmætri náttúrunni allt í kringum okkur.
Málefni fatlaðra er mikilvægur málaflokkur sem nauðsynlegt er að veita verðskuldaða athygli. Á líðandi kjörtímabili höfum við aukið þjónustu s.s. með opnun úrræðis fyrir geðfatlaða. Við munum halda áfram þeirri þróun, meðal annars með úthlutun lóðar undir nýjan íbúðakjarna í 5. áfanga Helgafellshverfis fyrir fatlað fólk og með áherslu á samþættingu þjónustu.
Mosfellsbær er heilsueflandi samfélag með Aftureldingu sem hornstein í okkar frábæra bæjarfélagi. Við munum leggja mikla áherslu á að samþykktri uppbyggingu á Varmásvæðinu verði flýtt eins og aðstæður leyfa auk þess sem uppbygging á íþróttamannvirkjum muni hefjast á Blikastaðalandi, þar á meðal fjölnota knatthús í fullri stærð.
Eldri borgurum fer fjölgandi og á þessu kjörtímabili höfum við lagt mikla áherslu á lýðheilsumál eldri Mosfellinga og munum halda því áfram. Í samstarfi við Eir mun íbúðum fyrir eldri borgara fjölga auk mikillar stækkunar á rýmum fyrir félagsstarf. Jafnframt er búið að samþykkja aðkallandi stækkun hjúkrunarheimilisins Hamra sem verður með 75 rými eftir stækkun.
Ábyrgur og traustur rekstur undanfarinna ára gerir það að verkum að framtíðin er björt í Mosfellsbæ. Sjálfstæðismenn hafa verið við stjórnvölinn á þessum uppgangstímum þar sem þjónusta og rekstur sveitarfélagsins hefur tekið miklum og jákvæðum breytingum og bærinn eflist og dafnar.
Við ætlum að sjá til þess að rekstur bæjarfélagsins verði áfram ábyrgur og traustur, álögur á íbúa muni halda áfram að lækka og að áfram verði best að búa í Mosfellsbæ. Til þess að ná þeim markmiðum okkar þurfum við þinn stuðning, hvert atkvæði skiptir máli.

Ásgeir Sveinsson og Jana Katrín Knútsdóttir skipa 1. og 2. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins fyrir sveitarstjórnarkosningar 14. maí.