Hjólum til framtíðar
Evrópska samgönguvika var eins og venjulega í september, nánar tiltekið dagana 16. – 22. september. Þetta er árlegur viðburður þar sem allir eru hvattir til að huga að vistvænum samgöngum.
Fastur liður í þessari viku er málþingið „Hjólum til framtíðar“ og er það samstarfsverkefni sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Mosfellsbær var gestgjafi á síðasta ári og tókst það vel. Á næsta ári verður það Seltjarnarnes. Í ár var málþingið haldið í Hafnarfirði undir yfirskriftinni „Ánægja og öryggi“.
Mikið var um góð og fróðleg erindi, bæði frá erlendum og innlendum fyrirlesurum. Hápunkturinn var tvímælalaust þegar forseti vor kom sæll og rjóður í kinnum inn í sal og skellti hjólreiðahjálminum sínum út í horn eftir að hafa hjólað frá Bessastöðum í Hafnarfjörðinn. Hans hlutverk var að afhenda Hjólaskálina sem er viðurkenning fyrir stofnanir og fyrirtækin sem hafa haft sig í frammi við að efla hjólreiðarmenninguna á einhvern hátt. Í þetta skipti var það Isavía sem hlaut þennan heiður. Mig minnir að Reykjalundur hér í bænum hafi áður fengið þessa viðurkenningu.
Ég kom heim eftir að dagskránni lauk, full af gleði yfir öllu sem var gert og er að gerast í þágu hjólreiða síðustu árin. Enda eru hjólreiðar ákaflega skemmtilegur samgöngumáti sem er bæði holl hreyfing, vistvænn og dregur úr umferðaþunga og þörf fyrir bílastæði. Ég hef stundað hjólreiðar frá því að ég flutti í Mósó fyrir meira en 30 árum og var ein þeirra sem var álitin stórskrítin af því að ég átti ekki bíl. Þá voru varla til hjólreiðastígar og eina leiðin til Reykjavíkur var meðfram Vesturlandsveginum.
Nú eigum við hér í bænum fullt af skemmtilegum hjólreiðaleiðum. En betur má ef duga skal. Mér detta strax nokkur atriði í hug. Með því að menn nota hjólin ekki einungis yfir hábjart sumarið eykst þörfin fyrir góða lýsingu á leiðunum.
Á stígnum fyrir neðan Holtahverfið til dæmis er allt of langt milli ljósastauranna og niðdimmt þar á milli. Huga þarf einnig að því í hönnun stíga að á þeim myndist ekki pollar sem verða svo að klaka í frosti og setja hjólreiðamenn í hættu. Loks get ég ekki skilið hvað kemur í veg fyrir að við veginn upp að Reykjalundi sé lagður stígur fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Oft er þörf en þarna er nauðsyn.
Ég óska öllum góðs göngu- og hjólreiðaárs og hvet menn að láta í sér heyra ef þeim finnst eitthvað ekki nógu gott.
Úrsúla Jünemann.
Höfundur er starfandi fyrir Íbúahreyfingu í umhverfisnefnd.