Helgafell – deiliskipulag 4. áfanga
Þann 31. október sl. lauk fresti til að skila inn athugasemdum vegna auglýsingar um deiliskipulagsbreytingu fyrir 4. áfanga í Helgafellshverfi.
Skemmst er frá því að segja að formlega bárust fimmtán athugasemdir, þar af athugasemd frá húsfélagi með um þrjátíu íbúðum. (Sjá fundargerð skipulagsnefndar nr. 501)
Segja má að helst hafi athugasemdir lotið að tveimur meginþáttum, í fyrsta lagi óánægju með ráðgert fjögurra hæða fjölbýlishús vestast í skipulaginu með tilheyrandi skerðingu á útsýni og í öðru lagi að áhyggjum af umferð í gegnum augað, Vefarastræti og Gerplustræti, á meðan á uppbyggingu 4. áfanga stendur. Í athugasemdum er bent á að umferðin fari fram hjá nýjum Helgafellsskóla þar sem umferð barna er mikil bæði til og frá skóla og götur þröngar.
Skipulagsnefnd gerði svohljóðandi samþykkt á 501. fundi sínum:
„Skipulagsnefnd felur skipulagsfulltrúa að flokka og greina innkomnar athugasemdir og leggja fram á fundi nefndarinnar. Skipulagsnefnd felur skipulagsfulltrúa að boða til fundar með fulltrúum úr skipulagsnefnd, Byggingarfélaginu Bakka og skipulagshöfundum varðandi hugsanlega endurskoðun deiliskipulagstillögunnar.”
Það er skemmst frá því að segja að undirritaður hafði strax í upphafi málsins áhyggjur af því að aðkoma að 4. áfanga á uppbyggingartíma yrði í gegnum Helgafellshverfið (augað Vefarastræti/Gerplustræti). Þetta viðraði undirritaður í grein sem birtist í Mosfellingi 29. nóvember 2018. (Sjá grein)
Það er með nokkrum ólíkindum að ríkjandi meirihluti bæjarstjórnar, fullltrúar D- og V-lista, skuli ekki hafa hugað að því að finna einhverja lausn á aðkomu að 4. áfanga á meðan á uppbyggingu stendur. Það albesta hefði verið að vegur austur út 4. áfanga og niður á Bjargsveg/Reykjaveg hefði verið kominn, að minnsta kosti vinnuvegur vegna framkvæmda í nýju hverfi. En svo er ekki og ekkert er um veginn í fyrirliggjandi 3ja ára framkvæmdaáætlun 2020-2023.
Stefán Ómar Jónsson bæjarfulltrúi Vina
Mosfellsbæjar og aðalmaður í skipulagsnefnd