Héldu kótilettukvöld til styrktar félaga sem glímir við veikindi
Þann 8. mars héldu UMFUS-menn sitt árlega kótilettu-styrktarkvöld. Undanfarin ár hafa þeir haldið þennan styrktarviðburð og gefið allan ágóða til verðugs málefnis.
Að þessu sinni rann styrkurinn til Mosfellingsins Þorbjörns Jóhannssonar eða Tobba eins hann er alltaf kallaður. Tobbi hefur glímt við erfið veikindi síðan 2006 en síðastliðið haust greindist hann með bráðahvítblæði.
Tobbi og Emilíu eiginkona hans hafa dvalið í Svíþjóð á Karolinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi síðan í janúar þar sem hann gengst undir mergskipti.
Von er á þeim heim eftir rúma tvo mánuði en þá tekur við meðferð og endurhæfing á Reykjalundi.
Nauðsynlegt að hafa jákvæðni að vopni
Það var systir Tobba, Alfa Regína Jóhannsdóttir, sem tók við styrknum fyrir hönd bróður síns og las upp fallega kveðju frá Tobba sem meðal annars talaði um að svona veikindi setji lífið algjörlega úr skorðum og að nauðsynlegt sé að fara í gegnum svona pakka með jákvæðni og æðruleysi að vopni.
UMFUS-menn vilja koma á framfæri þökkum til allra sem styrktu þetta góða málefni með nærveru sinni, framlögum og aðstoð. Það var Ragnar Sverrisson hjá Höfðakaffi sem sá um veitingarnar en aðrir styrktaraðilar voru m.a. Ölgerðin, 66° norður, Fóðurblandan, Margt smátt, Smart Socks, Blackbox og Jóhann Ólafsson & co.