Heimsbyggð – heimabyggð

Bjarki Bjarnason

Bjarki Bjarnason formaður umhverfisnefndar Mosfellsbæjar. 

Nú í sumarbyrjun er ástæða til að horfa um öxl til nýliðins vetrar og einnig fram á veginn til sumarsins sem bíður okkar handan hornsins.
Um þessar mundir standa vorverkin yfir, fólk sinnir görðum sínum og sveitarfélagið hefur sett upp gáma þar sem íbúum gefst kostur á að koma með garðaúrgang. En um leið og við hugum að nánasta umhverfi okkar hér og nú er rétt að hafa í huga að umhverfismál snerta allar árstíðir og heimsbyggð og heimabyggð í senn. Hér á eftir verður drepið á nokkur umhverfismál sem hafa verið á dagskrá á nýliðnum vetri.

Vistgerðarkort
Fyrir skemmstu kynntu fulltrúar frá Náttúrufræðistofnun Íslands svokallað vistgerðarkort í umhverfisnefnd bæjarins. Um er að ræða heildstætt yfirlit og lýsingu á náttúrufari alls landsins þar sem notast er við nýja aðferðafræði við flokkun og kortlagningu lífríkisins. Kortið sýnir útbreiðslu 105 vistgerða og er öllum opið á kortasjá NÍ. Landið og náttúran taka breytingum og er ætlunin að kortasjáin verði uppfærð eftir því sem ástæða þykir til.

Örn Jónasson varaformaður umhverfisnefndar Mosfellsbæjar.

Örn Jónasson varaformaður umhverfisnefndar Mosfellsbæjar.

Stígar og slóðar
Undanfarin þrjú ár hefur sérstakur starfshópur unnið að kortlagningu vegslóða í landi Mosfellsbæjar og er lokamarkmiðið að skilgreina betur hvar má aka á vélknúnum ökutækjum og hvar ekki. Stíga- og slóðakerfi bæjarins er mjög víðtækt, einkum á Mosfellsheiði þar sem finna má margar fornar leiðir. Starfshópurinn hefur nú lokið starfi sínu og sent lokaskýrslu sína til bæjarráðs sem vísaði málinu til skipulagsnefndar til frekari úrvinnslu.

Okkar Mosó
Nýlega fór fram íbúakosningin „Okkar Mosó“ þar sem bæjarbúum gafst kostur á að leggja fram tillögur að verkefnum sem unnið yrði að á þessu ári. Þátttaka var einstaklega góð, margar athyglisverðar hugmyndir komu fram og var kosið á milli þeirra. Þau verkefni sem bæjarbúar veittu brautargengi tengjast öll umhverfinu á einn eða annan hátt og má þar nefna útivistar­paradís á Stekkjarflöt við Varmá, bekki fyrir eldri borgara við Klapparhlíð og fuglafræðslustíg meðfram Leiruvogi.

Opinn fundur umhverfisnefndar
Síðustu ár hefur það verið árlegur viðburður hjá umhverfisnefnd að halda opinn fund í samræmi við lýðræðisstefnu Mosfellsbæjar. Fundurinn verður að þessu sinni haldinn fimmtudaginn 11. maí kl. 17 í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ og mun fjalla um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og sjálfbæra þróun. Frummælendur verða Andri Snær Magnason rithöfundur og Lúðvík Gústafsson verkefnisstjóri, síðan verða almennar umræður um þennan viðamikla málaflokk.
Við hvetjum bæjarbúa til að fjölmenna á fundinn og taka þátt í samræðum um mál sem snerta í senn heimsbyggð og heimabyggð.

Gleðilegt sumar, kæru Mosfellingar.

Bjarki Bjarnason, formaður umhverfisnefndar Mosfellsbæjar. Örn Jónasson, varaformaður.