Heilsubaðstaður og heilsueflandi samfélag
Sundlaugarnar í Mosfellsbæ eru mikið notaðar og þekkt að gestir komi frá Reykjavík til þess að fara í Lágafellslaug þar sem laugin hentar notendum með ólíkar þarfir og þykir barnvæn.
Hún er hins vegar líka þekkt fyrir vel heppnuð ilmsaunukvöld, þar sem færri komast að en vilja. Margt hefur verið vel gert en lengi má gera gott betra. Samfylkingin telur nauðsynlegt að marka stefnu til næstu ára, þegar kemur að laugum og baðmenningu innan bæjarins.
Eins og margir vita er Mosfellsbær eitt mesta lághitasvæði landsins og ekki margir áratugir síðan það voru opnir hverir víða um sveitina. Hitaveituvatnið er því partur af sögu bæjarins og margir kannast við myndir af innilauginni í Álafossi og 50 metra straumlauginni í Varmá ofan við Álafossinn sjálfan. Svo ekki sé minnst á upphaf ylræktar í landinu í Reykjahverfi um 1930.
Á síðustu árum hafa risið baðstaðir í tengslum við ferðaþjónustu víða um land og er ekkert lát á því. Umræða um uppbyggingu á slíkum stað í Mosfellsbæ hefur hins vegar verið lítil.
Á námsárum mínum erlendis vann ég við rannsókn hvað varðar hönnunarforsendur á heilsubaðstöðum og heimsótti tugi þeirra víða um heim og sá að ein af bestu staðsetningum á slíkum stað á Íslandi væri í Mosfellsbæ. Ástæðan er að slíkir staðir þurfa að vera á jaðarsvæðum þéttbýlis, oftast í tengslum við vatn og skóg. Landslagið má móta, en nálægðin við Reykjavík er atriði sem allir hinir baðstaðirnir sem eru að rísa út á landi hafa ekki.
Mosfellsbær hefur því söguna, heitavatnið, landslagið og um fram allt, nálægðina við höfuðborgarsvæðið. Uppbygging á heilsubaðstað tikkar í öll box hvað varðar heilsusamlegt samfélag, en slík uppbygging tikkar líka í box atvinnusköpunar og framtíðartekna fyrir bæjarfélagið.
Stefnumörkun
Atvinnuuppbygging getur verið stefnumörkuð og oft í hendi sveitarstjórnarfólks hvaða starfsemi byggist upp innan sveitarfélagsins og hver alls ekki. Stefnumörkun og framtíðarhugsun í skipulagi er grundvallaratriði í stefnu Samfylkingarinnar. Í stefnuleysi stýrir enginn því sem byggist upp í bænum.
Með því að afmarka sérafnotasvæði innan bæjarins má bjóða fjárfestum að koma og byggja upp þjónustu eins og heilsubaðstað með möguleika á frekari uppbyggingu heilsuhótels á viðkomandi svæði. Það væri stefnumörkuð sérvalin atvinnuuppbygging. Í þessu tilfelli skiptir ekki miklu máli hvort land væri í einkaeigu eða í eigu bæjarins, það samtal yrði bara að taka. Spurningin er bara hvernig atvinnuuppbyggingu og þjónustustarfsemi vilja bæjarbúar sjá í bænum. Fjármögnunin væri á hendi fjárfesta en bærinn yrði að vinna forvinnuna til þess að fjármagnið komi inn í bæjarfélagið.
En hvað sem af verður er kannski best að líta okkur nær á þessu kosningavori og byrja á því að lengja opnunartíma okkar núverandi sundlauga í samræmi við laugar í Reykjavík og að hlusta á óskir sundlaugagesta til þess að gera sundlaugarnar okkar enn betri.
Viljum við fara enn lengra og byggja heilsubaðstað er vilji það eina sem þarf. Við verðum hins vegar að segja það svo eftir því verði tekið, restin er útfærsluatriði sem verður leyst.
Settu x við S á kjördag.
Ómar Ingþórsson, skipar 3. sæti á lista Samfylkingarinnar