Heilsuárið framundan
Gleðilegt ár kæru Mosfellingar og nærsveitungar!
Um áramót eru margir sem setja sér markmið fyrir komandi ár og líta margir á þessi tímamót sem nýtt upphaf þar sem framundan eru 365 óskrifaðir dagar og þar með ótal tækifæri til að efla eigin vellíðan og annarra.
Ég sjálf ætla t.d. að temja mér að hrósa meira, hugsa jákvætt, vera þakklát, sjá og grípa tækifærin og bara að vanda mig almennt við það að vera glöð og gefandi manneskja.
Lífsgæði
Fjórði áhersluþátturinn í uppbyggingu Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ ber yfirskriftina Lífsgæði. Hugtakið er ansi vítt enda margt sem hefur áhrif á lífsgæði okkar. Það sem eru lífsgæði fyrir einn þurfa ekki endilega að vera lífsgæði fyrir annan. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) skilgreinir lífsgæði á þann hátt að þau séu huglægt mat á aðstæðum einstaklinga eða hópa sem verða fyrir áhrifum frá ýmsum þáttum, þáttum sem ákvarða m.a. heilsu og hamingju, menntun, félagslega og vitsmunalega fullnægju, frelsi og réttindi.
Hvað skapar lífsgæði?
WHO hefur gefið út staðlaða lista til þess að mæla lífsgæði. Þessir listar eru þvermenningarlegt mælitæki sem hafa verið notaðir víða um heim og eru margprófaðir. Það vill svo skemmtilega til að á listunum eru 26 fullyrðingar þar sem spurt er um líkamlega heilsu, andlega heilsu, félagsleg sambönd og umhverfi en þetta eru einmitt þeir áhrifaþættir heilsu og vellíðunar sem við höfum verið að fást við í vegferð okkar að heilsueflandi samfélagi.
Verkefnin fram undan
Við munum að sjálfsögðu halda áfram öllum þeim góðu verkefnum sem verið hafa í gangi varðandi næringu og mataræði, hreyfingu og útivist og geðrækt undanfarin ár enda erum við sífellt að byggja ofan á það sem fyrir er, að treysta grunninn. Á árinu munum við til viðbótar þessu m.a. beina sjónum okkar að öryggi, orkustjórnun og umhverfi svo fátt eitt sé talið. Þá er heldur ekki loku fyrir það skotið að Lýðheilsuverðlaun Mosfellsbæjar verði afhent í fyrsta skipti með hækkandi sól.
Við hlökkum sem fyrr til að starfa áfram með ykkur að uppbyggingu heilsueflandi samfélags hér í Mosfellsbæ og þökkum kærlega fyrir samvinnuna hingað til. Góðar hugmyndir eru að sjálfsögðu vel þegnar á netfangið heilsuvin@heilsuvin.is.
Ólöf Kristín Sívertsen,
lýðheilsufræðingur og verkefnisstjóri
Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ