Hefðbundinn starfsvettvangur ekki framtíðin

sodlasmidur

Guðrún Helga Skowronski ákvað að læra söðlasmíði svo hún gæti sameinað áhuga sinn á handverki og hestamennsku. Helga eins og hún er ávallt kölluð, lagði oft leið sína á sínum yngri árum í gegnum Mosfellsdalinn á leið í bústað fjölskyldunnar á Þingvöllum. Hún hugsaði oft um hvernig væri að eiga heima í dalnum en óraði ekki fyrir að einn daginn myndi hún setjast þar að en sú varð raunin.
Hún hóf störf á minkabúinu Dalsbúi árið 1999, giftist ábúandanum árið 2001 og ásamt því að sinna börnum og búi sinnir hún starfi sínu sem söðlasmiður og er með aðstöðu heima við.

Guðrún Helga Skowronski er fædd í Reykjavík 12. ágúst 1975. Foreldrar hennar eru þau Þorbjörg Skjaldberg skurðhjúkrunarfræðingur og Henry Val Skowronski tækniteiknari. Helga á fjögur systkini, Pálma f. 1978, Halldóru Maríu f. 1985, Margréti Þorgerði f. 1996 og Ásgeir f. 1997.

Bundu hestana fyrir utan heima
„Við fjölskyldan áttum heima í Ásgarði í Reykjavík rétt hjá Neðri-Fáki. Stundum komu karlar með sixpensara ríðandi og bundu hestana fyrir utan heima. Ég varð alveg sjúk því mig langaði svo á hestbak.
Af einhverri ástæðu beit ég það í mig að allir karlar með sixpensara væru hestamenn þannig að ég gerði í því að setjast við hliðina á þannig mönnum í strætó í von um að þeir myndu bjóða mér á bak en sú varð því miður ekki raunin,“ segir Helga og hlær.

Flutti til Svíþjóðar
„Ég flutti til Svíþjóðar þegar ég var sjö ára og bjó þar í átta ár. Ég kom alltaf til Íslands á sumrin og um helgar var farið upp í bústað fjölskyldunnar á Þingvöllum. Ég man þegar við keyrðum í gegnum Mosfellsdalinn, þá hugsaði ég oft hvernig væri að búa þarna.
Ég gekk í Hvassaleitisskóla, Uddaredsskolan, Hästhagenskolan, Alléskolan í Svíþjóð og fór svo í Menntaskólinn í Hamrahlíð.
Ég var langt komin með námið í MH þegar ég gerði mér grein fyrir því að að hefðbundinn starfsvettvangur væri ekki framtíðin fyrir mig. Ég ákvað að læra söðlasmíði þar sem ég gæti sameinað áhuga minn á handverki og hestamennsku.“

Stjörf af skelfingu með kort í höndunum
Helga fann skóla í London sem henni leist vel á og haustið sem hún varð 19 ára lagði hún land undir fót og flutti til London.
„Þegar ég hugsa til baka þá var þetta hin mesta firra. Þegar ég lenti var ég klyfjuð af farangri og ekki komin með stað til að búa á. Ég man ennþá eftir því að það fyrsta sem blasti við mér þegar ég steig út af lestarstöðinni var útprentað blað með mynd af ungum manni og undir myndinni var texti sem skrifaður var af móður hans þar sem hún auglýsti eftir vitnum að því hver hefði myrt son hennar. Ég man að ég gekk af stað stjörf af skelfingu með kort af London í höndunum og skimaði í kringum mig í leit að leiðinni í skólann.
Ég fékk síðan húsnæði í göngufjarlægð frá skólanum og hóf nám viku seinna.“

Kynntist öðruvísi vinnubrögðum
„Ég blómstraði í London enda var námið hnitmiðað og skemmtilegt. Þarna lærði ég ekki bara handbragðið sjálft heldur líka hvernig hönnunin og uppbyggingin öll væri á bæði aktygjum, beislisbúnaði og mismunandi hnökkum. Auk þess fengum við grunnþekkingu á svokölluðu „saddle fitting“ en það er listin að smíða og stilla hnakk svo að hann smellpassi á ákveðið hross.
Þegar fyrsta árið var liðið þá sendi ég bréf til nokkurra söðlasmiða á Íslandi og sótti um sumarvinnu. Valdimar Tryggvason, eigandi að Söðlasmiðnum í Nethyl réði mig í vinnu það sumarið og kynntist ég þar allt öðruvísi vinnubrögðum en kennd voru í skólanum.“

Búfræðingur og tamningamaður
„Ég útskrifaðist úr Cordwainers College með HND í söðlasmíði og tók svo sveinspróf eftir að ég flutti aftur heim. Ég fór að vinna tímabundið við viðgerðir í versluninni Reiðsporti.
Árið 1998 sótti ég um á tamningabraut á Hólum í Hjaltadal og komst inn. Þar átti ég eitt það skemmtilegasta ár sem ég hef upplifað.
Sumrinu eyddi ég við verknám að Hofi á Höfðaströnd og útskrifaðist svo um haustið sem búfræðingur með frumtamninga próf frá FT.“

Átti ekki von á umsókn frá Íslendingi
„Eftir útskrift fann ég aðstöðu fyrir hrossin mín í hesthúsahverfinu í Mosó og vann hlutastarf við þjálfun hrossa í Varmadal. Ég sá auglýsta stöðu á minkabúinu Dalsbúi í Mosfellsdal og sótti um með semingi. Ásgeir sem þar bjó átti alls ekki von á því að fá umsókn frá Íslendingi, hvað þá einhverri stelpu,“ segir Helga og brosir.
„Ég hóf störf árið 1999 og hef ekkert farið aftur. Við, Þorlákur Ásgeir Pétursson, eða Ásgeir í minkabúinu eins og hann er ávallt kallaður, giftum okkur í Mosfellskirkju 24. maí 2001. Við tóku ár af barneignum og uppeldi. Kristofer Henry f. 1996 átti ég fyrir en svo eigum við saman Pétur Þór f. 2001, Þorbjörgu Gígju f. 2007 og Þorgrím Helga f. 2010. Fyrir átti Ásgeir tvö börn, Sigríði Herdísi og Ólaf Pétur.“

Söðlasmiðurinn í Mosfellsdal
„Þegar við vorum búin að búa í Dalsbúi í einhvern tíma hafði kunningjakona mín samband við mig. Hún var farin að flytja inn hnakka frá Noregi og vantaði söðlasmið til að stoppa í. Þarna hafði ég ekki tekið upp verkfærin mín í langan tíma en ég tók að mér þetta verkefni. Þarna enduruppgötvaði ég gleðina við handverkið og var þetta fyrsta skrefið að því að ég opnaði Söðlasmiðinn í Mosfellsdal.
Fyrirtækið hefur stækkað og þróast smám saman í takt við eftirspurn. Fyrstu árin gerði ég alla vinnu í höndunum en keypti mér svo saumavél fyrir ágóða af hrossasölu.
Fyrir þá sem hafa áhuga á að sjá það sem ég er að gera þá má fylgjast með mér á Facebook.“

Rækta bæði grænmeti og ávexti
„Ásýnd Dalsbúsins hefur breyst mikið og hér eru komin falleg íbúðarhús. Minkabúið og fóðurstöðin hafa verið endurnýjuð og stækkuð, aðstaða er fyrir kindur og hross og Söðlasmiðjan er komin með aðstöðu.
Við erum búin að koma okkur upp gróðurhúsi og erum líka með ræktarlegan garð þar sem við getum ræktað bæði grænmeti og ávexti. Við erum bæði mjög áhugasöm um að geta boðið upp á hreinan og heilbrigðan mat og reynum því að rækta sem mest sjálf.
Við höfum áhyggjur af því hvernig nútíminn fer með jörðina og þá sem á henni búa. Við viljum að sumu leyti leita aftur til fortíðar og að hvert og eitt land sé sjálfu sér nægt með mat fyrir sig og sína í jafnvægi við náttúruna.“

Mosfellingurinn 7. júní 2018
Myndir og texti: Ruth Örnólfs