Hef alltaf haft gaman af því að skapa
Halldóra Sif Guðlaugsdóttir fatahönnuður og klæðskeri er hönnuðurinn á bak við fata- og fylgihlutamerkið Sif Benedicta.
Á dögunum opnaði hún verslun og vinnustofu ásamt tveimur öðrum hönnuðum í fallegu húsi við Laugaveg en þar má finna kvenföt og fylgihluti sem unnin eru úr hágæðaefnum. Hún segir móttökurnar hafa gengið vonum framar og er ánægð með að hafa getað opnað fyrir jólahátíðina.
Halldóra Sif fæddist í Reykjavík 25. september 1987. Foreldrar hennar eru þau Ásta Björk Benediktsdóttir kennari og Guðlaugur Pálsson eigandi Orku ehf. Halldóra á einn bróður, Pál Helga f. 1994.
Fékk að endurraða í skápana
„Ég ólst upp í Kópavogi til 9 ára aldurs og gekk í Snælandsskóla. Við krakkarnir í hverfinu lékum okkur mikið úti við í hinum ýmsu leikjum. Þegar ég var 5 ára þá kynntist ég Ingibjörgu Helgu, við höfum verið góðar vinkonur allar götur síðan.
Ég var mikið hjá ömmum mínum og öfum á mínum yngri árum þar sem foreldrar mínir voru sjálfstætt starfandi og stóðu vaktina saman. Mér leið alltaf vel hjá þeim því þau voru svo góð við mig og þolinmóð. Ég var uppátækjasöm og fékk að bralla ýmislegt, búa til eitthvað úr einhverju gömlu, breyta fötum, búa til skart og eins hafði ég gaman af því að endurraða í skápana.“
Forréttindi að alast upp á Íslandi
„Þegar ég var 7 ára þá keyptu föðurafi minn og amma gamlan sveitabæ austur í Landeyjum og síðar byggðu þau sér sumarbústað þar. Ég hef verið mikið fyrir austan með fjölskyldu minni, þarna erum við með hesta og njótum þess að ríða út.
Mér fannst alltaf gaman að vera í sveitinni innan um dýrin og leika úti allan daginn. Það bjuggu börn þarna í kring og eins komu mörg börn í heimsókn svo maður hafði alltaf einhvern til að leika við.
Það eru svo mikil forréttindi að alast upp á Íslandi, svo mikið frelsi og stutt í náttúruna alls staðar.“
Vorum í leynifélagi
„Árið 1996 fluttum við fjölskyldan í Mosfellsbæ sem þá var nú meiri sveit en bær. Þar tók æskuvinkona mín áðurnefnda úr Kópavoginum á móti mér en hún hafði flutt í Mosó nokkrum árum á undan mér. Ingibjörg kynnti mig fyrir Írisi, Valdísi, Sunnu og Rakel og þar datt ég í lukkupottinn því við náðum strax allar vel saman og höldum hópinn enn í dag.
Við vinkonurnar gerðum allt saman, æfðum fótbolta með Aftureldingu, lærðum saman, fórum á hestbak, æfðum dans, vorum í leynifélagi og svo vorum við klappstýrur. Ég svíf bara þegar ég hugsa um þessar æskuminningar, þær eru svo dásamlegar,“ segir Halldóra og skellir upp úr.
„Mér gekk ágætlega í skólanum, gekk í Varmárskóla og síðan í Gaggó Mos. Áhuginn á náminu minnkaði nú aðeins á unglingsárunum einfaldlega því það var svo margt í gangi. Yfir sumartímann vann ég í sjoppu foreldra minna í Háholtinu.“
Flutti til Danmerkur
„Við vinkonurnar fórum síðan allar í Verzló. Fyrir mig voru það rosaleg viðbrigði því ég átti hreinlega erfitt með að einbeita mér. Ég íhugaði að hætta en skipti svo um braut en var samt ekki viss hvað ég vildi gera. Ég var byrjuð með manninum mínum þarna, Kristni Péturssyni en hann er tveimur árum eldri en ég. Hann kláraði sitt framhaldsskólanám í Menntaskólanum við Sund og flutti svo til Danmerkur til að fara í framhaldsnám í verkfræði.
Ég ákvað að klára námið í Verzló og flutti svo til Kristins og fór í nám í Álaborgarháskóla í rekstrarhagfræði. Ég hætti eftir mánuð því danskan var mér erfið og aftur var einbeitingin að hrjá mig. Ég fór því að vinna við að temja hesta sem ég hafði verið að gera áður með skólagöngunni.
Við Kristinn eigum þrjú börn, Guðlaug Benjamin f. 2012, Ástu Maríu f. 2018 og Guðleifu Klöru f. 2019.“
Fann nám við hæfi
„Ég vissi ekkert á tímabili hvað mig langaði til að læra en skráði mig svo á sauma- og sníðanámskeið sem mér fannst virkilega skemmtilegt. Þetta varð til þess að ég sótti um í klæðskeranám og komst inn Textilhandværkerskolen. Þetta var í fyrsta sinn í 10 ár sem ég elskaði að læra, ég var alltaf mætt fyrst í skólann og fór seinust. Ég var bara ekki að trúa því að ég væri búin að finna nám sem ég vildi vinna við í framtíðinni.
Ég var á seinni árum greind með mikinn athyglisbrest sem útskýrir margt eins og til dæmis hvernig mér leið á minni skólagöngu. Það er alveg ljóst að verklegt nám hentar mér mun betur en bóklegt.
Við Kristinn fluttum svo heim til Íslands og ég hóf nám í Listaháskóla Íslands í fatahönnun.“
Fékk reynslu frá hönnuði í London
Eftir útskrift úr Listaháskólanum fór Halldóra að starfa sem aðstoðarhönnuður hjá Hildi Yeoman fatahönnuði og líkaði vel. Það blundaði samt í henni að prófa að starfa hjá einhverjum af sínum uppáhalds hönnuðum erlendis til að fá reynslu þannig að hún sótti um á nokkrum stöðum. Hún fékk síðan starf sem lærlingur í WRTW-deildinni hjá tískuhúsi Alexander McQueen í London og flutti þar með út. Þar tók hún meðal annars þátt í hönnunarferlinu á vor-og sumarlínunni 2017.
Eigið vörumerki, Sif Benedicta
Eftir að Halldóra Sif flutti heim frá London fór hún að hanna og þróa sitt eigið vörumerki, Sif Benedicta. Hún sérhæfir sig í lúxus leðurhandtöskum, plexítöskum og skarti, þá helst eyrnalokkum, hálsmenum, hárspennum og silkislæðum.
„Ég byrjaði á því að gera handtöskur og fylgihluti en svo kom fyrsta fatalínan mín út á Hönnunarmars í vor en framleiðsla úr þeirri línu er að koma út núna fyrir jólin. Ég eyði miklum tíma í að hanna góð snið, finna óvæntar litasamsetningar og prentmynstur og svo stílisera ég fötin á mismunandi vegu, þetta eru aðallega jakkaföt, skyrtur og kjólar fyrir konur.“
Opnuðu verslun við Laugaveg
Halldóra Sif var að opna, ásamt tveimur öðrum hönnuðum, verslun og vinnustofu í afar fallegu húsi við Laugaveg 16 í Reykjavík sem heitir Apotek Atelier. Þar má finna töskur, kvenföt og fylgihluti úr hágæðaefnum.
„Undirbúningurinn að opnuninni hefur staðið yfir á þriðja mánuð, við hönnuðum saman allt hér að innan, gerðum framleiðsluna klára og komum með nýjar vörur,“ segir Halldóra Sif um leið og hún sýnir mér verslunina.
„Móttökurnar hafa verið vonum framar, nú er aðventan gengin í garð og jólin á næsta leiti, við erum afskaplega ánægð með að hafa náð að opna fyrir jól. Það verður gaman að taka á móti þeim sem eru á röltinu um bæinn,“ segir Halldóra Sif og brosir um leið og hún kveður mig í dyrunum.