Hátíðardagskrá á Barion alla helgina
Barion heldur sínu striki þrátt fyrir aflýsta bæjarhátíð og blæs til mikillar veislu um helgina á hverfisstaðnum.
Dagskráin hefst á fimmtudagskvöldið þegar „hátíðar-bingó“ verður spilað en bingókvöldin á Barion eru löngu orðin landsþekkt enda til mikils að vinna. Á föstudagskvöldið er það CCR-bandið sem heiðrar hina mögnuðu sveit Creedence Clearwater Revival. Bandið er skipað Huldumönnunum og fyrrum Gildrufélögunum Birgi Haraldssyni og Sigurgeiri Sigmundssyni ásamt Bigga Nielsen, Inga B. Óskars og Jóhanni Ingva.
Á laugardagskvöldið er það sjálfur Herbert Guðmundsson sem mun trylla lýðinn. Hann hefur verið afkastamikill í íslensku tónlistarlífi frá árinu 1970.
Á sunnudagskvöldið eru það svo stelpurnar í Ylju sem loka helginni með ljúfum tónum. Það eru þær Guðný Gígja Skjaldardóttir og Bjartey Sveinsdóttir sem skipa dúettinn sem kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 2008. Ljúfir tónar í lok hátíðarhelgar á Barion.
Skráning fyrirfram á viðburði
Ljóst er að færri komast að en vilja, enda glæsileg dagskrá undir ströngum skilyrðum. Að sjálfsögðu er farið eftir öllum þeim takmörkunum sem eru í gildi og vel hugað að sóttvörnum.
Gestir geta tryggt sér sæti fyrirfram á Barion.is og auðveldar það líka við skráningu gesta á viðburðina samkvæmt reglum yfirvalda.
Þá var nýlega tekið í notkun útisvæði á bak við Barion í Þverholtinu sem hefur komið sér vel í sumar og áfram meðan sólin lætur sjá sig.