Halda Barnadjass í Mosó

Helgina 22.-25. júní verður hátíðin Barnadjass í Mosó haldin í fyrsta skipti.
Flytjendurnir eru á aldrinum 7-15 ára og koma frá Mosfellsbæ, Selfossi, Hafnarfirði, Reykjavík, Noregi og Færeyjum.
Listrænn stjórnandi hátíðarinnar er Odd André Elveland en hann er norskur djasstónlistarmaður og rekur tónlistarskólann Improbasen í Osló. Hann hefur þróað aðferðir til að kenna ungum börnum að spila djass eftir eyranu víðsvegar um heiminn.
Árlega stendur hann fyrir tónlistarhátíðinni „Kids in jazz“ í Osló og sækir hátíðin í Mosó innblástur þaðan. Hátíðin er partur af umfangsmiklu samnorrænu verkefni, styrktu af Nordisk kultur­fond, sem miðar að því að koma barnadjassi á kortið.

Tenging frá árinu 2017
Tenginguna á milli Odd André og Mosfellsbæjar má rekja allt til ársins 2017 þegar hann kom til landsins og hélt vinnustofu í spuna fyrir börn í Norræna húsinu.
Jakob Leó Allansson, stóri bróðir Rakelar Elaisu sem tekur þátt í hátíðinni í ár, var með í þeirri vinnustofu og var í framhaldinu boðið, ásamt þremur öðrum íslenskum krökkum, að taka þátt í Kids in Jazz hátíðinni í Osló. Síðan þá hafa yfirleitt verið einhverjir þátttakendur frá Íslandi og oftar en ekki leynst Mosfellingar í hópnum.

Gestgjafar hátíðarinnar 9-12 ára
Tónlistarskólinn í Mosfellsbæ hefur síðustu ár lánað aðstöðu sína þegar Odd André hefur komið til landsins til að kenna krökkunum og halda vinnustofur og hefur Sigurjón Alexandersson, deildarstjóri rytmísku deildar skólans, verið innan handar.
Árið 2021 tóku systkinin Emil Huldar Jonasson og Edda Margrét Jonasdóttir þátt í Kids in jazz í Osló og má segja að það hafi verið upphafið að stofnun 6 krakka djassbands sem er skipað mosfellskum börnum á aldrinum 9-12 ára. Þau eru gestgjafar hátíðarinnar og bera, ásamt erlendu gestunum, hitann og þungann af tónleikahaldinu.
Þar að auki koma fram tvær gestahljómsveitir. Hljómsveitin Rokkbál skipuð krökkum úr 9. bekk sem eru í Listaskóla Mosfellsbæjar undir handleiðslu Sigurjóns Alexanderssonar og hin hljómsveitin er skipuð krökkum úr 2.-4. bekk í Landakotsskóla.

Fyrsta djasshátíðin í Mosfellsbæ
Verkefnið er styrkt af Tónlistarsjóði Rannís, Mosfellsbæ, Kiwanisklúbbnum Mosfelli og Barnamenningarsjóði. Þetta er bara byrjunin þar sem verkefnið fékk veglegan styrk frá Barnamenningarsjóði til að ferðast með verkefnið um allt land.
„Við höldum að þetta sé í fyrsta skipti sem haldin er Djasshátíð í Mosfellsbæ og eins í fyrsta skipti djasshátíð þar sem börn eru í aðalhlutverki,“ segir Guðrún Rútsdóttir skipuleggjandi hátíðarinnar.

 


22. júní kl. 19 – Hlégarður (Mosfellsbæ)
23. júní kl. 17 – Hús máls og menningar (Rvk)
25. júní kl. 16 – Bankinn Bistro (Mosfellsbæ)
Ókeypis er inn á alla tónleikana.