Hættu

Guðjón Svansson gudjon@kettlebells.is

Guðjón Svansson
gudjon@kettlebells.is

Ég hef ekki tíma. Hvað hefur þú oft notað þessa afsökun? Ég hef notað hana alltof oft. En ég er að bæta mig, forgangsraða tíma mínum betur. Til þess að gera hluti sem gefa manni orku, þarf maður að taka aðra hluti út í staðinn. Annars lendir maður í vítahring tímastjórnunar­brjálæðis, svefnleysis og stress. Þegar maður hættir að gera hluti sem draga úr manni kraft og stela frá manni orku, galopnast nýjar gáttir. Gáttir sem maður nýtir í að gera spennandi, skemmtilega og nærandi hluti. Ef þér líður vel í því sem þú ert að gera, lætur þú öðrum í kringum þig líða vel. Og öfugt. En hverju áttu að hætta? Því sem tekur frá þér orku. Sestu niður og gerðu lista. Hættu svo einum hlut í einum og njóttu þess að hafa meiri tíma og orku.

Hér eru nokkrir hlutir sem ég hef hætt að gera. Listinn er alls ekki tæmandi, ég á nóg eftir! Lesa DV.is, kaupa Moggann, fara á óspennandi fótboltaleiki, horfa á fréttir og flesta sjónvarpsþætti, borða of mikið í einu, hafa samviskubit yfir einhverju sem öðrum finnst að ég eigi að gera – en geri ekki, fá tölvupóst og FB skilaboð í símann og mæta á óþarfa fundi. Bara þessi fáu atriði gefa mér 12-14 glænýja klukkutíma á viku sem ég get notað í að gera hluti sem gefa mér orku. Vinnan er oftast nefnd sem orsök þreytu og tímaleysis. Ef þú ert í vinnu sem tekur alla þína orku, hættu. Finndu þér nýja vinnu eða skapaðu þér þína eigin tekjustrauma. Ekki vera þræll. Ég hef hætt í nokkrum vinnum sem tóku meira frá mér en þær gáfu mér. Það krefst trúar á sjálfan sig að taka stökkið, en tilfinningin að taka ábyrgð á eigin tíma, vellíðan og þar með heilsu er yndisleg.
Áfram veginn!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 10. september 2015