Grunnskóli framtíðarinnar

Bryndís Brynjarsdóttir

Bryndís Brynjarsdóttir

Fræðslumál eru í dag og verða á komandi árum í brennidepli enda að mörgu að hyggja í þessum málaflokki.
Samfélagslegar breytingar af ýmsum toga speglast í skólum landsins sem er skylt að bregðast við. Þessi stutti pistill fjallar um einn þátt skólasamfélagsins sem snýr að innflytjendum í grunnskólum.
Öll tilheyrum við fjölmenningu sama hvaðan við komum og hafa flest nútímasamfélög aðlagað sig að þeim veruleika. Það er staðreynd sem verður ekki horft fram hjá að aukin hnattvæðing auðveldar flutning fólks á milli landa. Sá veruleiki krefst nú sem endranær að menntakerfið sé í stakk búið að bregðast við þeim áskorunum sem upp koma.
Menntakerfið á að vera fyrsta flokks og fyrir alla. Einn sá veruleiki sem við grunnskólunum blasir er aukinn fjöldi innflytjenda sem mun vissulega þurfa á aðlögun að halda. Meta þarf námslega stöðu þeirra, tryggja að úrræði og úrvalskennsluefni sé tiltækt fyrir kennara. Ef það er ekki tekið föstum tökum þá mun börnunum vera gert erfitt um vik að fóta sig í samfélaginu.
Grunnskólarnir takast á við margvíslegar áskoranir á hverjum degi og horfa til framtíðar við menntun allra nemenda. Kennarar eru sérfræðingar sem hugsa í lausnum og þurfa að vera fljótir að bregðast við hinu síkvika lærdómsumhverfi sem grunnskólinn er. Ýmis sóknarfæri hvað varðar breytta kennsluhætti eru í notkun upplýsingatækni í skólastarfi. Upplýsingatækni í kennslu hefur ekki hvað síst gagnast þeim nemendum sem glíma við sértæka námsörðugleika.
Fjölbreyttir kennsluhættir gera kennurum kleift að mæta mismunandi þörfum nemenda. Vinstri græn leggja ríka áherslu á að standa vörð um velferðarkerfið í heild sinni, það mun skila heilsteyptu og öflugu samfélagi til komandi kynslóða.

Bryndís Brynjarsdóttir, grunnskólakennari
og varaformaður fræðslunefndar fyrir Vinstri græn í Mosfellsbæ.
Hún skipar annað sætið
á lista VG í komandi kosningum.