Börnin í fyrsta sæti

Anna Sigríður Guðnadóttir

Anna Sigríður Guðnadóttir

Undanfarin misseri hafa málefni barnafjölskyldna komist ofarlega í umræðuna. Fæðingarorlof, dagvistun og vinnutími barna og foreldra er meðal þess sem rætt hefur verið.
Aðbúnaður barnafjölskyldna er sameiginleg ábyrgð okkar allra, ríkisvaldsins og sveitarfélaganna sem og atvinnulífsins, og það er alveg ljóst að gera þarf betur. Fæðingarorlofið er allt of stutt og mjög mikilvægt að lengja það. Fyrir Alþingi liggur nú lagafrumvarp frá þingmönnum Samfylkingar um að fæðingar- og foreldraorlof lengist í 12 mánuði og hefur núverandi ríkisstjórn haft uppi orð um að lengja orlofið. Vonandi gerist það sem allra fyrst.
Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt að fyrstu mánuðir og ár barnsins eru mjög mikilvæg fyrir þroska heilans. Barn fæðist ekki með fullþroskaðan heila og taugabrautir eru ómótaðar. Á vef Miðstöðvar foreldra og barna kemur m.a. fram að á fyrstu mánuðum og árum barnsins er heilinn auðmótanlegur og að jákvæð samskipti og vellíðan barns stuðli að tengingum á milli taugafruma í þeim hluta heilans sem sér um getu barnsins til sjálfstjórnar og flókinna félagslegra samskipta þegar fram líða stundir. Auðvitað geta aðrir en foreldrar veitt börnum ást, örvun og umhyggju, en þar sem foreldrar eru þeir sem elska og þekkja börnin sín mest og best hlýtur það að vera öllum í hag að gera þeim kleift að vera með börnum sínum, a.m.k. fyrsta aldursárið.

Dagvistun
Margir foreldrar þekkja óvissuna sem fylgir því að leita að góðri dagvistun fyrir börn að loknu fæðingarorlofi. Þegar fæðingarorlofi lýkur verður samfélagið að bjóða upp á örugga og faglega dagvistun fyrir börnin á viðráðanlegu verði. Samfélagið þarf á vinnukrafti, sérþekkingu og færni allra þessara foreldra að halda til að standa undir velferðarkerfinu og til að halda hjólum atvinnulífsins gangandi. Við, sem sitjum í bæjarstjórn Mosfellsbæjar, höfum tekið markviss skref í uppbyggingu ungbarnaleikskóla á kjörtímabilinu og ný bæjarstjórn sem tekur við eftir kosningar í maí á að halda áfram á þeirri braut og gera enn betur. Þá þarf að gæta þess að gjöld fyrir leikskóla verði áfram sambærileg við nágrannasveitarfélögin en bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar náðu fram þeirri lækkun við gerð síðustu fjárhagsáætlunar.

Fullur vinnudagur?
Samfélagið gerir ráð fyrir því að fullfrískt fólk vinni fullan vinnudag eða meira. Fullur vinnudagur leikskólabarns er þá a.m.k. 8,5 klukkustundir. En þarf fullur vinnudagur að vera 8 klukkustundir á dag? Við getum litið til nágrannalanda okkar og séð að styttri vinnuvika kollvarpar ekki atvinnulífinu. Við getum líka horft til Reykjavíkur sem hefur verið með tilraunaverkefni í gangi sem gengið hefur vonum framar: Meiri framleiðni, færri veikindadagar og betri almenn líðan starfsfólks. Svo ekki sé minnst á þá staðreynd að styttri vinnudagar þýða einnig fleiri samverustundir með fjölskyldunni. Fleiri samverustundir barna með því fólki sem þeim er kærast. Eigum við ekki sem samfélag að skoða þetta alvarlega?
Samfélagið á mikið undir því að börn njóti sem bests atlætis í æsku og það er skylda okkar að koma málum þannig fyrir að svo megi verða. Það þarf nefnilega þorp til að ala upp barn.

Anna Sigríður Guðnadóttir
bæjarfulltrúi og oddviti framboðslista
Samfylkingarinnar