Gleðilega hátíð!

Ólöf Kristín Sívertsen

Vonandi hafa þið öll notið sumarsins í faðmi fjölskyldu og/eða vina og náð að hlaða ykkur jákvæðri orku fyrir veturinn.
Við í Mosfellsbæ höldum að sjálfsögðu áfram í heilsueflingunni og mun ýmislegt spennandi og skemmtilegt verða á döfinni í haust og vetur.

Í túninu heima
Bæjarhátíð okkar Mosfellinga, Í túninu heima, verður haldin með pompi og prakt núna um helgina. Þetta er sannkölluð fjölskylduhátíð með heilsueflandi ívafi þar sem aðal markmiðið er að ungir sem aldnir komi saman, auðgi andann og njóti samverunnar með fjölskyldu og vinum.
Dagskráin er að venju glæsileg en hana má finna á heimasíðu bæjarins og að sjálfsögðu hér í Mosfellingi.

Tindahlaupið
Eitt skemmtilegasta hlaup sumarsins, Tindahlaupið í Mosfellsbæ, er fram undan og verður einn af hápunktum bæjarhátíðarinnar Í túninu heima. Í þessu náttúru- og/eða utanvegahlaupi verða fjórar útfærslur í boði, þ.e. 7 tindar (38 km), 5 tindar (34 km), 3 tindar (19 km) og 1 tindur (12 km).
Hlaupið fer fram laugardaginn 27. ágúst og því tilvalið að reima á sig skóna og velja sér áskorun við hæfi. Nánari upplýsingar má finna á www.hlaup.is

Perlum fyrir Kraft
Í tilefni af bæjarhátíðinni okkar leggur Kraftur leið sína í Mosfellsbæinn til að perla sín landsfrægu armbönd með Aftureldingu og Mosfellingum öllum.
Armböndin eru perluð í sjálfboðavinnu og rennur allur ágóði af sölu þeirra til Krafts. Sýnum kærleika í verki, mætum með fjölskyldunni, eigum góða stund saman og perlum af Krafti til að styðja við bakið á ungu fólki sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendum þeirra.
Perlað verður í Hlégarði í dag, þriðjudaginn 23. ágúst kl. 17:00-20:00.

Fellahringurinn
Afturelding stendur fyrir frábærri hjólakeppni, Fellahringnum, fimmtudaginn 25. ágúst. Hjólað verður um stíga og slóða umhverfis fallegu fellin okkar og hægt er að skella sér annaðhvort 15 km eða 30 km hring.
Frábær skemmtun fyrir fjölskyldur, verðlaun verða veitt í aldursflokkum (frá 12 ára) og auk þess verða líka vegleg útdráttarverðlaun, m.a. glæsilegt fjallahjól frá Markinu. Er þetta nokkur spurning?

Göngum í skólann
Árlega taka milljónir barna þátt í Göngum í skólann verkefninu í yfir fjörutíu löndum víðs vegar um heim.
Markmið verkefnisins eru meðal annars að hvetja börn og fjölskyldur til aukinnar hreyfingar með því að nota virkan ferðamáta, auka færni barna til að ferðast á öruggan hátt, stuðla að heilbrigðum lífsstíll fyrir alla fjölskylduna, minnka umferð við skóla og stuðla þar með að hreinna lofti og öruggari og friðsælli götum/hverfi.

Það er sem sagt gleði í kortunum og hvetjum við ykkur að sjálfsögðu til að taka þátt. Skemmtum okkur fallega saman – gleðilega hátíð!

Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsu­fræðingur og verkefnisstjóri
Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ