Gert ráð fyrir rekstrarafgangi í fyrsta skipti frá árinu 2019
Fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar var lögð fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn þann 8. nóvember og er lögð áhersla á ábyrgan rekstur og áframhaldandi uppbyggingu innviða, hátt þjónustustig og lág gjöld til barnafjölskyldna.
Þjónusta við börn og fjölskyldur
Í fjárhagsáætlun ársins 2024 er gert ráð fyrir því að Mosfellsbær verði áfram með lægstu gjöldin í leikskólum á höfuðborgarsvæðinu en í dag greiða foreldrar 28.284 kr. fyrir átta tíma vistun með fæði.
Bærinn mun enn fremur greiða niður dagvistun hjá dagforeldrum þannig að foreldrar greiði jafnhátt gjald hjá dagforeldrum og á leikskólum til að jafna aðstæður barna. Þá er gert ráð fyrir að börn fædd 1. ágúst 2023 eða fyrr komist inn í leikskóla haustið 2024.
Áhersla verður á farsæld barna og að styrkja Mosfellsbæ enn frekar sem Barnvænt sveitarfélag. Þá verður settur aukinn kraftur í innleiðingu á nýrri menntastefnu og eflingu upplýsingatækni í skólum.
Þjónusta við íbúa sett í forgang
Að sögn Regínu Ásvaldsdóttur bæjarstjóra verður þjónusta við íbúa Mosfellsbæjar sett í forgang með auknum fjárfestingum í stafrænni umbreytingu í stjórnsýslunni.
Þá verður fjárfest fyrir um 4,9 milljarða brúttó og ber hæst bygging leikskóla í Helgafellshverfi, uppbygging aðalvallar að Varmá og gatnagerð og veituframkvæmdir við athafnasvæði við Blikastaði.
„Við verðum samt að hafa í huga að áætlunin getur breyst á milli umræðna en við erum núna komin með uppfærða verðbólguspá frá Hagstofunni sem við verðum að taka mið af við aðra umræðu sem verður 6. desember,“ segir Regína.
HELSTU TÖLUR
- Heildartekjur eru áætlaðar 21.476 m.kr. og þar af eru áætlaðar útsvarstekjur 11.424 m.kr.
- Tekjur af byggingarétti áætlaðar 600 m.kr.
- Nýframkvæmdir ársins 2024 eru áætlaðar 4,9 milljarðar kr. brúttó.
- Afgangur verður af rekstri A- og B hluta, 945 m.kr. þrátt fyrir hátt fjárfestingarstig.
- Veltufé frá rekstri verður jákvætt um 2.097 m.kr. eða um 10% af heildartekjum.
- Álagningarhlutfall fasteignaskatts A lækkar til að koma til móts við hækkun fasteignamats svo hækkun verði ekki umfram verðlag.
- Álagningarprósenta fasteignaskatts atvinnuhúsnæðis lækkar.
- Gert er ráð fyrir að álagningarhlutfall útsvars verði óbreytt eða 14,74% í samræmi við lögbundna heimild sveitarfélaga.
- Hækkun á gjaldskrám verður til samræmis við breytingar á verðlagi.
- Gert er ráð fyrir að íbúar verði um 13.753 í byrjun árs 2024 og er ætluð íbúafjölgun 2,6%.
- Útkomuspá 2023 gerir ráð fyrir rekstrarafgangi í fyrsta skipti síðan 2019.