Gera samkomulag um uppfærðan samgöngusáttmála
Styttri ferðatími, minni tafir, aukið umferðaröryggi, áhersla á að draga úr kolefnisspori, stórbættar almenningssamgöngur, fjölgun hjóla- og göngustíga og uppbygging stofnvega eru kjarninn í uppfærðum samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins sem undirritaður var á dögunum.
Sáttmálinn felur í sér sameiginlega sýn fyrir allt höfuðborgarsvæðið, þar sem lögð verður höfuðáhersla á skilvirka og hagkvæma uppbyggingu samgönguinnviða. Markmiðið er að samgöngur á höfuðborgarsvæðinu verði í fremstu röð þannig að svæðið og Ísland allt sé samkeppnishæft um bæði fólk og fyrirtæki.
Sameiginlegt félag stofnað um skipulag og rekstur
Ríkið og sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, Garðabær, Hafnarfjörður, Kópavogur, Mosfellsbær, Reykjavík og Seltjarnarnes, hafa gert samkomulag um uppfærðan sáttmála sem felur í sér uppbyggingu á samgönguinnviðum og almenningssamgöngum á svæðinu til ársins 2040.
Á sama tíma var undirritað samkomulag um samvinnu um rekstur og stjórnskipulag almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Markmiðið er að efla almenningssamgöngur, m.a. með auknum stuðningi ríkisins, en sameiginlegt félag verður stofnað um skipulag og rekstur.
Borgarlínu flýtt í Keldnaland og þaðan í Háholt
„Þessi uppfærði samningur er mikið gleðiefni, ekki síst að ríkið komi að rekstri almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu en það var sterk krafa okkar sveitarfélaganna,“ segir Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri Mosfellsbæjar og formaður samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
„Það er mjög ánægjulegt að Borgarlínu verði flýtt í Keldnaland og þaðan í Háholtið í Mosfellsbæ en það helgast meðal annars af mikilvægi þess að fara af stað í uppbyggingu á Keldnalandi þar sem sala lóða þar skapar tekjur fyrir verkefnið. Sundabraut mun einnig skipta miklu máli fyrir umferðina á Vesturlandsvegi en fjármögnun hennar er utan við sjálfan sáttmálann.“
Heildarfjárfesting til ársins 2040 er áætluð 311 ma. kr.
Allar lykilframkvæmdir eru þær sömu og áður í samgöngusáttmálanum en breytingar eru gerðar á einstökum verkefnum.
Heildarfjárfesting á fyrsta tímabili í uppfærðum samgöngusáttmála, til ársins 2029, er að jafnaði rúmlega 14 ma. kr. á ári. Það samsvarar þriðjungi af árlegum samgöngufjárfestingum á fjárlögum. Á tímabilinu 2030-2040 er heildarfjárfesting að jafnaði 19 ma. kr. á ári. Heildarfjárfesting til ársins 2040 er áætluð 311 ma. kr.
Verkefni samgöngusáttmálans skiptast í fjóra meginflokka sem eru: Stofnvegir, Borgarlína og strætóleiðir, göngu- og hjólastígar og verkefni tengd umferðarstýringu, flæði og öryggi.
Skipting fjármögnunar milli ríkis og sveitarfélag verður hin sama og áður, þ.e. sveitarfélög með 12,5% og ríkið 87,5%.