Furðulegir tímar
Við lifum svo sannarlega furðulega tíma. Ástandið er erfitt, þungt og tekur á okkur öll. Hið opinbera hefur nú hlutverk sem aldrei fyrr að milda höggið og tryggja velferð allra. Því er mikilvægt og gott að ríkissjóður og sveitarsjóður hafi verið vel reknir.
Við höfum borgað okkar skatta og skyldur og kjörnir fulltrúar og starfsmenn hins opinbera hafa lagt sig fram um að veita góða þjónustu með sem minnstum tilkostnaði. Skuldir hafa verið greiddar upp í stórum stíl og einmitt nú kemur það sér býsna vel því ljóst er að í gegnum þetta komumst við ekki nema hið opinbera taki að láni fjármuni til að koma okkur í gegnum brimskaflinn.
Um leið þarf að tryggja áframhaldandi tekjur hins opinbera til lengri tíma litið. Það er mikilvægt að lífvænleg fyrirtæki í ferðaþjónustu komist í hýði og geti vaknað aftur þegar ferðamenn fara aftur að streyma til landsins, því það munu þeir svo sannarlega gera.
Það er mikilvægt að við höldum uppi eðlilegri eftirspurn í þjóðfélaginu þannig að veitingarstaðirnir okkar, kaffihúsin, verslanir, iðnaðarmenn o.s.frv. geti áfram starfað.
Aðgerðir ríkisstjórnarinnar og sveitarstjórna miða allar að því að milda höggið, tryggja framfærslu fjölskyldna og standa vörð um þau fyrirtæki sem eiga möguleika, uns erfiðleikarnir eru að baki.
Núllstilling og nýtt upphaf
Það eru tækifæri í öllu, líka þeim ógnunum sem við nú stöndum frammi fyrir. Margir hafa verið undir miklu álagi í vinnu á síðustu misserum og haft of lítinn tíma til að sinna sér og sínum. Því er tækifærið nú þegar allt hefur farið í hægagang að sinna því sem skiptir öllu máli, heilsunni og fjölskyldunni. Notum þann tíma vel því þar er raunverulegur auður okkar allra.
Hagkerfið okkar og heimsins alls hefur stækkað mikið á síðustu árum og í of miklum mæli á kostnað umhverfisins. Nú er tækifæri til að núllstilla okkur og huga að sjálfbærni, byggja upp öflugt gott atvinnulíf og samfélag sem tekur mið bæði af þörfum mannsins en líka þörfum umhverfisins og vistkerfisins alls. Við getum öll lagt okkar að mörkum við að styðja umhverfisvænar lausnir, tryggja að neysla okkar byggi á raunverulegum þörfum. Segjum bless við sóun sem einkennt hefur líf okkar fram að þessu.
Mosfellsbær fjölskylduvænn útivistabær
Það fallega og góða í þessu ástandi er að fylgjast með fólki stunda útivist í gríð og erg og sjá fjölskyldur fara saman í göngu og hjólatúra, slaka á og njóta augnabliksins.
Við í Mosó erum einstaklega rík af fallegri náttúru og góðum svæðum sem við getum notið. Leirvogurinn, fellin, fossarnir, árnar, fjörurnar og allir okkar frábæru stígar. Það eru ótrúleg forréttindi að geta á örskotsstundu farið út í ósnortna náttúru. Höldum áfram að huga að líkama og sál og njótum fallega bæjarins okkar.
Vonandi getum við svo bráðlega knúsað fleiri en þangað til brosum við og gefum frá okkur hlýju.
Bryndís Haraldsdóttir
Þingmaður Sjálfstæðisflokksins