Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ hlýtur Íslensku menntaverðlaunin

Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ hlaut í vikunni Íslensku menntaverðlaunin í flokknum „Framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur“ við hátíðlega athöfn á Bessastöðum.
Ein verðlaun eru veitt í þessum flokki, til skóla eða annarrar menntastofnunar, sem stuðlað hefur að menntaumbótum er þykja skara fram úr. FMOS fékk verðlaunin fyrir þróun verkefnamiðaðra kennsluaðferða og leiðsagnarnáms.
Leiðsagnarnámið er hornsteinninn í kennsluaðferðum skólans en það hefur verið að ryðja sér rúms í sífellt fleiri framhaldsskólum. Í leiðsagnarnámi eru nemendur virkir þátttakendur í námi sínu og tileinka sér námsefnið með því að vinna margbreytileg verkefni undir leiðsögn kennara.
Í leiðsagnarnáminu er ábyrgðin sett á nemendur sem þurfa að vinna jafnt og þétt yfir önnina og taka framförum með umsögnum og leiðbeiningum sem kennarar veita fyrir verkefnin í stað einkunna. Engin stór lokapróf eru í neinum áfanga og það má benda á að Harvard háskóli í Bandaríkjunum hefur sömu stefnu.

Skýr sýn varðandi hugmyndafræðina
En hvers vegna hefur gengið svona vel að þróa leiðsagnarnám í FMOS?
„Það eru margir þættir sem koma til; Guðbjörg Aðalbergsdóttir fyrsti skólameistari skólans hafði skýra sýn varðandi hugmyndafræðina sem hún vildi að skólinn starfaði eftir,“ segir Valgarð Már Jakobsson núverandi skólameistari. „Hún leiddi kennarahópinn áfram sem síðan hefur verið ötull við að þróa þessar kennsluaðferðir.
Einnig má nefna að skólinn var stofnaður í miðri bankakreppu, haustið 2009, og það voru tugir umsækjenda um hverja kennarastöðu sem var auglýst og hægt var að ráða kennara sem voru tilbúnir að kenna samkvæmt hugmyndafræðinni.
Samfara stækkun skólans hefur kennurum fjölgað og hugmyndafræðin alltaf verið höfð að leiðarljósi við ráðningu kennara.“

Eitt glæsilegasta skólahúsnæði landsins
„Fyrstu árin var skólinn til húsa í Brúarlandi sem allir bæjarbúar þekkja. Á meðan skólinn sleit barnsskónum í gamla barnaskólanum þá vorum við þátttakendur í að hanna framtíðarhúsnæði skólans.
Nýja byggingin er sérhönnuð utan um hugmyndafræðina okkar. Sambland af stórum og litlum kennslustofum og opnum vinnurýmum gefur okkur færi á að hafa mikla fjölbreytni í verkefnavinnu og allir geta fundið vinnuaðstæður við hæfi.
Búnaður og skipulag er til fyrirmyndar og við höldum því fram að við séum að kenna í einhverju glæsilegasta skólahúsnæði landsins og þótt víðar væri leitað.
Allt er úthugsað og þar með talið okkar frábæra mötuneyti þar sem hollur og góður matur er í boði á hverjum degi fyrir nemendur og starfsfólk.
Erlendir gestir sem heimsækja okkur dauðöfunda okkur af byggingunni og í hverri heimsókn er einhver sem spyr hvort við séum ekki að leita að fólki.“

Skapandi og framsæknir kennarar
„Síðustu ár hafa kennarar skólans kynnt hugmyndafræði skólans víða. Þeir hafa haldið námskeið og vinnustofur í leiðsagnarnámsfræðum og mikið er leitast við að fá að heimsækja okkur til þess að fræðast um það sem við erum að gera.
Síðasta vetur héldum við stóra ráðstefnu um leiðsagnarnám með þátttöku kennara og starfsfólks frá yfir 20 skólum víðs vegar að á landinu.
Þeir gestir sem koma hingað taka líka fljótt eftir þeirri einstöku stemningu sem er hérna. Gjarnan er talað um hinar geggjuðu vinnuaðstæður en fólk tekur líka eftir því hversu afslappað andrúmsloft er hér innanhúss og hversu áreynslulaus samskiptin eru milli nemenda og kennara.
Þessi verðlaun eru okkur mikil hvatning til að halda áfram á sömu braut. Til hamingju, kennarar í FMOS, sem hafa frá byrjun verið ótrúlega skapandi og framsæknir. Þessi verðlaun tilheyra ykkur fyrst og fremst. En mig langar líka að óska Mosfellingum til hamingju með að vera með stórkostlegan framhaldsskóla í heimabyggð.“

Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ (FMOS) var stofnaður haustið 2009 og er yngsti framhaldsskólinn á höfuðborgarsvæðinu. Á myndinni eru Guðni Th. Jóhannesson, Guðbjörg Aðalbergsdóttir fyrrum skólameistari, Guðrún Guðjónsdóttir aðstoðarskólameistari, Valgarð Már Jakobsson skólameistari og Inga Þóra Ingadóttir áfangastjóri.