Fólk eða flokka í bæjarstjórn?

Anna Sigríður Guðnadóttir

Það er stundum sagt og skrifað að stjórnmálaflokkar séu til óþurftar. Má skilja á stundum að stjórnmálafólki sem starfar innan stjórnmálaflokka sé ekki treystandi til að starfa af heilindum að hagsmunum bæjarbúa.
Í síðasta Mosfellingi birti bæjarfulltrúi framboðsins Vinir Mosfellsbæjar grein þar sem fram kom sú skoðun að óháður bæjarlisti þar sem einungis hagsmunir bæjarbúa ráði för eigi fullt erindi í Mosfellsbæ. Nú ætla ég ekki að dæma um það hvaða flokkar eða framboð eiga erindi í bæjarstjórn, það er kjósenda að ákveða það. Ég vil hins vegar draga fram af hverju það er kostur að þeir aðilar sem bjóða sig fram og setjast við bæjarstjórnarborðið séu hluti stjórnmálahreyfingar með skýr stefnumið.

Á hverju byggjum við okkar störf?
Við sem störfum í bæjarstjórn og nefndum bæjarins í nafni Samfylkingarinnar vinnum að sjálfsögðu af fullum heilindum að hagsmunum bæjarfélagsins og íbúa þess. En á hverju byggjum við þær ákvarðanir sem við tökum? Við byggjum þær á stefnu flokksins sem við störfum innan, jafnaðarstefnunni. Okkar starf miðar að því að efla velferðarsamfélagið með frelsi, jafnrétti, samábyrgð og réttlæti að leiðarljósi. Leiðarljósið er þessi öfluga stjórnmálastefna sem norræn velferðarsamfélög eru reist á. Þetta eru grunngildi Samfylkingarinnar.
Á sveitarstjórnarstigi er veitt sú þjónusta og teknar flestar þær ákvarðanir sem hafa hvað mest áhrif á daglegt líf og lífsgæði íbúa, á hvaða aldri sem þeir eru. Gott samfélag verður til þegar allir íbúar fá tækifæri til að taka virkan þátt í samfélaginu og enginn er skilinn eftir, þar sem íbúar upplifa frelsi, samstöðu og samhygð.

Áskoranir framtíðar
Við sem samfélag stöndum frammi fyrir áður óþekktum áskorunum. Það eru áskoranir í umhverfismálum, velferðarmálum og atvinnumálum sem við verðum að bregðast við á markvissan og öflugan hátt. Þessum áskorunum verður ekki mætt á fullnægjandi hátt nema með aðkomu sveitarfélaga og samstarfi sveitarfélaga. Þess vegna er mikilvægt að í sveitarstjórnum sitji fólk með framtíðarsýn sem byggist á stefnu um jöfn tækifæri allra, stefnu um heilbrigt og öflugt atvinnulíf sem gengur ekki á rétt komandi kynslóða um heilnæmt umhverfi og sjálfbæra nýtingu auðlinda. Fólk sem lítur fyrst og fremst til velferðar barna og fjölskyldna í öllum sínum störfum.

Framtíðarákvarðanir
Á hverju fjögurra ára kjörtímabili koma upp ýmis álitaefni og mál til afgreiðslu í bæjarstjórn sem ómögulegt er að sjá fyrir í kosningabaráttu eða í upphafi tímabilsins. Það að kjörnir fulltrúar séu hluti stjórnmálahreyfingar með heildstæða stefnu um uppbyggingu velferðarsamfélags fyrir okkur öll, hefur forspárgildi um á hverju ákvarðanir síðar á kjörtímabilinu verði byggðar. Í tilfelli bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar verða þær byggðar á jafnaðarstefnunni, stefnunni um velferðarsamfélagið sem byggist á jöfnuði og réttlæti.

Anna Sigríður Guðnadóttir,
oddviti framboðslista Samfylkingarinnar.