Fjölskyldan loksins sameinuð í Mosfellsbæ eftir erfiðan aðskilnað
Hjónin Hanna Símonardóttir og Einar Þór Magnússon hafa í gegnum árin tekið að sér fjölmörg fósturbörn í bæði skammtíma- og langtímavistun.
Það var svo í janúar 2021 að Hassan Rasooli kom til þeirra. Hassan var þá 14 ára gamall og hafði komið til Íslands skömmu áður sem flóttamaður en foreldrar hans og systkini voru enn í Íran.
„Fyrstu tvo mánuðina sem Hassan var hjá okkur vorum við að bíða eftir að hann fengi vernd á Íslandi. Eftir að Útlendingastofnun hafði samþykkt það byrjaði vinnan við að sameina fjölskylduna, sem á endanum tókst og nú búa þau öll hérna í Mosfellsbæ,“ segir Hanna sem er ánægð með hvernig Mosfellsbær stendur að móttöku flóttafólks.
Á flótta í átta mánuði
Fjölskylda Hassans er frá Afganistan þau fluttu til Íran þegar hann var um fjögurra ára gamall. Þar bjuggu þau sem flóttamenn þar til þau komu til Ísland þann 14. september. Flótti Hassans frá Íran var langt og erfitt ferli.
„Það tók mig um átta mánuði að komast hingað, ég flúði fyrsti frá Íran til Tyrklands, þar dvaldi ég í sex mánuði, var að vinna í verksmiðju ásamt fleira fólki í sömu stöðu og ég. Við bjuggum öll saman í litlu húsi og unnum í verksmiðjunni, maðurinn sem hjálpaði okkur til Ítalíu skaffaði okkur bæði þetta húsnæði og vinnuna,“ segir Hassan sem þarna var 14 ára gamall, einn í ókunnu landi í erfiðum aðstæðum og vissi ekki hver næstu skref í hans lífi yrðu.
Þakklátur fyrir íslensku fjölskylduna
„Við fórum svo með bát frá Tyrklandi til Ítalíu, við vorum um 200 manns í þessari ferð. Við vorum fimm daga á siglingu og það var hvorki vatn né matur í boði og enginn gat lagst niður, við stóðum allan tímann. Ég er mjög þakklátur fyrir að hafa endað hér á Íslandi, Hanna og Einar eru einstakar manneskjur sem hafa breytt lífi okkar fjölskyldunnar. Við munum vera þakklát þeim til æviloka,“ segir Hassan en það tók um tvö ár fyrir foreldra hans og systkini að komast til Íslands. En hann saknaði þeirra óskaplega mikið og þau hans meðan á aðskilnaðinum stóð.
Talar mjög góða íslensku
„Hassan er svakalega flottur og duglegur strákur, hann var mjög fljótur að læra íslensku og bjarga sér á allan hátt. Hann byrjaði fljótt í 10. bekk Kvíslarskóla þar sem honum var vel tekið af bæði kennurnum og nemendum. Eignaðist góða vini sem margir eru enn saman í Borgó þar sem hann er núna á bifvélavirkjabraut.
Hann byrjaði strax í fótboltanum og svo er hann líka í karate. Hann hefur unnið með skólanum og er að safna sér fyrir bíl, enda bílprófið handan við hornið. Og nú er hann duglegur að hjálpa fjölskyldunni að læra íslenskuna og þau öll áhugasöm um að aðlagast íslenskum hefðum og venjum,“ segir Hanna.
Fjölskyldan sameinuð
Fjölskylda Hassans, þau Mousa og Zahra, Ehsan 17 ára og Parisa 12 ára komu svo loks til Íslands í september, það voru heldur betur fagnaðarfundir.
„Þau byrjuðu á að búa öll hjá okkur Einari, svo fengu þau íbúð með hjálp þeirra sem taka á móti flóttafólki hjá bænum. Mig langar að taka það fram hve vel er staðið að þessum málum hér í bæ, flott ferli og virkilega verið að kenna fólkinu á lífið hér á landi og gera þau sem allra mest sjálfstæð og örugg,“ segir Hanna og bætir við að þau séu öll svo ánægð með lífið í Mosfellsbæ.
Hlakka til að gefa til baka
Að lokum báðum við fjölskylduna að segja okkur hvað það væri það skrítnasta við Ísland og hvað það var sem kom þeim á óvart. Það stóð ekki á svörum hjá þeim og þótti þeim kuldinn og myrkrið það skrítnasta.
Það sem kom þeim mest á óvart var fólkið og góðvildin sem þau mæta alls staðar og hve allt er frjálst. Þau hlakka til að geta lagt eitthvað til samfélagsins og gefa til baka.