Fergus og Ferguson
Við hjónin fórum og hlustuðum á írska frammistöðuráðgjafann Fergus Connolly segja frá reynslu sinni af því að vinna með íþróttaliðum. Hann talaði um mikilvægi þess mannlega í keppnisíþróttum og sagði mannlega þáttinn jafn mikilvægan, ef ekki mikilvægari, og vísindalegar mælingar á frammistöðu leikmanna og liða.
Hann nefndi mörg dæmi máli sínu til stuðnings og vitnaði í heimsþekkta þjálfara á borð við Alex Ferguson sem var öðrum fremri í að velja rétta leikmenn í sitt lið. Þar skipti mannlega hliðin miklu máli. Hvernig leikmennirnir komu fyrir og höguðu lífi sínu þegar þeir voru ekki á æfingu eða að keppa. Vellíðan og góð heilsa voru í lykilhlutverki í fyrirlestri þess írska sem hefur unnið með heimsfrægum íþróttaliðum í Englandi og Bandaríkjunum. Það sem ég hugsaði eftir fyrirlesturinn var, af hverju eru íslensk íþróttalið ekki markvisst að vinna meira með mannlega þáttinn? Einhver eru kannski að því en þau eru fá.
Af hverju eru ekki fleiri íþróttasálfræðingar eða sérfræðingar í mannlegum samskiptum í fastri vinnu hjá íþróttafélögum? Af hverju er hjá sumum félögum, eins og til dæmis græna félaginu í Kópavogi, gert grín að hlutverki þess sem vinnur við mannlega þáttinn þar í hlutastarfi. „Já, eigum við ekki bara að fá félagsfræðinginn til þess að tala við hann?“ er lína sem ég heyrði í útvarpsþætti í sumar, spekingarnir voru þá einmitt að tala niður þetta gríðarlega mikilvæga en vanmetna hlutverk.
Íþróttafólk er ekkert öðruvísi en annað fólk, ef eitthvað er þá býr það við meiri pressu en aðrir, stöðugar kröfur um að standa sig og að sýna engin veikleikamerki. Alex Ferguson gat blásið hárið af mönnum ef honum fannst ástæða til, en fyrst og fremst náði hann árangri með United liðið sitt með því að passa vel upp á leikmenn sína innan vallar og utan. Alveg eins og Klopp í dag.
Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 5. desember 2019