Ferðalagið tók fjögur ár
Hanna Björk Halldórsdóttir íþróttafulltrúi Aftureldingar ákvað að fara í tæknifrjóvgunarferli til Grikklands.
Ýmsar meðferðir flokkast undir tæknifrjóvgun og margvíslegar ástæður geta legið að baki þess að fólk fari í slíkar meðferðir. Þetta er t.d. kjörmeðferð fyrir einhleypar konur sem vilja eignast börn og hefur árangur af slíkum meðferðum verið góður.
Hanna Björk Halldórsdóttir er ein þeirra sem hefur kosið að fara slíka leið en hún eignaðist tvíbura í júlí sl. Hanna ákvað að leita sér aðstoðar erlendis og segist ánægð með þá þjónustu sem hún fékk í Grikklandi, þar var á hana hlustað og henni gefin ráð.
Hanna Björk fæddist í Reykjavík 9. mars 1985. Foreldrar hennar eru Valgerður Hermannsdóttir hjúkrunarfræðingur og Halldór Bárðarson smiður.
Hanna Björk á tvo bræður, Sverri Einar f. 1971 og Hall Þór f. 1981.
Þetta voru ævintýralöndin okkar
„Ég er alin upp í Mosfellsbæ og elskaði að alast upp hérna, myndi hvergi annars staðar vilja ala upp mín börn.
Það voru forréttindi að alast upp í næstu götu við ömmu og við vinkonurnar nýttum okkur það gjarnan að fara til hennar og fá heitt kakó og skúffuköku. Klettarnir í bakgarðinum hjá henni á Helgastöðum, Álafosskvosin og skógurinn í Brekkulandi voru helstu ævintýralöndin okkar.“
Við kunnum engar reglur
„Maður var alltaf úti að leika sér með krökkunum úr Holtunum. Við bjuggum til hafnaboltavöll á grasblettinum á horninu á Markholti og Skeiðholti. Við spiluðum en raunin var sú að við kunnum engar reglur nema kasta bolta, slá með kylfu og hlaupa,“ segir Hanna og hlær. „Pæjumótin voru líka stór hluti af sumartímanum og voru í raun það sem maður hlakkaði mest til.
Ég gekk í Varmárskóla og Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar, ég var mikil strákastelpa og var í fótbolta í öllum frímínútum. Árgangurinn minn var örugglega vel hress fyrir kennara og stjórnendur skólans. Ég held að ég hafi nú ekki verið sú sem hafi verið til vandræða endilega en átti það til að koma vinum mínum í vandræði, svona þegar prakkarinn kom upp í mér,“ segir Hanna Björk og brosir.
„Á sumrin starfaði ég á Reykjalundi og svo æfði ég fótbolta og frjálsar íþróttir, maður nýtti hverja lausa stund til að spila. Ég ferðaðist mikið um landið með fjölskyldu minni en ferðalögin voru oft farin vegna fótboltamóta hjá mér.“
Bauðst að fara til Miami
„Ég gekk í Menntaskólann í Reykjavík og við vorum tvær úr Mosó sem lentum saman í bekk. Okkur leist ekki vel á þetta frá fyrsta degi. Einn daginn fórum við saman í Menntaskólann við Sund til að sækja bók hjá vinkonu okkar en enduðum á að skrá okkur í skólann.
Ég átti fjögur frábær ár í MS og eignaðist þar mína bestu vini. Eftir útskrift prófaði ég alls konar, fór í HÍ en endaði svo á Flórída í einkaþjálfaranámi. Ég starfaði við þjálfun í Baðhúsi Lindu P í nokkur ár en bauðst svo að fara til Miami í Florida Memorial University og spila knattspyrnu fyrir nýtt háskólalið, þar var ég í tvö ár.“
Ein besta hugmynd sem ég hef fengið
„Eftir heimkomu frá Miami fór ég í Háskólann í Reykjavík í íþróttafræði. Það er án efa ein sú besta hugmynd sem ég hef fengið. Sumarið eftir útskrift þá gekk ég inn á ferðaskrifstofuna Kilroy og sagði ráðgjafa þar að mig langaði í meistaranám um haustið. Ég vildi fara þar sem væri hlýtt og töluð enska, ráðgjafinn benti mér á Hawaii Pacific University. Þangað fór ég og sótti nám í breytingastjórnun sem er ansi skemmtileg blanda með íþróttafræðinni.“
Menning hefur alltaf heillað
„Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á íþróttum en er að mestu leyti hætt að sprikla sjálf. Ég hef samt sett mér það markmið að fara á íþróttaviðburði í hverju landi sem ég fer til og það markmið hefur leitt mig á ýmsa skemmtilega viðburði.
Menning hefur alltaf heillað mig líka, að sjá hvernig fólk lifir. Lífið á Hawaii t.d. sýndi mér fjölbreytileika á allt öðrum stað en við þekkjum hérna heima, ég fann mig vel í því umhverfi og naut þess að læra.“
Ákvað að leita mér aðstoðar
Hanna Björk er sjálfstæð móðir tvíbura sem fæddust 6. júlí 2023 eftir mikið ævintýri í Grikklandi. Eftir 32 vikna meðgöngu fæddust Baltasar Bjarkan og Sunneva Kristín.
„Almennt séð hef ég gaman af að vera í góðum félagsskap en nú fer tíminn minn mest í börnin mín og það er bara yndislegt,“ segir Hanna Björk og brosir.
„Ég hóf mitt tæknifrjóvgunarferli 2019 og þetta ferðalag varði í fjögur ár. Ég fór í viðtal hjá Livio hér á Íslandi en var aldrei fyllilega ánægð þótt margir hafi fengið þar góða þjónustu, mér fannst viðtalið þurrt, stutt og ekki hlustað á mínar áhyggjur eða pælingar. Ég ákvað samt að gefa þeim tækifæri sem er kannski mín stærsta eftirsjá.
Fyrsta tæknisæðingin fór fram í júlí 2020, fór í fjögur skipti hér heima sem gengu ekki svo ég ákvað þá að leita mér aðstoðar erlendis. Ég hafði heyrt gott af Serum IVF Clinic í Grikklandi, fékk símaviðtal við kraftaverkakonuna Penny sem bauð mér að koma í rannsókn.
Eftir þær rannsóknir voru allar mínar áhyggjur, sem ég hafði rætt hér heima, staðfestar.“
Óendanlega þakklát
„Ég fór í fimm ferðir til Grikklands, þrjár meðferðir og allt gekk upp í þeirri þriðju sem jafnframt var fyrsta glasameðferðin og til urðu tveir fullkomnir einstaklingar.
Meðferð sem þessi er dýr og það voru margir sem höfðu á orði að þeir vildu styrkja mig í þessu ferli. Eftir miklar vangaveltur fór ég út í fjáröflun og seldi hinar ýmsu vörur. Ég náði að safna langleiðina upp í fulla meðferð, eina aðgerð, tvær flugferðir og hótelkostnað. Þetta var mikil vinna og oft á tíðum yfirþyrmandi, pabbi og vinkona mín tóku að sér að keyra út vörurnar í öllum veðrum.
Ég verð óendanlega þakklát öllum þeim sem létu fé af hendi rakna, það er ekki hægt að lýsa því með orðum hvernig það var að finna fyrir öllum þessum stuðningi.“
Starfið er margþætt
Hanna Björk hefur starfað við dagvistun, þjálfun og þjónustustörf í gegnum tíðina en árið 2017 var hún ráðin íþróttafulltrúi Aftureldingar. Hanna þekkir félagið og alla aðstöðu vel í gegnum sinn íþróttaferil frá unga aldri.
„Það eru mikil forréttindi að fá að starfa hjá uppeldisfélaginu og ég er ákaflega þakklát fyrir það tækifæri. Ég stýri íþróttamálunum og starfið er margþætt. Við viljum alltaf gera betur þegar kemur að þjálfun iðkenda og ekki síst í fræðslu fyrir þjálfara félagsins, starf mitt er liður í þeirri uppbyggingu,“ segir Hanna Björk og brosir er við kveðjumst.