Fasteignagjöld í Mosfellsbæ hækka um 38%
Hér að ofan birti ég yfirlit yfir fasteignagjaldaálagningu Mosfellsbæjar á heimili mitt að Akurholti 1 í Mosfellsbæ fyrir árin 2022–2024.
Taflan sýnir að á síðustu tveimur árum hafa fasteignagjöldin hækkað um 37,9%. Á sama tíma hefur vísitala neysluverðs hækkað um 17,3% og launavísitalan um 15,7%. Hækkun fasteignagjalda í Mosfellsbæ á umræddu tímabili er því langt umfram hækkun almenns verðlags og hækkun launa.
Bæjarfulltrúar Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar rituðu grein í Mosfelling í nóvember 2023 þar sem þeir segja að í málefnasamningi meirihluta bæjarstjórnar Mosfellsbæjar sé „kveðið á um að álagningarprósentur fasteignagjalda verði lækkaðar til að koma til móts við hækkun fasteignamats og í fyrirliggjandi fjárhagsáætlun er staðið við það markmið meirihlutans“.
Eftir yfirferð á álagningu fasteignagjalda á heimili mitt síðustu tvö árin á ég erfitt með að skilja hvernig bæjarfulltrúar Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar telja sig hafa lækkað álögur á heimilin í Mosfellsbæ, en í millifyrirsögn í umræddri grein þeirra í Mosfellspóstinum stendur: „Lækkum álögur á heimilin“.
Hákon Björnsson