Er Mosfellsbær bær fyrir ungt fólk?
Á hátíðarstundum er gjarnan rætt um mikilvægi þess að ungt fólk komi að uppbyggingu samfélagsins. Með þessi orð í eyrum hefur ungt fólk víða um land tekið þeirri áskorun og boðið sig fram til verka í bæjarstjórnum. Oftar en ekki hefur því ekki gengið nægilega vel til að ná kjöri í sæti bæjarfulltrúa.
Í Mosfellsbæ eru nú rúmlega 40% bæjarbúa undir þrítugu. Þá mætti ætla að a.m.k einn bæjarfulltrúi væri á þessum aldri eða hvað? Nei, svo er nú raunin ekki. Allt frá aldamótum hefur enginn kjörinn bæjarfulltrúi í bæjarstjórn verið undir þrítugu.
Kjósum ungt fólk til ábyrgðar
Frá jafnréttissjónarmiði er þetta ekki ásættanlegt, 40% bæjarbúa eru án talsmanns í stjórn bæjarins. Fyrir mér ætti bæjarstjórn að endurspegla landslagið í sínu bæjarfélagi og þá er ég ekki endilega að segja að 40% af þeim sem sitja í bæjarstjórn ætti að vera undir þrítugu. En þeir sem eru undir þrítugu ættu nú allavega að hafa einn eða mögulega tvo fulltrúa.
Mosfellsbær er bær unga fólksins, það sést á tölum ef skoðað er hlutfall fólks undir þrítugu af heildarfjölda bæjarbúa. Fólk undir þrítugt er um 40% íbúa bæjarins, hvað segir það okkur? Þetta segir mér að hér vill unga fólkið eiga heima, hér vill ungt fólk stofna fjölskyldur. Það er vegna þess að það sér hvað Mosfellsbær hefur upp á að bjóða.
Í Mosó eru góðir skólar, glæsilegt tómstundalíf, flott íþróttaaðstaða og ekki skemmir nálægð bæjarins við náttúruna sem við Mosfellingar elskum svo mikið. Ætíð koma nýjar hugmyndir með nýju fólki, ungt fólk býður sig fram til áhrifa ekki til þess að vera skraut á tyllidögum. Við höfum skoðanir, hugmyndir og viljum svo gjarnan vera hluti af því að byggja upp og skapa betra samfélag fyrir okkur og fjölskyldur okkar til framtíðar.
Þess vegna óska ég eftir stuðningi í 4. sætið í komandi prófkjöri Sjálfstæðismanna þann 5. febrúar næstkomandi. Ég hef óþrjótandi áhuga á félagsmálum og samfélaginu okkar hér í Mosfellsbæ. Ég sit í stjórn Viljans, félags ungra Sjálstæðismanna í Mosó. Ég var formaður nemendafélags FMOS og stunda núna nám til atvinnuflugmanns.
Ég væri þakklátur fyrir stuðning í 4. sætið í prófkjörinu. Kjósum ungt fólk til ábyrgðar!
Ragnar Bjarni Zoëga