Elva Björg Mosfellingur ársins 2021

Mosfellingur ársins 2021 er Elva Björg Pálsdóttir forstöðumaður félagsstarfs eldri borgara í Mosfellsbæ. Elva Björg er tómstunda- og félagsmálafræðingur og hóf störf sem leiðbeinandi í handavinnu árið 2010 og tók svo við starfi forstöðumanns 2013 hjá Mosfellsbæ.
„Ég er bara mjög snortin, ég átti alls ekki von á þessu,“ segir Elva Björg þegar við tilkynnum henni um nafnbótina.
„Ég er fyrst og fremst þakklát og þið eruð að koma mér rosalega á óvart. Þetta er mjög skemmtileg byrjun á árinu og gaman að fá klapp á bakið. Ég vil auðvitað tileinka öllum eldri borgurum í Mosfellsbæ þessa viðurkenningu,“ bætir hún við þegar hún fréttir að undirskriftalistar hafi gengið manna á milli með áskorun um að velja hana Mosfelling ársins. Eldri borgarar eru greinilega mjög ánægðir með hennar störf.

Mikilvægt að halda úti starfseminni
„Ég finn fyrir þakklæti í mínu starfi á hverjum degi og það eru sannkölluð forréttindi að vinna með eldri borgurum. Hjá okkur er gleði alla daga og á bakvið hvert andlit býr svo mikil saga sem gaman að er að fræðast um. Það er ekki sjálfgefið að vinna við það sem gefur manni svona mikið í lífinu.
Mitt starf er fólgið í því að vera eldra fólkinu innan handar enda er ég fyrst og fremst að vinna fyrir þau. Þau eiga jafnan frumkvæðið að því sem þau vilja gera og í sameiningu setjum við upp skemmtilega dagskrá.
Það er auðvitað krefjandi á tímum Covid að halda starfseminni gangandi en við höfum náð að halda okkar striki ótrúlega vel í gegnum þetta allt saman. Stjórnvöld eru líka búin að greina það að mikilvægara sé að halda úti starfsemi þessa aldurshóps en að setja á frost.
Tómstundir eru ekki bara fyrir fólk sem vill sitja og prjóna. Það er svo margt hægt að gera og öll viljum við verða gömul og búa okkur vel í haginn.“

Mest stækkandi hópur í heiminum
„Við erum með góða aðstöðu hér á Eirhömrum og hefur sveitarfélagið verið okkur hliðhollt. Öryggisíbúðirnar hér eru vinsælar og fólk flyst hingað til að minnka við sig. Gjarnan flyst hingað líka fólk utan af landi.
Eldri borgurum fer alltaf fjölgandi og er mest stækkandi hópur í heiminum. Það er og verður því áskorun að láta þjónustuna fylgja með.
Starfsemi okkar nær líka langt út fyrir okkar húsakynni því um alla sveit er eldra fólk að hreyfa sig eða stunda einhverja afþreyingu á vegum félagsstarfsins og félags eldri borgara í Mosfellsbæ og nágrenni.
Það eru t.d. hópar í World Class í Lágafellslaug, að Varmá, Karlar í skúrum og útifjör víðsvegar svo eitthvað sé nefnt.
Hreyfing er það langvinsælasta hjá eldra fólkinu í dag enda kynslóðirnar að breytast, fjölbreytnin að aukast og kröfurnar í takt við tímann.“

Skemmtilegt að tilheyra hópi
Elva segir mjög mikilvægt að taka vel á móti nýju fólki. „Ég held að það séu 90% líkur á að fólk komi aftur eftir að það kemur til okkar í fyrsta skipti. Ég geri engan mannamun og ég trúi því að það sé ágætis kostur sem hjálpi mér í starfi.
Samkvæmt skilgreiningunni er félagsstarfið miðað við 67 ára og eldri en öllum er tekið fagnandi og Mosfellingar hafa alltaf forgang.
Fókinu finnst skemmtilegt að tilheyra einhverjum hópi í staðinn fyrir að gera ekki neitt. Starfið hérna er mjög vel sótt og sýnilegt öllum sem vilja vera með. Það er auðvitað leiðinlegt að þurfa banna hitt og þetta vegna samkomutakmarkana en það birtir til um síðir.
Þegar ástandið í þjóðfélaginu var hvað verst hringdum við í alla til að taka stöðuna. Mér finnst þau ekkert hafa stórkostlegar áhyggjur enda öll bólusett og flott.
Eldri borgarar í Mosfellsbæ eru bara algjörir snillingar,“ segir Elva Björg að lokum.
Mosfellingar geta greinilega hlakkað til að eldast og taka þátt í fjölbreyttu starfi eldri borgara í Mosfellsbæ.