Einar Andri og Afturelding gera nýjan 3 ára samning
Meistaraflokksráð Aftureldingar í handbolta karla og Einar Andri Einarsson þjálfari liðsins hafa gert með sér nýjan samning um að Einar Andri þjálfi lið Aftureldingar næstu þrjú árin.
Fyrri samningur Einars Andra rennur út í vor og hefur hann þjálfað liðið síðustu þrjú keppnistímabil með mjög góðum árangri.
Einar Andri er yfirþjálfari yngri flokka félagsins auk þess sem hann hefur umsjón með handboltaakademíunni í FMOS.
Ætla að berjast um alla titla
„Við erum mjög ánægðir að hafa framlengt samninginn við Einar Andra,“ segir Ásgeir Sveinsson formaður meistarflokksráðs Aftureldingar, enda er hann einn albesti þjálfari landsins.
„Árangur hans með liðið frá því hann tók við því hefur verið mjög góður auk þess sem okkar ungu leikmenn hafa tekið miklum framförum undir hans stjórn.
Markmið okkar eru skýr en þau eru að berjast um alla titla sem í boði eru og við væntum mikils af samstarfinu við Einar á næstu árum.
Við ætlum að halda áfram að byggja upp sterkt lið í Mosfellsbæ með okkar frábæra leikmannahópi sem samanstendur að langmestu leyti af uppöldum Mosfellingum.“
Fjórir lykilmenn skrifa undir
Á sama tíma og Einar Andri skrifaði undir nýjan samning framlengdu fjórir lykilmenn Aftureldingar sína samninga við félagið til þriggja ára, til ársins 2020.
Þetta eru þeir Elvar Ásgeirsson, Pétur Júníusson, Böðvar Páll Ásgeirsson og Kristinn Elísberg Bjarkason.
Þessir strákar eru mjög góðir leikmenn með mikinn metnað og hafa þeir leikið með unglingalandsliðum Íslands undanfarin ár. Þeir hafa leikið stórt hlutverk undanfarin ár með meistaraflokki Aftureldingar og ætla sér stóra hluti með sínu uppeldisliði á næstu árum.