Ég hræðist ekki sorgina

mosfellingurinn_annasig

Anna Sigurðardóttir sálfræðingur hjá Heilsuborg segist hafa fengið tækifæri til að endurskoða gildi sín og lífsviðhorf eftir barnsmissi.

Anna er þekkt fyrir að vera orku­­mikil, jákvæð og bros­mild og ekki vantar upp á húm­orinn. Í maímánuði árið 2013 tók líf hennar u-beygju er hún fæddi andvana dóttur. Krufning leiddi í ljós að hún hefði látist innan við sólarhring fyrir fæðingu. Í einlægu viðtali við Ruth Örnólfs­dóttur ræðir hún um æskuárin, líkamræktina, dansinn, starf sitt og hvernig hún tekst á við sorgina.

Anna er fædd í Keflavík 22. september 1973. Foreldrar hennar eru þau Hjördís Ólafsdóttir leikskólakennari og Sigurður Einar Björn Karlsson málarameistari.
Anna á tvo bræður, Karl f. 1967 og Gunnar f. 1971.

Lærði fljótt að leika mér utandyra
„Ég ólst upp í Búðardal fyrstu tíu árin og á einungis frábærar minningar þaðan. Ég gekk í Grunnskóla Búðardals og eignaðist þar góða vini. Að alast upp í litlu samfélagi í nálægð við náttúruna var gott og nærandi og ég lærði fljótt að leika mér utandyra. Faðir minn var duglegur að kenna mér á dýralífið og móðir mín kenndi mér nöfnin á blómunum.
Við fjölskyldan höfum alltaf verið hreyfiglöð og vorum mjög dugleg að ferðast. Þegar ég var 7 ára þá fórum við í viku gönguferð um Hornstrandir sem var mjög gaman.“

Dönsuðum á göngum skólans
„Við fjölskyldan fluttum í Garðabæinn og áttum þar góð ár. Ég gekk í Flata- og Garðaskóla og mér leið vel í skólanum. Ég átti fáa en góða vini enda var ég mjög upptekin á þessum tíma við að sinna dansæfingum.
Maður var alltaf dansandi á þessum árum og mjög oft tókum við skólasysturnar okkur til og dönsuðum á göngum skólans sem okkur fannst nú ekkert leiðinlegt,“ segir Anna og hlær.

Margir Íslandsmeistaratitlar
Anna var einungis sextán ára þegar hún byrjaði að starfa sem þolfimikennari og tvítug sem einkaþjálfari. Hún hefur keppt í freestyle og suður-amerískum dönsum víða um heim og náði mjög góðum árangri á heimsmælikvarða. Hún hefur einnig unnið marga Íslandsmeistaratitla í dansi, þolfimi og fitness.
Anna var líka í ýmsum danshópum hér á landi og sýndi m.a. á Broadway, í Hollywood, Casablanca, Tunglinu og stærri uppfærslum á Hótel Íslandi. Einnig kom hún reglulega fram í þættinum Á tali hjá Hemma Gunn.
18 ára flutti hún til London ásamt dansfélaga sínum og bjó þar í tæpt ár. Þar stunduðu þau nám ásamt því að taka þátt í danskeppnum. Frá London fóru þau til Hollands.
„Ég reyndi að fara í framhaldsnám samhliða flakki mínu um heiminn en ég fann fljótt út að það gekk ekki upp. Dansinn tók of mikinn tíma, kostaði líka mikið og maður þurfti oft að dvelja langdvölum erlendis.“

Fékk kvörtun yfir hressleika
Anna flutti til Svíþjóðar árið 1997 og starfaði í þrjú ár á líkamsræktarstöð. Hún tók einkaþjálfararéttindi og starfaði síðan eitt sumar í Þýskalandi. Eftir að hún flutti heim aftur tók hún að sér stöðu framkvæmdastjóra líkamsræktarstöðvar.
Hún minnist þess að í einum morgunleikfimitímanum fékk hún kvörtun yfir því hversu hress hún væri svona að morgni og gat hún ekki annað en brosað yfir því en Anna og systkini hennar eru þekkt fyrir mikla orku, jákvæðni og húmor.

Vildi ekki óþroskaðan dreng
Anna kynntist eiginmanni sínum, Elíasi Víðissyni framkvæmdastjóra og eiganda Múr og mál og Stoð pallaleigu, þegar hún var 29 ára. Þau eiga fimm börn, Elías Karl 15 ára, Óðinn 12 ára, Mána 10 ára, Mörtu Marín fædda andvana 2013 og Bjart 5 ára.
„Við hjónin kynntumst í gegnum Erlu systur Elíasar en við unnum saman. Erla sagðist vita um góðan mann handa mér en þegar ég frétti að hann væri þremur árum yngri þá leist mér ekkert á blikuna, vildi sko ekki vera með einhverjum óþroskuðum dreng,“ segir Anna og skellir upp úr.
„Ég samþykkti að hitta hann og sé ekki eftir því, ég kolféll fyrir þessum glaðværa og umhyggjusama orkubolta.“

Lifum enn á minningunum
„Fyrstu fimm árin okkar saman var nóg að gera, ég fór í sálfræðinám, við eignuðumst þrjú börn, giftum okkur og byggðum okkur einbýlishús. Það hefur aldrei verið lognmolla í kringum okkur svo manni leiðist aldrei þótt það hafi stundum tekið á að hafa svona mikið fyrir stafni.
Við fluttum í Mosfellsbæ 2007 og gætum ekki hugsað okkur betri stað til að búa á. Árið 2010 fluttum við til Danmerkur og bjuggum þar í eitt ár þar sem ég fór í nám í klínískri sálfræði. Elli minn var heimavinnandi húsfaðir á meðan og stóð sig vel, það var loksins allt í röð og reglu á heimilinu. Þetta ár var yndislegt í alla staði og við lifum enn á minningunum. Eftir að heim var komið fór ég í starfsnám á Reykjalundi sem var mjög lærdómsríkt.“

Ýmsir þættir voru ekki athugaðir
„Árið 2013 hóf ég störf á sálfræðistofu í Skeifunni. Ég var ófrísk á þessum tíma og við fjölskyldan biðum spennt eftir nýja fjölskyldumeðlimnum sem átti að fæðast þetta sama ár en von var á lítilli stúlku.
Í fæðingunni eða eftir 42 vikna meðgöngu kom í ljós að dóttir okkar var andvana. Þetta var mikið reiðarslag þar sem ég hafði oft beðið um ítarlegri athugun á meðgöngunni því ég var farin að léttast í lok hennar og eins voru ýmsir aðrir þættir ekki athugaðir.
Í krufningu kom í ljós að hún hefði látist 12-24 klukkustundum fyrir fæðinguna vegna vanstarfsemi fylgjunnar, en dóttir okkar var alveg heilbrigð.
Við kærðum ljósmóðurina til Landlæknis sem fékk áminningu um vanrækslu í starfi. Einnig voru nokkrir starfsferlar skerptir er varða umsjón með konum eldri en 40 ára.“

Náðum illa að stilla strengi okkar
„Þegar við vorum að reyna að vinna úr sorginni vegna dóttur okkar varð ég ólétt og var það mikið lán. Við hjónin vorum búin að eiga erfitt tímabil, náðum illa að stilla strengi okkar saman enda upplifðum við sorgina á gjörólíkan hátt. Sem betur fer fengum við aðstoð og gátum unnið vel úr því sem er ekki sjálfgefið því meirihluti para sem missa barn slíta samvistum.
Móðurhlutverkið er eitthvað sem mér hefur fundist svo verðmætt. Það er ekki sjálfgefið að eignast börn og því lít ég alltaf á okkur sem múltí milljónera að eiga fimm börn. Móðurhlutverkið er eitt fallegasta og besta hlutverk sem ég hef tekið að mér en jafnframt það erfiðasta. Það er krefjandi en um leið svo gefandi og gott.“

Leikur sér með ímyndunaraflið
Ég spyr Önnu út í sorgina. „Ég er ekki hrædd við sorgina, hún er fyrir mér ást og söknuður til þeirra sem ég elska eins og dóttur minnar og föður. Ég hugsa um sorgina eins og gest sem kemur í heimsókn. Ég finn á líkama mínum þegar hún kemur því ég verð orkulaus, döpur og á erfitt með samskipti en ég tek á móti henni með væntumþykju og kærleika.
Til að lifa betur með sorginni hef ég leikið mér með ímyndunaraflið. Ég hef ákveðið að ýmislegt í náttúrunni eins og vindurinn og sólargeislar séu kossar og kveðja frá dóttur minni. Ég hef fundið sterkt fyrir því að þegar sólin skín á mig þá ímynda ég mér að elskuleg dóttir mín sé að faðma mig eins og ungbörn gera, alveg upp við hálsakotið og ég get fundið hlýjuna. Svona stundir láta mér líða vel, þetta er mín leið til að halda áfram með lífið.“

Fleiri áföll dundu yfir
Síðustu sex ár hafa verið fjölskyldunni ansi erfið en fleiri áföll hafa dunið yfir. Faðir Önnu greindist með MND sjúkdóminn daginn fyrir jarðarför Mörtu Marínar. Hann lést árið 2015.
Annað skelfilegt slys varð innan fjölskyldunnar er ungur maður lést 2016 og svo greindist móðir Önnu með mergæxli árið 2017 og hefur tíminn síðan þá verið henni ansi erfiður en hún er þó á uppleið. Önnur erfið áföll hafa komið upp sem einnig hafa tekið sinn toll.
„Við höfum verið ótrúlega heppin með stuðningsnet,“ segir Anna. „Við höfum fengið mikla aðstoð frá fjölskyldum okkar, vinum, nágrönnum og skólaumhverfinu. Það er verðmætt að fá svona hjálp þegar maður missir alla getu til að sinna sér og öðrum eins og þegar dóttir okkar lést, fyrir það erum við óendanleg þakklát.“

Naut þess að miðla góðum ráðum
„Ég skellti mér í sérfræðinám í hugrænni atferlismeðferð sem var tveggja ára nám með starfi. Ég var með mikið af fyrirlestrum fyrir ýmsa aldurshópa og um ýmis málefni. Ég naut mín í vinnunni við að miðla góðum ráðum um vellíðan fólks og fór því hægt og rólega að vinna meira við það, sem gaf mér mikið.
Ég starfa nú sem sálfræðingur og hóptímaþjálfari hjá Heilsuborg en svo hef ég einnig verið að taka að mér heilsuferðir til Ungverjalands. Þar fer ég með hóp kvenna í vikuferð á heilsuhótel þar sem fram fer dagleg dagskrá.“

Hægara sagt en gert að vera heima
Árið 2017 lenti Anna á vegg, eins og sagt er, en hún var hætt að geta gengið vegna verkja. Hún var búin að finna fyrir streitueinkennum í þó nokkurn tíma en hafði hunsað þau.
Veikindi hennar stafa af áfallastreitu og krónískum verkjum en í ljós komu útbunganir í mjóbaki og hálsliðum sem valda taugaverkjum í útlimum. Hún ákvað að minnka starfshlutfall sitt niður í 50% en það var hægara sagt en gert. Þá fór hugur hennar á fullt og hún átti erfitt með að vera heima og hvílast. Það tók hana hálft ár að venjast nýjum aðstæðum en til þess notaði hún ýmsar leiðir.

Nýr dagur ber með sér nýja von
„Þegar ég horfi til baka yfir ævina þótt ég sé ekki háöldruð þá sé ég að ég hef verið virkilega heppin í lífinu. Ég hef verið lánsöm með heilsu mína, fjölskylduna, engin alvarleg áföll eða sjúkdómar og fyrir það get ég verið þakklát. Að fá að mæta erfiðum áföllum svona seint á ævinni þegar maður er kominn með meiri þroska til að takast á við krefjandi verkefni er lán í sjálfu sér.
Ég er nú í fullu starfi við að hlúa að líkamlegri og andlegri heilsu minni ásamt því að sinna heimili og börnum. Sú uppbygging heldur að sjálfsögðu áfram út ævina. Í gegnum veikindi mín og við að minnka vinnuna hef ég einnig fengið tækifæri til að endurskoða gildi mín og lífsviðhorf. Ég hef alltaf átt auðvelt með að vera jákvæð og bjartsýn og það hjálpar til í svona ferli. Ég hef alltaf notað hreyfingu til að vinna með líðan mína en nú þarf ég að draga úr henni og auka uppbyggingu á andlegu hliðinni.
Ég er búin að sættast við stöðu mína því ég finn að bataferlið er að virka þótt það sé á hraða snigilsins. Ég hef lært það af foreldrum mínum að mæta því sem upp á kemur í lífinu sem verkefni sem þurfi að takast á við og það hjálpar mér að hugsa þannig. Móðir mín kenndi mér að taka einn dag í einu og gera sitt besta miðað við aðstæður. Nýr dagur ber svo með sér nýja von.
Það sem hefur líka hjálpað mikið í gegnum þessi erfiðu verkefni síðastliðin ár eru börnin okkar, þau hjálpa okkur að vera þakklát með hversdagslega hluti í gegnum barnslega gleði þeirra í einfaldleikanum. Við erum lánsöm með drengina okkar, þeir eru hjálpsamir, umhyggjusamir og hafa verið ótrúlega duglegir í gegnum þessi síðustu ár þótt mikið hafi verið á þá lagt.“

Ætlar að njóta jólanna
„Í fyrsta sinn í sex ár hlakka ég til jólanna. Áður en við misstum dóttur okkar átti ég svo auðvelt með að gleðjast yfir jólunum og öllu sem þeim fylgdi. En síðustu ár hafa jólin verið erfiður tími þar sem söknuðurinn hefur tekið yfir. En maður lærir að lifa með þessari erfiðu reynslu, sýna sér skilning og þetta tekur allt sinn tíma.
Mér þætti vænt um að fá að nota tækifærið og óska öllum Mosfellingum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.“

Mosfellingurinn 19. desember 2019
ruth@mosfellingur.is