Eflum skólaþjónustuna í Mosfellsbæ
Hvernig er Mosfellsbær að standa sig á landsvísu við að veita nemendum, foreldrum og skólum þann stuðning sem þarf svo að almenn vellíðan og námsframvinda sé í hávegum höfð?
Þann 28. maí 2019 tók gildi ný reglugerð um skólaþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum nr. 444/2019. Þar er kveðið á að skólaþjónustan eigi að vera stuðningur við nemendur og foreldra í leik- og grunnskólum. Skólaþjónustu ber að veita fjölbreytta ráðgjöf og stuðning til foreldra og þeirra nemenda sem glíma við sálfræðilegan, þroskafræðilegan, félagsfæðilegan eða hreyfifræðilegan vanda. Oft birtist þessi vandi í formi virkni, félagslegri færni, hegðun, tilfinningavanda, samskipta- eða einbeitingarvanda svo eitthvað sé nefnt
Seinni liðurinn í reglugerðinni snýr að því að veita beri skólum og starfsmönnum þeirra stuðning og ráðgjöf eftir því sem við á í formi kennslufræðilegra leiðbeininga og aðstoðar.
Á skólaskrifstofunni í Mosfellsbæ starfar mjög öflugur hópur fagfólks hvert á sínu sviði en því miður of fáliðuð miðað við fólksfjölgun í bæjarfélaginu síðustu ár. Markvisst þarf að finna leiðir til að stytta greiningartímann, hafa greiðan aðgang að meðferðarúrræðum og fagaðilum svo hægt sé að vinna strax á þeim þáttum sem einstaklingurinn þarfnast hverju sinni. Æskilegast væri að hafa þjónustuna sem mest í nærumhverfi.
Svo að efla megi skólaþjónustuna enn frekar er mikilvægt að ráða sérhæfðan verkefnastjóra sem myndi skipuleggja og klára innleiðinguna sem byrjað var á við að tölvu- og tæknivæða leik- og grunnskólana í formi kennslu á hugbúnað og þeim möguleikum sem hægt er að nýta við kennslu.
Einnig þyrfti að ráða annan verkefnisstjóra sem myndi sjá um að efla lestur, fjölbreytta kennsluhætti, fjölbreyttara samskólaval á eldri stigum grunnskóla í Mosfellsbæ og vera stuðningur í að byggja upp og innleiða öflugt tengslanet fyrir atvinnutengt nám svo eitthvað sé nefnt. Við höfum því kjörið tækifæri til að gera enn betur í þessum málum í Mosfellsbæ.
Að auki má velta þeirri spurningu upp hvað er verið að gera fyrir afburðarnemendur? Er það nægjanlegt sem gert er?
Við þurfum fleira sérhæft fagfólk inn í skólaþjónustuna til að aðstoða nemendur og aðstandendur þeirra sem og að vera kennslufræðilegur stuðningur við skólana inn í langa framtíð.
Örlygur Þór Helgason
Sérkennari við Kvíslarskóla
Skipar 2. sæti á M-lista Miðflokksins í Mosfellsbæ