Hjálmurinn bjargaði miklu

Rúnar Óli var tvo sólarhringi inni á gjörgæslu.

Rúnar Óli Grétarsson, 15 ára Mosfellingur, lenti í alvarlegu reiðhjólaslysi þann 15. ágúst í Álafosskvosinni.
Rúnar Óli var á leið heim úr vinnu en hann hefur verið að vinna sem leiðbeinandi við skátanámskeið í sumar. Hann missir stjórn á hjólinu á mikilli ferð og stingst beint fram fyrir sig með alvarlegum afleiðingum.
„Sjúkrabíllinn var fljótur á staðinn og í fyrstu virtust meiðslin ekki eins alvarleg og síðar kom í ljós. En Rúnar Óli hlaut miklar innvortis blæðingar, rifið milta, úlnliðsbrot á annarri hendi og stóran og ljótan skurð á hinni hendinni auk þess að vera marinn og krambúleraður.
Hann var tvo sólarhringa á gjörgæslu og var í framhaldinu fluttur á Barnaspítalann þar sem hann er ennþá en vonast til að vera kominn heim fyrir næstu helgi,“ segir Eva Ósk Svendsen móðir Rúnars Óla.

Afleiðingar slyssins hefðu verið alvarlegri
Þau mæðgin vilja fyrst og fremst greina frá þessu slysi í forvarnaskyni því hjálmur Rúnars Óla bjargaði miklu. Rúnar Óli er virkur í björgunarsveitinni og vill því leggja mikla áherslu á forvarnir eins og að vera með hjálm á hjóli, alveg sama á hvað aldri einstaklingurinn er.
„Læknarnir á gjörgæslunni töluðu um að það væri ekki sjálfsagt að 15 ára unglingsdrengur væri með hjálm en að það væri alveg á hreinu að afleiðingar slyssins hefðu orðið meiri og alvarlegri ef hann hefði ekki verið með hjálminn.
Sem betur fer slapp hann við að fara í aðgerð vegna innvortis blæðinga en fram undan er langt og strang bataferli,“ segir Eva Ósk að lokum og vill koma á framfæri þakklæti fyrir stuðning til fjölskyldunnar.

Þakklát fyrir traustið

Regína Ásvaldsdóttir tók við sem bæjarstjóri í Mosfellsbæ 1. september 2022. Hún býr yfir víðtækri reynslu af stjórnun og rekstri á vettvangi sveitarstjórnarmála og hefur átt sæti í fjölmörgum stjórnum og starfshópum.

Regína segist þakklát fyrir það traust sem henni var sýnt með ráðningunni, fram undan séu stór verkefni, meðal annars í uppbyggingu og stefnumótun til framtíðar.

Regína fæddist í Reykjavík 30. júní 1960. Foreldrar hennar eru þau Erna María Jóhannsdóttir fv. þjónustufulltrúi hjá Sýslumanninum í Kópavogi og Ásvaldur Andrésson bifreiðasmiður en hann lést árið 2020.

Regína á tvær systur, Hönnu Sveinrúnu f. 1956 og Ragnhildi f. 1966.

 

Varði mörgum stundum í Birkihlíð

„Ég bjó fyrstu árin mín í Birkihlíð í Kópavogi með foreldrum mínum og eldri systur á meðan foreldrar mínir byggðu sér hús í Löngubrekku sem var skammt frá. Í Birkihlíð ráku afi minn og amma gróðrarstöð og þar varði ég mörgum stundum á mínum uppvaxtarárum.

Ég gekk í Kópavogsskóla og síðar Víghólaskóla, lærði að lesa fjögurra ára gömul og leiddist oft í skólanum fyrst árin því mér fannst ég ekki hafa nóg fyrir stafni, ég var frekar baldin sem barn og unglingur.

Ég vann alltaf á gróðrarstöðinni á vorin frá 10 ára aldri en seinni hluta sumars var ég í alls konar störfum, m.a. að passa börn í Neskaupstað, í sveit á Sómastöðum við Reyðarfjörð og síðar við afgreiðslustörf í Njarðarbakaríi og í mötuneytinu á Hrafnistu.“

 

Meistarapróf frá Skotlandi

„Eftir landspróf fór ég í Menntaskóla Kópavogs en á sumrin starfaði ég á hóteli í Balestrand í Sognfirði í Noregi. Eftir annan bekk tók ég ársfrí með vinkonum mínum og við fórum í langa Evrópuferð eftir sumarið í Balestrand. Við störfuðum á vínræktarbúgarði í Suður-Frakklandi og síðan í skíðabænum Geilo í Noregi. Ég kláraði svo stúdentsprófið árið 1981.“

Eftir útskrift úr menntaskóla fór Regína í nám til Noregs og lærði afbrotafræði og félagsráðgjöf. Hún bætti svo við sig diplóma námi í opinberri stjórnsýslu og eftir það fór hún til Skotlands í háskólann í Aberdeen þar sem hún tók meistarapróf í hagfræði með áherslu á breytingastjórnun og nýsköpun.

 

Í frábærum golfhópi

Regína er gift Birgi Pálssyni deildarstjóra hjá Íslenskri erfðagreiningu en þau kynntust árið 1992. Regína á tvær dætur frá fyrra hjónabandi, Ernu Maríu f. 1981 sem starfar sem flugmaður hjá Icelandair og Ýr f. 1984 sem er fatahönnuður. Birgir á eina dóttur,  Auði Kolbrá f. 1989, en hún starfar sem lögfræðingur hjá Kópavogsbæ.

„Ég hef brennandi áhuga á starfinu mínu og öllu því sem viðkemur rekstri Mosfellsbæjar og það tekur svolítið yfir núna,“ segir Regína aðspurð um áhugamálin. „Golf er aðaláhugamál okkar hjóna en Birgir stundar það betur en ég þótt mér finnist dásamlegt á vellinum þegar ég gef mér tíma. Við erum í frábærum golfhópi með vinum okkar og ferðumst mikið saman. Ég er að sjálfsögðu búin að skrá mig í Golfklúbb Mosfellsbæjar og finnst skemmtilegt að taka kvöldstund á Bakkakotsvellinum.

Við erum líka í gönguhópi á vegum Ferðafélagsins en mér finnst mjög gaman að klífa fell og fjöll og svo keyptum við okkur lítinn sumarbústað í landi Efstadals fyrir þremur árum og höfum verið að gera hann upp og það fer nú töluverður tími í það líka.“

 

Þakklát fyrir traustið

Regína hefur tekið að sér ýmis krefjandi störf í gegnum tíðina, hún starfaði sem félagsmálastjóri í Skagafirði, við velferðarþjónustu, stýrði þjónustumiðstöðinni Miðgarði í Grafarvogi, var skrifstofustjóri og staðgengill borgarstjórans í Reykjavík auk þess að sinna víðtækum stjórnkerfisbreytingum, bæjarstjóri á Akranesi og sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Auk stjórnunarstarfa hefur Regína verið stundakennari við Háskólann á Bifröst og við Háskóla Íslands.

„Ég hóf störf í Mosfellsbæ 1. september 2022 og er gríðarlega þakklát fyrir traustið sem mér var sýnt að fá að stýra þessum fallega bæ. Mosfellsbær hefur orð á sér fyrir að vera mjög fjölskylduvænn bær og það er mikilvægt að þær áherslur haldi sér.

„Ég er í einstaklega góðu sambandi við oddvitana þrjá sem mynduðu meirihlutann, þær Höllu Karen, Önnu Sigríði og Lovísu og við ræðum okkur í gegnum mál á hreinskiptinn hátt sem ég met mikils.

Ég er líka ánægð með samstarfið við alla bæjarstjórnina og hef lagt mig fram við að kynna stór mál sem eru í gangi á sérstökum vinnufundum með öllum fulltrúum hvort sem þeir eru í meiri- eða minnihluta. Auðvitað kastast stundum í kekki eins og oft vill verða í pólitík vegna einstakra mála en í langflestum tilvikum tekst að ná sátt um mikilvæg mál.“

 

Góður hópur starfsfólks

„Það er einstaklega góður hópur fólks sem starfar hjá Mosfellsbæ, hópur sem hefur mikinn metnað. Stofnanir bæjarins eru mjög vel reknar með sterkum stjórnendum en auðvitað getur ýmislegt komið upp á eins og óvæntar framkvæmdir með tilheyrandi kostnaði.

Rekstur Skálatúns hefur verið erfiður en það náðist að lenda því máli farsællega í samstarfi við mennta- og barnamálaráðuneytið og innviðaráðuneytið. Á landi Skálatúns munu rísa byggingar sem eru ætlaðar til þjónustu við börn og ungmenni og fjölskyldur þeirra og Mosfellsbær mun þjónusta fatlaða íbúa Skálatúns eins og aðra fatlaða einstaklinga sem búa í bænum.“

 

Mikil uppbygging

„Breytingar hafa verið gerðar á stjórnsýslu bæjarins sem ég vona að verði til góðs þar sem við leggjum meðal annars áherslu á stafrænar breytingar. Það sem við erum í vanda með eins og mörg sveitarfélög sem eru í örum vexti er skuldastaðan sem er erfið á þessum verðbólgutímum. Hér hefur verið mikið byggt upp, meðal annars nýr grunnskóli í Helgafellslandi og við vorum að skrifa undir samning við fyrirtækið Alefli ehf.  í Mosfellsbæ um byggingu nýs leikskóla. Lóðin er erfið og þetta verða því miður kostnaðarsamar framkvæmdir en við munum fá mjög vandaðan og góðan 150 barna leikskóla í hverfið.

Nýtt gervigras var sett á æfingavöllinn við Varmá og við erum að skoða frekari framkvæmdir á Varmársvæðinu. Þá er að hefjast uppbygging á viðbyggingu við hjúkrunarheimilið í bænum með 66 viðbótarrýmum.“

 

Í túninu heima um helgina

„Fjölmargt skemmtilegt er fram undan, menningarlífið blómstar og Hlégarður hefur fengið aukið hlutverk eftir að við réðum Hilmar Gunnarsson sem viðburðastjóra. Bæjarhátíðin Í túninu heima er svo á næsta leiti, hátíðin er sannkölluð fjölskylduhátíð sem stendur í þrjá daga og það ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi í fjölbreyttri dagskrá.

Við vorum að ráða fleira fólk inn í stjórnendateymið okkar og væntum mikils af þeim góða hópi. Það er því ekki hægt að segja annað en að framtíðin sé björt hér í Mosfellsbæ með áframhaldandi uppbyggingu í þágu bæjarbúa,” segir Regína og brosir þegar við kveðjumst.

 

Pop-up kaffihús í Lágafellslaug

Fimmtudaginn 24. ágúst opnar Kaffisæti pop-up kaffihús í Lágafellslaug. Eftir að hafa byrjað mjög seint að drekka kaffi hefur Andrés Andrésson hent sér út í djúpu laugina og meira til. Baristanámskeið í Flórens á Ítalíu, heimsókn í kaffiræktun á Gran Canaria og samtöl við fólk úr bransanum.
„Þetta eru ákveðin kaflaskil hjá mér eftir að hafa unnið skrifstofustarf síðustu 15 ár. Mig langaði að breyta til og prófa eitthvað allt annað. Það er mikil spenna í bland við hæfilegt magn af stressi fyrir þessu öllu.“

Ég elska góðan espresso
Hvernig byrjaði þetta allt saman?
„Ég á það til að byrja ný áhugamál af miklum móð en oft hverfur áhuginn á nokkrum vikum. Það gerðist hins vegar ekki með kaffið, og áður en ég vissi af var ég byrjaður að lesa doktorsverkefni um hvernig á að gera espresso. Ég elska góðan espresso.
„Síðasta vetur ákvað ég að best væri að fara til mekka espressogerðar og læra af meisturunum á Ítalíu og ég sé sko ekki eftir því. Það er miklu skemmtilegra að hitta fólk og læra af því heldur en að horfa endalaust á YouTube. Eftir þessa ferð var ekki aftur snúið.“

Getur aukið lífsgleðina
Hvernig er ítölsk kaffimenning miðað við íslenska?
„Fyrir það fyrsta þá er kaffi bara espresso. Ekkert sem heitir espresso. Magn af kaffi, og þar af leiðandi koffíni, er minna í hverjum bolla. Það leyfir manni að drekka fleiri kaffidrykki yfir daginn, sem er kostur fyrir kaffiþyrsta. Einnig er vinsælt að hittast í kaffi en það eru miklu styttri hittingar heldur en hér heima. Kannski bara 10 mín, rétt til að taka stöðuna á vinunum. Svo fleiri kaffibollar og fleiri samtöl, það getur bara aukið lífsgleðina.“

Gera eitthvað fyrir Mosfellinga
En af hverju Lágafellslaug?
„Ég vildi einfaldlega gera eitthvað skemmtilegt fyrir Mosfellinga. Mér datt Lágafellslaug í hug þar sem aðstaðan er til fyrirmyndar en mér fannst vanta að geta fengið sér gott kaffi. Ég ræddi við bæinn og allir tóku bara vel í þessa hugmynd.“
Kaffisæti verður með opið 10-14 frá fimmtudeginum 24. ágúst og fram á sunnudag. Svo verður opið á sama tíma fyrstu þrjár helgarnar í september (laugardag og sunnudag).

Kjúllinn klekst út

Ásgeir, Einar og Steindi.

„Okkur langaði fyrst og fremst að taka þátt í þróa og stækka bæjarhátíðina enn frekar,“ segir Steinþór Hróar Steinþórsson, betur þekktur sem Steindi Jr.
„Markmiðið er að bjóða upp á eitthvað nýtt á hátíðinni og vonandi byggja ofan á það á komandi árum,“ bæta Ásgeir Jónsson og Einar Gunnarsson við en þremenningarnir standa fyrir viðburðinum Kjúllanum sem fer fram föstudaginn 25. ágúst á bæjarhátíð Mosfellsbæjar, Í túninu heima.

Kjúllagarðurinn fram að brekkusöng
„Á Kjúllanum er eitthvað fyrir alla. Við opnum Kjúllagarðinn kl. 15.00 á föstudaginn og öll dagskrá miðast svo við setningarathöfnina sem bæjarbúar þekkja svo vel og brekkusönginn í Álafosskvos,“ segir Ásgeir en á dagskrá eru matarvagnar, bar og ýmis afþreying fyrir fullorðna og börn.
„Við verðum með geggjaða aðstöðu í garðinum og við viljum fá bæjarbúa í stuðið til okkar áður en haldið er í Kvosina.
Meistaraflokkarnir í handbolta henda í borgara, það koma matarvagnar frá Götubitanum, Kastalar verða með hoppukastala, teygjurólu, vatnabolta og veltibílinn verður á staðnum,“ segir Ásgeir og Steindi bætir við: „Þeir sem eru svo í algjöru stuði henda sér inn á Tix.is, kaupa miða og mæta svo í partí í Hlégarði eftir brekkuna.“

Gamla góða Mósó-partíið
Aðspurðir hvaða áskoranir fylgi svona verkefni hlæja þeir félagar. „Aðeins fleiri en komu upp í hugann þegar við vinirnir settumst niður yfir einum köldum snemma í sumar,“ segir Einar.
„Við vorum ákveðnir í að henda í alvöru partí og erum að henda upp geggjuðu hljóðkerfi, ljósum og öllum pakkanum sem þarf undir þetta line-up,“ segir Steindi en ásamt honum koma fram Auðunn Blöndal, Aron Can, Bríet og Sprite Zero Klan.
„Við viljum fá fólk á öllum aldri. Það hefur alltaf verið einn helsti kostur Mosó að hér þekkjast flestir og geta skemmt sér saman. Þetta hefur verið rauður þráður í skemmtanalífi okkar Mosfellinga um árabil,“ bætir Ásgeir við.

Kjúklingabærinn
En hvaðan kemur nafnið?
„Kjúllinn hefur loðað við okkur lengi enda handboltaliðin okkar árum saman verið studd dyggilega af bændum hér í bæ, frosnir kjúllar flogið inn á völlinn og fleira skemmtilegt. Okkur fannst það bara smellpassa,“ segja þremenningarnir og hlakka til helgarinnar.

Jógvan, Mugison, Greta Salóme ásamt Agnesi og Evu Björgu úr Miðnætti eru meðal fjölmargra Mosfellinga sem fram á hátíðinni.

Bæjarhátíð Mosfellsbæjar haldin um helgina

Jógvan, Mugison, Greta Salóme ásamt Agnesi og Evu Björgu úr Miðnætti eru meðal fjölmargra Mosfellinga sem fram á hátíðinni.

Jógvan, Mugison, Greta Salóme ásamt Agnesi og Evu Björgu úr Miðnætti eru meðal fjölmargra Mosfellinga sem fram á hátíðinni.   Mynd/RaggiÓla

Að vanda verður líf og fjör í Mosfellsbæ þegar bæjarhátíðin Í túninu heima fer fram helgina 24.-27. ágúst. Hátíðin heppnaðist gríðarlega vel í fyrra eftir tveggja ára hlé vegna heimsfaraldurs.
Íbúar, félagasamtök og fyrirtæki taka virkan þátt í hátíðinni og ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Þekktir liðir verða á sínum stað, svo sem flugvéla- og fornvélasýning á Tungubökkum, kjúklingafestival og Pallaball, en einnig opið hús á slökkvistöðinni við Skarhólabraut sem notið hefur mikilla vinsælda.

Setning og ullarpartý á föstudagskvöld
Dagskrá hátíðarinnar verður veglegri með hverju árinu er dagskráin farin að teygja sig langt fram í vikuna. Formleg setning fer þó fram á föstudeginum. Skrúðgöngur í hverfalitunum fjórum leggja af stað frá Miðbæjartorgi kl. 20:30 á föstudag með hestamannafélagið Hörð í broddi fylkingar. Þaðan liggur leiðin í Álafosskvos þar sem hátíðin er sett. Að því loknu verður Ullarpartý með brekkusöng og skemmtidagskrá fyrir alla fjölskylduna.
Í Álafosskvos fer fram markaður og skátafélagið Mosverjar skapar notalega kaffihúsastemningu.
Nýjung við hátíðina í ár er Kjúllinn, sem er tónlistarveisla í Hlégarði á föstudagskvöldið auk upphitunar fyrr um daginn.

Heilsueflandi dagskrárliðir
Mosfellsbær er heilsueflandi samfélag og því vel við hæfi að á dagskrá séu Fellahringurinn, fótboltamót og Tindahlaupið, en það er eitt vinsælasta utanvegahlaup landsins. Fjórar vegalengdir eru í boði, einn, þrír, fimm eða sjö tindar á fellunum umhverfis bæinn.

Mosfellingar bjóða heim
Mosfellingar taka vel á móti gestum og gangandi, skreyta hús og garða sína í hverfislitunum og bjóða heim.
Fjölbreytileg dagskrá er í görðum bæjarbúa og opnar vinnustofur víða.

Hápunktur á torginu
Stórtónleikar á Miðbæjartorgi eru hápunktur hátíðarinnar. Þar skemmta landsþekktar hljómsveitir ásamt heimamönnum. Kynnir verður Dóri DNA.
Frítt verður í Varmárlaug og á Gljúfrastein allan laugardaginn. Dagskrá hátíðarinnar má finna hér.

Í TÚNINU HEIMA – DAGSKRÁ 2023

Að vanda verður líf og fjör í Mosfellsbæ þegar bæjarhátíðin Í túninu heima fer fram helgina 24.-27. ágúst. Hátíðin heppnaðist gríðarlega vel í fyrra eftir tveggja ára hlé vegna heimsfaraldurs.
Íbúar, félagasamtök og fyrirtæki taka virkan þátt í hátíðinni og ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Þekktir liðir verða á sínum stað, svo sem flugvéla- og fornvélasýning á Tungubökkum, kjúklingafestival, Pallaball, brekkusöngur, tónleikar, opið hús á slökkvistöðinni, markaðir og heimboð svo eitthvað sé nefnt.

Smelltu hér til að skoða dagskrá bæjarhátíðarinnar (pdf)

 

Þriðju­dag­ur 22. ág­úst

 

13:00-16:00 Hannyrðir í Hlégarði
Opið hús fyrir alla sem hafa áhuga á að taka þátt í handavinnu og njóta samveru. Unnið að veflistaverki sem prýða mun Hlégarð og eru allir hvattir til að setja sitt spor í verkið.

 

17:00-20:00 Perl­að með Krafti
Kraft­ur kem­ur í Hlé­garð og perl­ar arm­bönd með Aft­ur­eld­ingu og Mos­fell­ing­um. Kraft­ur er stuðn­ings­félag fyr­ir ungt fólk sem greinst hef­ur með krabba­mein.

 

18:00 Prjóna­skreyt­ing­ar
Kven­félag Mos­fells­bæj­ar skreyt­ir asp­irn­ar við Háholt í miðbæ Mos­fells­bæj­ar með handverki. Íbúar geta tek­ið þátt og kom­ið með það sem þeir eru með á prjón­un­um.

 

Miðviku­dag­ur 23. ág­úst

 

15:00 Kynning fyrir eldri borgara
Kynningarfundur í Hlégarði um þá þjónustu sem stendur til boða í sveitarfélaginu. Þjónustuaðilar með kynningarbása og heitt á könnunni.

 

18:45-20:15 Ball fyrir 7. bekkinga
Í túninu heima ball í Hlégarði.DJ Swagla spilar. 1.000 kr. inn.

 

20:30-22:30 Unglingball í Hlégarði fyrir 8.-10. bekk
Í túninu heima hátíðarball á vegum félagsmiðstöðvarinnar Bólsins. DJ Ragga Hólm, Aron Can og leynigestur. 2.000 kr inn.

 

20:00 Tónveisla í kirkjunni
Rock Paper Sisters býður til tónveislu í Lágafellskirkju. Hammondleikari hljómsveitarinnar er enginn annar en fráfarandi organisti kirkjunnar, Þórður Sigurðarson. Aðrir meðlimir eru þeir Eyþór Ingi, Davíð Sigurgeirsson, Þorsteinn Árnason og Jón Björn Ríkarðsson. Ókeypis aðgangur.

 

Fimmtu­dag­ur 24. ágúst

 

ÍBÚAR SKREYTA HÚS OG GÖTUR Í HVERFISLITUM
GULUR Hlíðar, Höfðar, Tún og Mýrar
RAUÐUR Tangar, Holt og Miðbær
BLEIKUR Teigar, Krikar, Lönd, Ásar, Tungur og Mosfellsdalur
BLÁR Reykja- og Helgafellshverfi

 

10:00-14:00 Kaffisæti
Kaffisæti pop-up kaffihús opið í Lágafellslaug. Ekta ítalskt kaffi á boðstólum.

 

16:00-16:45 Sumarfjör 60+
Sumarfjör á frjálsíþróttavellinum að Varmá fyrir 60+ með Höllu Karen og Bertu.

 

17:00-18:00 Útifjör með hressum konum á Varmárvelli
Útifjör fyrir konur á öllum aldri á frjáls­íþróttavellinum að Varmá. Geggjuð æfing með Höllu Karen og Bertu.

 

17:00 Uppskeruhátíð sumarlesturs á bókasafninu
Bókasafnið kveður sumarlesturinn með stæl og fagnar góðu gengi duglegra lestrarhesta. Einar Aron töframaður mætir  í heimsókn með töfrasýningu.

 

17:00 Listamannaspjall í Listasalnum
Henrik Chadwick Hlynsson verður með listamannaspjall um sýningu sína Fjallaloft í Listasal Mosfellsbæjar.

 

17:30-19:00 Opið hús hjá Borðtennisfélagi Mosfellsbæjar
Nýstofnað Borðtennisfélag Mosfellsbæjar verður með opið hús í Lágafellsskóla. Fyrstu 20 í 1.-10. bekk sem mæta fá gefins spaða. Öll velkomin.

 

17:00-22:00 Sundlaugarkvöld
Húllumhæ og frítt inn í Lágafellslaug á fimmtudagskvöldið. Blaðrarinn gleður börnin kl. 18-20. DJ Baldur heldur uppi stuðinu. Leikhópurinn Lotta verður með atriði kl. 18:15 og 19:15. Aqua Zumba kl. 18:45 og 19:45. Splunkuný Wipeout-braut tekin í notkun, opin fyrir yngri krakka kl. 17-20 og fyrir þá eldri kl. 20-22. Ís í boði. 

 

19:00 Fellahringurinn – samhjól
Hjóladeild Aftureldingar stendur fyrir samhjóli þar sem hjólaður verður bæði litli Fellahringurinn sem er 15 km og stóri Fellahringurinn 30 km. Samhjólið hefst að Varmá og endar á smá veitingum í boði hjóladeildarinnar að Varmá. Útivera, samvera og gleði. Nánar á facebook.

 

19:00 Söguganga
Safnast verður saman í Álafosskvos, gengið niður með Varmá með Bjarka Bjarnasyni. Þema göngunnar verður íþróttalíf í og kringum Varmá, m.a. verður sagt frá dýfingum á Álafossi, tarsanleik í Brúarlandi og fyrsta Varmárvellinum sem var stundum lokaður vegna aurbleytu. Göngunni lýkur við Harðarból. Að venju tekur söngflokkurinn Stöllurnar lagið á vel völdum stöðum.

 

20:00 Bíla­klúbbur­inn Krúser
Bíla­klúbbur­inn Krúser safn­ast sam­an á bíla­plan­inu við Kjarna. Til­val­ið að kíkja á flott­ar dross­íur og klass­íska bíla frá lið­inni tíð. Fjöldi glæsi­vagna á svæð­inu ef veður leyf­ir og eru heima­menn hvatt­ir til að mæta.

 

20:00 Við eigum samleið – Hlégarði
Tónleikar með lögunum sem allir elska. Jógvan Hansen, Guðrún Gunnars og Sigga Beinteins flytja sígildar dægurperlur ásamt einvalaliði hljóðfæraleikara. Miðar á Tix.is

 

21:00 Hátíð­ar­bingó í Bankanum
Bingó full­orðna fólks­ins í Bankanum með stór­glæsi­leg­um vinn­ing­um að vanda. Bingóstjóri: Hilmar Mosfellingur. Hægt að tryggja sér spjöld á Bankinnbistro.is/boka.

 

Föstu­dag­ur 25. ág­úst

 

07:30 Mos­fells­bakarí
Baka­ríið í hátíð­ar­skapi alla helg­ina og býður gest­um og gang­andi upp á ferskt brauð og frábæra stemn­ingu. Bakk­elsi í hver­fa­lit­un­um og vöffl­ur til hátíð­ar­brigða.

 

10:00-14:00 Kaffisæti
Kaffisæti pop-up kaffihús opið í Lágafellslaug. Ekta ítalskt kaffi á boðstólum.

 

10:00-18:00 Út­varp Mos­fells­bær
Um­sjón: Ástrós Hind Rún­ars­dótt­ir og Tanja Rasmus­sen. FM 106,5 og í Spilaranum. Út­send­ing­ alla helgina.

 

10:00 og 11:00 Söngvasyrpa með Leikhópnum Lottu
Elsta árgangi leikskólanna í Mosfellsbæ er boðið á leiksýningu í bókasafninu. Leikhópurinn Lotta flytur söngvasyrpu sem er stútfull af sprelli, fjöri og söng. Dagskrá í samstarfi við leikskólana.

 

11:00-17:00 Hús­dýra­garður­inn
Geit­ur, kett­ling­ar, grís, kálf­ur, hæn­ur, kan­ín­ur, naggrís­ir og mörg önn­ur hús­dýr á Hraðastöðum í Mosfellsdal. Aðgang­ur: 1.100 kr. www.hradastadir.is

 

15:00-21:00 Kjúllagarðurinn við Hlégarð
Matur, drykkir og afþreying fyrir alla. Matarvagnar frá Götubitanum, hoppukastalar, vatnabolti og teygjuhopp frá Köstulum, Veltibíllinn og Handboltaborgarinn frá UMFA. Bjór, léttvín og kokteilar. Tilvalið stopp fyrir skrúðgöngu og brekkusöng. 

 

16:00-18:00 Opið í Þjón­ustu­stöð
Opið hús og kynning á starfsemi Þjón­ustu­stöðvar Mos­fells­bæj­ar að Völu­teig 15. Margt að skoða. Boðið upp á grill­aðar pyls­ur, kaffi og klein­ur.

 

17:00-20:00 Opið hús listamanna í Álafosskvos
Ólöf Björg Björnsdóttir myndlistarmaður og Þórir Gunnarsson Listapúki fagna listinni í Kvosinni með vinnustofusýningu að Álafossvegi 23, 3. hæð. Leiðsögn kl. 18. Velkomin og njótið lista, gleði og samveru.

 

17:00-19:00 Myndlistarsýning að Bæjarási 2
Myndlistarsýning í garðinum heima, Bæjarási 2. „Héðan og þaðan” blönduð verk frá myndlistarkonunni Hólmfríði Ólafsdóttur.

 

18:00 Námskeið í Lectio Divina – Biblíuleg íhugun
Námskeið í safnaðarheimili Lágafellssóknar, Þverholti 3, helgina 25.-27. ágúst á vegum Kyrrðarbænasamtakanna á Íslandi. Skráning og upplýsingar á: lagafellskirkja.is

 

18:30-20:00 Lifandi tónar á Gloríu
Lifandi ljúf tónlist og stemning á kaffihúsinu Gloríu áður en skrúðgangan leggur af stað. High Tea og happyhour alla helgina.

 

19:00-23:00 Kaffihús Mosverja
Skáta­fé­lag­ið Mosverj­ar verð­ur með kaffi­­hús í Skál­an­um í Ála­fosskvos. Rjúk­andi heit­ar vöffl­ur og kakó/kaffi ásamt góðgæti.

 

19:00-23:00 Súpu­veisla Frið­riks V í Ála­fosskvos
Mat­reiðslu­meist­ar­inn Friðrik V galdr­ar fram kraft­mikla kjötsúpu. All­ur ágóði fer til endurbóta á skáta­heim­ili Mosverja

 

19:30-23:00 Opin vinnustofa í Álafosshúsinu
Sigfríður Lárusdóttir og Lárus Þór Pálmason verða með opna vinnustofu að Álafossvegi 23, 4. hæð (lyfta á gafli hússins). Myndlist, olíu-, akríl- og vatnslitamyndir.

 

19:30-22:00 Úti­mark­að­ur í Ála­fosskvos
Mark­aðstjöld full af fjöl­breytt­um varn­ingi.

 

20:15 Íbú­ar safn­ast sam­an á Miðbæj­ar­torgi
Gul­ir, rauðir, bleik­ir og bláir.
All­ir hvatt­ir til að mæta í lopa­peysu.

 

20:30 Skrúð­göng­ur leggja af stað
Hesta­manna­félag­ið Hörður leiðir göng­una með vösk­um fák­um. Göngu­stjór­ar frá Leik­félagi Mos­fells­sveit­ar. Tufti Túnfótur, þriggja metra hátt tröll, tekur þátt í göngu.

 

21:00-22:30 Ullarpartý í Ála­fosskvos
Brekku­söng­ur og skemmti­dag­skrá. Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri Mosfellsbæjar set­ur hátíð­ina. Greta Salóme hitar upp brekkuna. Tónlistarkonan Gugusar tekur nokkur lög. Hilm­ar Gunnars og Gústi Linn stýra brekku­söng. Kynd­ill kveik­ir á blys­um.

 

22:00 Kjúllinn 2023 í Hlégarði
Tónlistarveisla í Hlégarði föstudagskvöldið 25. ágúst. Fram koma: Sprite Zero Klan, Aron Can, Bríet, Steindi & Auddi, Dj. Geiri Slææ. Húsið opnar 22.00 og standandi partí til 01.30. Miðasala á Tix.is

 

22:00-01:00 SZK og DJ Seðill í Bankanum
DJ Seðill og Sprite Zero Klan gera allt vitlaust í Bankanum.

 

Laug­ar­dag­ur 26. ág­úst

 

Frítt í Varmár­laug • Frítt á Gljúfra­stein

Tív­olí við Miðbæj­ar­torg um helg­ina. Aðgöngu­miðar seld­ir á staðn­um.

 

8:00-20:00 Golf­klúbb­urinn
Tveir fyr­ir einn af vall­ar­gjaldi á golf­vell­in­um í Bakka­koti í Mos­fells­dal um helgina.

 

9:00-17:00 Íþrótta­svæð­ið á Tungu­bökk­um
Fót­bolta­mót Aft­ur­eld­ing­ar og Weet­os, 6. og 7. flokk­ur karla og kvenna.

 

9:00-16:00 Tinda­hlaupið
Nátt­úru­hlaup sem hefst við Íþróttamið­stöð­ina að Varmá. Ræst verður í þrem­ur rás­hóp­um, 5 og 7 tind­ar kl. 9:00, 1 tind­ur og 3 tind­ar kl. 11:00. Fjór­ar vega­lengd­ir í boði, 7 tind­ar (38 km), 5 tind­ar (34 km), 3 tind­ar (19 km) og 1 tind­ur (12 km). Tinda­hlaup Mos­fells­bæj­ar er í boði Nettó.

 

10:00-14:00 Kaffisæti
Kaffisæti pop-up kaffihús opið í Lágafellslaug. Ekta ítalskt kaffi á boðstólum.

 

10:00-18:00 Út­varp Mos­fells­bær
Um­sjón: Ástrós Hind Rún­ars­dótt­ir og Tanja Rasmus­sen. FM 106,5 og í Spilaranum. Út­send­ing­ alla helgina.

 

10:00-12:00 Krakkahestar og kleinur á Blikastöðum
Á Blikastöðum, við gömlu útihúsin, verður boðið upp á Krakkahesta og kleinur.

Viðburðurinn hentar vel fyrir yngstu kynslóðina en teymt er undir krökkunum og boðið upp á hressingu og kleinur.

 

10:00-17:00 Frítt á Gljúfra­stein
Gljúfra­steinn – hús skálds­ins opn­ar dyrn­ar að safn­inu upp á gátt og verður frítt inn í til­efni bæj­ar­hátíð­ar Mos­fells­bæj­ar, Í tún­inu heima. Gljúfra­steinn var heim­ili og vinnu­staður Hall­dórs Lax­ness og fjöl­skyldu hans um hálfr­ar ald­ar skeið.

 

10:00-16:00 Sumarhátíð Miðnættis í Bæjarleikhúsinu
Tjaldið, Þorri og Þura, brúðusmiðja, veitingasala, andlitsmálning o.fl. Ókeypis inn, miðar fyrir atriði á sal fást í miðasölu Bæjarleikhússins 30 mínútum fyrir hvert atriði. Sjá dagskrá: www.midnaetti.com

 

10:00-17:00 grænmetismarkaður
Græn­meti frá Mos­skóg­um, sil­ung­ur frá Heiðar­bæ, rós­ir frá Dals­garði og önn­ur ís­lensk holl­usta á boðstól­um. Síðasti markaður sumarsins í Dalnum.

 

11:00-17:00 Hús­dýra­garður­inn
Geit­ur, kett­ling­ar, grís, kálf­ur, hæn­ur, kan­ín­ur, naggrís­ir og mörg önn­ur hús­dýr á Hraðastöðum í Mosfellsdal. Aðgang­ur: 1.100 kr. www.hradastadir.is

 

11:00-16:00 Markaðstorg
Ljósmyndastofan Myndó, hannyrðabúðin Sigurbjörg og Folda Bassa hafa opið fyrir gesti og gangandi í Þverholti. Einnig verða konur frá Úkraínu búsettar í Mosfellsbæ að gefa smakk af þjóðarsúpunni þeirra kl. 13–15 í sal Samfylkingarinnar. Fullt af frábærum tilboðum, markaðstjöld full af fjölbreyttum varningi og skottmarkaður.

 

11:00-17:00 Kaffihús Mosverja
Skáta­fé­lag­ið Mosverj­ar verð­ur með kaffi­­hús í Skál­an­um í Ála­fosskvos. Rjúk­andi heit­ar vöffl­ur og kakó/kaffi ásamt góðgæti.

 

11:00-15:00 Leikja­vagn UMFÍ á Stekkjarflöt
Afturelding opnar leikjavagninn fyrir káta krakka. Fót­bolta­tenn­is, ringó, krolf, boccia, mega jenga, spike ball, fris­bí, kubb, leik­ir, sprell, tónlist og margt fleira.

 

11:30-16:00 Súpu­veisla Friðriks V í Ála­fosskvos
Mat­reiðslu­meist­ar­inn Friðrik V galdr­ar fram kraft­mikla kjötsúpu. All­ur ágóði fer til endurbóta á skáta­heim­ili Mosverja.

 

12:00 Barnaskemmtun við Hlégarð – Ævintýrið
Leiksýningin Ævintýrið – frábær skemmtun fyrir börn og fullorðna. Fjallar um Jónatan og Dreka. Þeir vinirnir bregða sér í alls kyns leiki og sjá börnin hvernig hugarheimur þeirra lifnar við á sviðinu. Boðskapur verksins er um mikilvægi vináttu og virðingu fyrir náunganum. Frír aðgangur á Hlégarðstúnið.

 

12:00-16:00 Opin vinnustofa í Álafosshúsinu
Sigfríður Lárusdóttir og Lárus Þór Pálmason verða með opna vinnustofu að Álafossvegi 23, 4. hæð (lyfta á gafli hússins). Myndlist, olíu-, akríl- og vatnslitamyndir.

 

12:00-20:00 Opið hús listamanna í Álafosskvos
Ólöf Björg Björnsdóttir myndlistarmaður og Þórir Gunnarsson Listapúki fagna listinni í Kvosinni með vinnustofusýningu að Álafossvegi 23, 3. hæð. Leiðsögn kl. 14 og 18. Verið hjartanlega velkomin og njótið lista, gleði og samveru.

 

12:00-17:00 Wings and Wheels – Tungu­bakka­flug­völl­ur
Gaml­ar flug­vél­ar, drátt­ar­vél­ar úr Mos­fells­bæ, mótor­hjól, forn­bíl­ar og flug­sýn­ing. Heitt á könn­unni fyr­ir gesti og kara­mellukast fyr­ir káta krakka kl. 16:30.

 

12:00 Hópakst­ur um Mos­fells­bæ
Fergu­sonfélag­ið stend­ur fyr­ir hópakstri drátt­ar­véla og forn­bíla. Lagt af stað frá Tungu­bakka­flug­velli og keyrt um bæinn.

 

12:00-17:00 KARLAR Í SKÚRUM – HANDVERKSSÝNING
Opið hús að Skálahlíð 7A, Litlahlíð, á svæði Skálatúns. Margs konar verk til sýnis og karlar að störfum. Útskurður, tálgun, rennismíði, módelsmíði, fluguhnýtingar o.fl. Komið og fræðist um starfsemina.
Kaffi og meðlæti.

 

12:00-16:00 Úti­mark­aður í Ála­fosskvos
Mark­aðstjöld full af fjöl­breytt­um varn­ingi og ýms­ar uppákom­ur á sviði.
12:00 Varmárkórinn
13:00 Djasskrakkar
14:00 Dúettinn Gleym mér ei
14:30 Daniel Moss
15:00 Tufti Túnfótur á ferðinni
15:30 Hljómsveitin Slysh

 

12:30 Grenibyggð 36 – Mosfellingar bjóða heim
Jokka og Sjonni verða með örtónleika í garðinum í Grenibyggð 36. Svo tekur kvennakórinn Stöllur við og flytur nokkur lög kl. 13.

 

13:00-16:00 Klifurveggur við skátaheimilið
Sigraðu vegginn og láttu þig síga rólega niður. Átta metra hár veggurinn er áskorun fyrir börn á öllum aldri.

 

13:00-15:00 Kynnist Úkraínu
Opið hús í Þverholti 3 þar sem gestir geta kynnst Úkraínu og þeirra menningu. Úkraínsk stemning og smakk af þjóðarsúpu þeirra í boði fyrir gesti.

 

13:00 Afturelding – Leiknir R. á Malbikstöðinni að Varmá
Meistaraflokkur karla í knattspyrnu spilar gegn Leikni R. að Varmá. Afturelding er í mikilli toppbaráttu í Lengju-deildinni um þessar mundir. 

 

13:00-17:00 Myndlistarsýning að Bæjarási 2
Myndlistarsýning í garðinum heima, Bæjarási 2. „Héðan og þaðan” blönduð verk frá myndlistarkonunni Hólmfríði Ólafsdóttur.

 

13:00 Stöllurnar bjóða heim – Grenibyggð 36
Tónleikar í garðinum. Kvennakórinn Stöllurnar býður upp á úrval íslenskra og erlendra laga undir stjórn Heiðu Árnadóttur kòrstjóra.

 

13:00- 16:00 Opin vinnustofa Lágholti 17
Heiða María er 18 ára listakona sem er ein af þeim sem fékk styrk sem íþrótta- og tómstundanefnd veitti til ungra og efnilegra ungmenna. Hún ætlar að sýna og selja þau verk sem hún hefur unnið að í sumar ásamt eldri verkum.

 

14:00-16:00 Umhyggjudagur í Lágafellslaug
Frítt í Lágafellslaug kl. 14-16, gefins sundpokar fyrir börnin meðan birgðir endast.

 

14:00-16:00 Kjúk­linga­festi­val
Stærstu kjúk­linga- og mat­væla­fram­leið­end­ur lands­ins kynna af­urð­ir sín­ar, selja og gefa smakk við íþróttamið­stöð­ina að Varmá. Mat­ur og skemmt­un fyr­ir alla fjöl­skyld­una. Ýmis skemmti­at­riði, tónlistar­atriði, Greip­ur Hjalta­son með uppistand, Kristján og Elsa úr Frozen verða á röltinu.

 

14:00-16:00 Suðræn veisla á Gloríu
Gloría við Bjarkarholt býður gestum og gangandi upp á paellu beint af pönnunni. Happy Hour alla helgina.

 

14:00 Akurholt 21 – Mosfellingar bjóða heim
Stormsveitin ásamt Arnóri Sigurðarsyni, Þóri Úlfarssyni og Jens Hanssyni. Efnisskráin er bland af lögum sem Stormsveitin hefur sungið síðustu 12 ár auk laga af plötunni Fótspor tímans.

 

14:00-17:00 Stekkj­ar­flöt
Frítt fyr­ir káta krakka í hoppu­kastala og auðvit­að ærslabelg.

 

15:00 Ástu-Sólliljugata 9 – Mosfellingar bjóða heim
Söngkonan og fiðluleikarinn Greta Salóme býður heim til sín í 30 mínútna tónleika.Eitthvað fyrir alla á boðstólum og grillaðar pylsur. Með henni leikur gítarleikarinn Gunnar Hilmarsson. Opið hús kl. 14:45-16.

 

15:00 Álm­holt 10 – Mos­fell­ing­ar bjóða heim
Hrönn og Davíð bjóða að venju upp á glæsilega óperutónleika. Eva Þyri Hilmarsdóttir píanisti leiðir hóp ungra óperusöngvara. Sérstakir gestir verða Bryndís Guðjónsdóttir sópran og Kristín Mäntylä mezzosópran. Svo verða Davíð, Stefán og Helgi Hannesar með fasta liði eins og vejulega. Kaffisala til góðgerðarmála.

 

15:00 Reykjabyggð 33 – Mosfellingar bjóða heim
Íris Hólm og Ingibjörg Hólm syngja við undirleik Sveins Pálssonar sem leikur á gítar, Davíðs Atla Jones sem leikur á bassa og Þóris Hólm sem leikur á slagverk

 

15:00-16:00 Hesta­fjör
Teymt und­ir börn­um á Stekkj­ar­flöt­inni í boði Hesta­mennt­ar.

 

15:30 Brekkutangi 24 – Mosfellingar bjóða heim
Mosfellingurinn Hlynur Sævarsson og Kjalar Kollmar sameina krafta sína í dúett og halda heimatónleika í Brekkutanga 24. Þeir leika sígild íslensk lög ásamt erlendum djass útsett fyrir bassa og söng.

 

16:15 Brekkutangi 24 – Mosfellingar bjóða heim
Gleðisveitin Látún spilar frumsamið balkan-ska-fönk í garðinum. Fyrir utan Mosfellinginn Sævar Garðarsson sem spilar á trompet, eru Þorkell Harðarson á klarinett/altósax, Hallur Ingólfsson á trommur, Albert Sölvi Óskarsson á bariton/alto-sax, Sólveig Morávek á tenórsax og Þórdís Claessen á rafbassa.

 

16:30 Kara­mellukast
Karamellukast á Tungu­bökk­um.

 

17:00 Kvíslartunga 98 – Mosfellingar bjóða heim
Karlakórinn Esja kemur fram á heimatónleikum í Kvíslartungu. Léttur og hefðbundinn kór með óhefðbundnu ívafi. 

 

17:00-21:00 Götugrill
Íbúar í Mos­fells­bæ halda götugrill í vel skreytt­um göt­um bæj­ar­ins.

 

21:00-23:00 Stór­tón­leik­ar á Mið­bæj­ar­torgi
Skemmt­un fyr­ir alla fjöl­skyld­una þar sem Mos­fells­bær býður upp á stór­tón­leika á Mið­bæj­ar­torg­inu. Fram koma: Sigga Ózk, Mugison, Páll Rósinkranz úr Jet Black Joe, Sprite Zero Klan, Diljá Pétursdóttir og Páll Óskar. Kynn­ir verður Dóri DNA. Björgunarsveitin Kyndill skýtur upp flugeldum af Lágafelli skömmu eftir að tónleikum lýkur.

 

22:00-01:00 Bryndís í Bankanum
Leik- og söngkonan Bryndís Ásmundsdóttir syngur sín uppáhaldslög. Með henni verður Franz Gunnarsson á gítar. Frítt inn.

 

23:30-04:00 Stórd­ans­leik­ur
Páll Ósk­ar mæt­ir í íþrótta­hús­ið að Varmá og heldur hátíðarball með Aftureldingu. Miðaverð á Palla­ball 4.500 kr. í for­sölu og 5.500 kr. við inn­gang. For­sala í íþrótta­hús­inu að Varmá (20 ára ald­urstak­mark).

 

Sunnu­dag­ur 27. ág­úst

 

8:00-20:00 Golf­klúbb­urinn
Tveir fyr­ir einn af vall­ar­gjaldi á golf­vell­in­um í Bakka­koti í Mos­fells­dal um helgina.

 

9:00-17:00 Íþrótta­svæð­ið á Tungu­bökk­um
Fót­bolta­mót Aft­ur­eld­ing­ar og Weet­os, 6. og 7. flokk­ur karla og kvenna.

 

10:00-14:00 Kaffisæti
Kaffisæti pop-up kaffihús opið í Lágafellslaug. Ekta ítalskt kaffi á boðstólum. Opið verður áfram næstu þrjár helgar.

 

10:00-18:00 Út­varp Mos­fells­bær
Um­sjón: Ástrós Hind Rún­ars­dótt­ir og Tanja Rasmus­sen. FM 106,5 og í Spilaranum. Út­send­ing­ alla helgina.

 

11:00-17:00 Hús­dýra­garð­ur­inn
Geit­ur, kett­ling­ar, grís, kálf­ur, hæn­ur, kan­ín­ur, naggrís­ir og mörg önn­ur hús­dýr á Hraðastöðum í Mosfellsdal. Aðgang­ur: 1.100 kr. www.hradastadir.is

 

12:00-17:00 KARLAR Í SKÚRUM MOSFELLSBÆ – HANDVERKSSÝNING
Opið hús að Skálahlíð 7A, Litlahlíð, á svæði Skálatúns. Margs konar verk til sýnis. Útskurður, tálgun, rennismíði, módelsmíði, fluguhnýtingar o.fl. Komið og fræðist um starfsemina. Kaffi og meðlæti.

 

14:00 Hátíð­ar­dag­skrá í Hlégarði

– Um­hverf­is­nefnd veit­ir um­hverfis­við­ur­kenn­ing­ar Mos­fells­bæj­ar 2023. Einnig eru veittar viðurkenningar fyrir tré ársins og plokkara ársins.
– Mos­fells­bær heiðr­ar starfs­menn sem eiga 25 ára starfsaf­mæli.
– Út­nefn­ing bæj­arlist­a­manns Mos­fells­­bæj­ar 2023.
– Krakkar úr Helgafellsskóla taka lagið.
– Óvænt tónlistaratriði.
– Heitt á könn­unni og öll vel­kom­in.

 

14:00-16:00 Opið hús á slökkvistöðinni
Slökkvistöðin við Skarhólabraut verður til sýnis fyrir hátíðargesti. Gestum býðst að skoða bíla, tæki og búnað slökkviliðsins í bílasal. Öll velkomin.

 

14:00-17:00 Myndlistarsýning að Bæjarási 2
Myndlistarsýning í garðinum heima, Bæjar­ási 2. „Héðan og þaðan” blönduð verk frá myndlistarkonunni Hólmfríði Ólafsdóttur.

 

16:00 Stofu­tón­leik­ar
Á Gljúfrasteini koma fram Kolbeinn Ketilsson tenór og Matthildur Anna Gísladóttir píanóleikari. Síðustu stofutónleikar sumarsins. Tónleikarnir hefjast kl. 16 í stofunni, aðgangseyrir er 3.500 kr.

 

17:00 Mosfellingar bjóða heim – Túnfótur
Blúshljómsveit Þorkels Jóelssonar og félagar halda tónleika á garðpallinum í Túnfæti í Mosfellsdal. Verið velkomin. 

 

18:00 Kyrrðarbæn
Biblíuleg íhugun í Mosfellskirkju og ganga í nánasta umhverfi. Bylgja Dís Gunnarsdóttir og sr. Henning Emil Magnússon leiða stundina. Hressing í kirkjunni

 

20:00 Kvöldmessa
Lágstemmd stund í Mosfellskirkju með mikla áherslu á íhugun, iðkun og söng. Góð leið til að undirbúa sig fyrir komandi viku. Þórður Sigurðarson, organisti, leiðir tónlistina. Sr. Henning Emil þjónar.

Tilhlökkun

Ég las viðtal við unga konu í síðustu viku. Hún er á leiðinni til Ungverjalands með eiginmanni sínum og börnum, en þar ætla þau að búa næstu árin. Hún sagði í viðtalinu frá ástæðum þess að þau væru að flytja og hvernig þau hefðu undirbúið sig fyrir þetta spennandi stökk. Mér finnst alltaf gaman að lesa um fjölskyldur sem láta vaða, þora að kýla á draumana og framkvæma þá. Láta ekki mögulegar hindranir standa í veginum, heldur finna leiðir til þess að breyta hindrunum í verkefni sem hægt er að leysa. Það sem drífur þessa ungu konu áfram í lífinu er tilhlökkunin – að hafa eitthvað að hlakka til. Eitthvað spennandi, áskorun, eitthvað sem brýtur upp rútínuna.

Eitt þarf ekki að útiloka annað. Tilhlökkun fer vel saman með því að njóta dagsins, vera þakklátur fyrir það sem maður hefur og gera það besta úr hverjum degi. Tilhlökkunin getur einmitt verið sterkur hvati til þess að njóta hversdagsins betur. Ég hlakka til að fara í þrautahlaup með frábæru fólki eftir nokkrar vikur, það hvetur mig til að njóta þess að fara á fell og fjöll og gera eitthvað daglega til þess að auka líkurnar á því að þrautahlaupið sjálft verði skemmtilegt og gefandi.

Bæjarhátíðin okkar, Í túninu heima, er helgi sem margir hlakka til, enda fjöldi viðburða í boði fyrir unga sem aldna. Eitt af því besta við hátíðina er hvað margir taka þátt í að gera hana skemmtilega, það er pláss fyrir alla og ótal tækifæri til þess að búa til viðburð eða vera með í þeim viðburðum sem eru í gangi.

Tilhlökkun snýst líka um daginn í dag og daginn á morgun. Ég hlakka þannig alltaf til þess að vakna á morgnana, hella upp á kaffi og fara í gegnum morgunrútínuna mína – það er mikilvægt að byrja daginn vel.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 22. ágúst 2023

 

Vínbóndinn býður upp á lífrænt frá Ítalíu

Mosfellingurinn Arnar Bjarnason hefur síðastliðin sjö ár rekið vefverslunina Vínbóndinn.is sem er lífræn vefverslun bæði með mat og vín, allt gæðavörur frá Ítalíu.
Arnar hefur yfir 20 ára reynslu í að flytja inn vín og mat og stofnaði og rak meðal annars verslunina Frú Laugu um tíma.
„Ég er eingöngu að flytja inn lífrænar matvörur og svokölluð náttúruvín og eiginlega allt frá Ítalíu,“ segir Arnar sem er tónlistarmenntaður og hefur starfað sem tónlistarkennari meðfram rekstrinum.

Eingöngu með lífrænar vörur
Vínbóndinn býður upp á fjölbreytt úrval af lífrænum matvörum svo sem ólífuolíur, tómatafurðir, pasta, ávaxtasafa, blandaða matarkassa og margt fleira, beint frá bónda á Ítalíu.
„Ég hef sérvalið þá bændur sem ég versla við, er búinn að heimsækja þá og á í mjög góðum samskiptum við þá. Margar af vörunum sem við bjóðum upp á eru með allar bestu vottanir sem hægt er að fá í lífrænni ræktun. Það má segja að viðskiptavinir okkar sem byrja að versla við okkur panta aftur og aftur. Við erum með fría heimsendingu á höfuðborgarsvæðinu ef pöntun fer yfir 12.000 kr.“

Náttúruvín eru alltaf að verða vinsælli
Vínbóndinn flytur inn fjölda vína sem hægt er að kaupa í völdum verslunum Vínbúðarinnar og enn fleiri vín er hægt að sérpanta og fá send í hvaða vínbúð sem er.
„Náttúruvín eru lífræn en það má segja að það sé gengið skrefinu lengra. Náttúruvín eru hrein afurð hreins landbúnaðar, óspilltur vínsafi án aukaefna, best fyrir mann og náttúru. Við erum með rauðvín, hvítvín, rósavín og freyðandi vín, svo erum við líka með svokölluð gulvín sem eru að verða mjög vinsæl. Þetta er eiginlega hvítvín þar sem berin eru notuð með hýðinu og gefur þeim svokallað tannin og líkjast í raun meira rauðvíni á bragðið,“ segir Arnar en það kostar ekkert aukalega að gera sérpantanir og lágmarksmagn er ekki nauðsynlegt.

Vinsælar vörur í fjáraflanir
Margir eru að standa í fjáröflunum þessa dagana og býður Vínbóndinn upp á sérhannaða pakka með ítölskum gæðamatvörum. „Það er alltaf að verða vinsælla að bjóða matarpakka frá okkur í fjáraflanir, það er nýjung á þessum fjáraflanamarkaði og margir fegnir að fá gæðamatvöru á góðu verði.
Við erum með nokkra staðlaða pakka með t.d. ólífuolíu, pasta, pastasósum, pestói og ólífum, svo er alltaf hægt að útbúa eftir óskum hvers og eins. Við bjóðum líka upp á kaffi, súkkulaði, hunang og sultur, þannig að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi,“ segir Arnar að lokum, en allar upplýsingar eru á vinbondinn.is og hvetur hann Mosfellinga til að fylgja Vínbóndanum á samfélagsmiðlum.

Snemma farinn að huga að viðskiptum

Daníel Már Einarsson var ungur að árum er hann fór að hafa áhuga á viðskiptum. Hann hefur komið að ýmiss konar rekstri í gegnum tíðina en í dag rekur hann heildsöluna Esjaspirits sem selur áfengi og hágæða matvöru frá Andalúsíu á Spáni.
Daníel segist leggja áherslu á gæði og traust vörumerki og að vörulína þeirra sé ört stækkandi, hann sé því ekkert nema spenntur fyrir komandi framtíð.

Daníel er fæddur í Reykjavík 11. febrúar 1976. Foreldrar hans eru Einar Magnús Nikulásson bifvélavirkjameistari og Herdís Jóhannsdóttir fóstra, Einar lést árið 2019.
Daníel á tvo bræður, Nikulás f. 1973 og Atla Jóhann f. 1986.

Tímarnir voru öðruvísi þá
„Mínar fyrstu æskuminningar eru úr Barrholtinu hér í Mosó en þar bjó ég frá þriggja til sex ára aldurs. Foreldrar mínir keyptu fokhelt hús sem var nú hálfpartinn enn fokhelt þegar við fluttum í það, tímarnir voru bara öðruvísi þá. Það voru malargötur og við krakkarnir lékum okkur mikið úti.
Við fluttum svo til Reykjavíkur og þar bjó ég þangað til að ég flutti að heiman en nú er ég fluttur aftur hingað í sveitina.“

Maður hitti alls kyns fólk
„Þegar maður hugsar til baka til æskuáranna þá rifjast nú ýmislegt upp. Ég man þegar ég fékk gat á hausinn og það þurfti að labba með mig upp á Reykjalund frá Barrholtinu því heilsugæslan var staðsett þar, bílar voru ekki á hverju strái á þessum tíma.
Eftir að við fluttum til Reykjavíkur þá bárum við bræðurnir út Nútímann í hverfinu okkar. Ég man hvað það var mikil vinna að rukka inn áskriftina um hver mánaðamót. Maður hitti alls kyns fólk við þau störf og oft þurftum við að koma mörgum sinnum til þeirra sem gátu ekki borgað á réttum tíma. Rukkunaraðferðin er töluvert auðveldari í dag.“

Seldi með ágætis gróða
„Ég gekk í 6 ára bekk í Varmárskóla og þótt ég hafi verið stutt í Mosó þá kannaðist ég við marga eftir að ég flutti aftur í bæinn. Ég fór svo í Æfingadeildina en það var hverfisskólinn minn eftir að við fluttum til höfuðborgarinnar. Ég var nú kannski ekki uppáhald kennarana, það verður að viðurkennast, og ég hefði líklegast fengið einhverjar greiningar ef út í það hefði verið farið.
Ég byrjaði snemma að vinna og á enn fyrsta launaseðilinn minn, hann er frá því ég var 12 ára en þá starfaði ég hjá Hagkaup, var kerrustrákur og í áfyllingum. Ég færði mig svo yfir í Miklagarð þar sem ég vann í nokkur ár á sumrin og með skóla.
Þegar ég var 10 ára þá fór ég stundum í lakkrísgerð, keypti kílópoka og skipti í tvennt og seldi með ágætis gróða, svo ég var ansi snemma farinn að hafa áhuga á viðskiptum sem hafa fylgt mér æ síðan,“ segir Daníel Már og brosir.

Fluttu til Ísafjarðar
Eftir útskrift úr gagnfræðaskóla hóf Daníel störf hjá Verslunarmannafélagi Reykjavíkur en þar sá hann um viðhald á orlofshúsum og um tjaldvagnaleiguna á sumrin. Starfaði svo hjá Húsasmiðjunni um tíma en um tvítugt hóf hann störf hjá Ölgerðinni.
„Ég var ráðinn sem svæðisstjóri fyrirtækisins á Vestfjörðum með aðsetur á Ísafirði. Við fjölskyldan fluttum því þangað en þá vorum við bara tvö með lítið ungbarn.
Við bjuggum á Ísafirði í tvö ár og litum á þetta sem pínu ævintýri. Góð reynsla að hafa búið úti á landi sem við sjáum alls ekkert eftir. Ég var í björgunarsveitinni og þegar allt var ófært þá þurftum við að ferðast um á snjósleða sem kom nú oft fyrir á þessum árum.“

Erum dugleg að ferðast
Daníel er giftur Sædísi Jónasdóttur deildarstjóra hjá Samgöngustofu. Þau kynntust ung og eiga þrjá syni, Einar Björn f. 2000, Jónas Inga f. 2008 og Sigurð Helga f. 2012.
„Við vorum frumbyggjar í Krikahverfinu en þar byggðum við okkur hús árið 2007 og búum þar enn. Sædís mín er uppalin í Mosfellsbæ og vildi hvergi annars staðar búa. Það þurfti nú ekkert að sannfæra mig mikið um að koma aftur hingað upp eftir,“ segir Daníel og brosir.
„Við fjölskyldan höfum verið dugleg að ferðast, förum mikið út á land og til Spánar en þar eigum við íbúð, okkur finnst líka gaman að skoða nýja staði.“

Góðar reiðleiðir í Mosó
„Við höfum stundað hestamennsku lengi og erum með hestana okkar í hestamannafélaginu Herði sem er frábært félag, framúrskarandi aðstaða og svo eru svo góðar reiðleiðir hér í Mosó.
Það er ekkert eins skemmtilegt og að fara í hestaferðir í góðra vina hópi, ég er svo líka í félagi sem heitir Áttavilltir en við erum nokkrir félagar úr Herði sem ríðum út hálfsmánaðarlega og borðum svo saman á eftir, alltaf líf og fjör.
Í gegnum tíðina hef ég líka alltaf átt fjórhjól eða einhver mótorsporttæki, ég er bara ekki rólegur nema eiga eitt slíkt í bílskúrnum, svo hef ég aðeins verið í því að flytja inn Buggy bíla.“

Stoltir með gullverðlaunin
Eftir árin hjá Ölgerðinni á Ísafirði fór Daní­el Már út í sjálfstæðan rekstur, rak kaffihús á Laugavegi í smá tíma og var með fyrirtæki sem sá um umsjón með orlofsíbúðum fyrir verkalýðsfélög í 14 ár. Húsgagnahreinsun sem sérhæfði sig í myglusveppi og svo opnaði hann skyrbar í Danmörku til að kynna Danina fyrir íslenska skyrinu. Hann var framkvæmdastjóri hjá Rolf Johansen og hjá Vöku björgunarfélagi.
„Í dag rek ég áfengisheildsöluna Esja­spirits en nafnið kom til þar sem við hjónin horfum alltaf á fallegu Esjuna út um stofugluggann hjá okkur. Við erum með gott úrval af bæði áfengi og matvörum og leggjum áherslu á gæði og traust vörumerki. Það er nú gaman að segja frá því að við erum nýbúin að fá gullverðlaun fyrir besta ginið á Íslandi, Old Islandia, og einnig fyrir Volcanic vodka.
Við erum með bæði innlend og erlend vín og seljum í ÁTVR og á veitingastaði. Við sérhæfum okkur í veisluþjónustu, erum með vínráðgjöf sem felur í sér að velja réttu vínin í veisluna og hjálpum til við að áætla magn. Við höfum líka verið í innflutningi á matvöru aðallega frá Andalúsíuhéraði, olíur, hnetur, súkkulaði, marmelaði og fleira.
Ég hef óskaplega gaman af viðskiptum og elska að vera í einhverju brasi í kringum þau, kaupa og selja. Við erum með ört stækkandi vörulínu svo við erum bara spennt fyrir framtíðinni,“ segir Daníel að lokum er við kveðjumst.

Rafskútur Hopp mættar í Mosó

Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri fer fyrstu ferðina.

Mosfellsbær og Hopp hafa undirritað samstarfsyfirlýsingu um rekstur á stöðvalausri deilileigu fyrir rafskútur í Mosfellsbæ.
Leig­an fer fram í gegn­um smá­for­rit í snjallsíma þar sem unnt er að sjá hvar næsta lausa rafskúta er stað­sett. Upp­hafs­stöðv­ar verða við íþróttamið­stöðv­ar og við mið­bæj­ar­torg en not­end­ur geta skil­ið við hjól­in þar sem þeim hentar. Það er þó mik­il­vægt að skilja við hjól­in með ábyrg­um hætti og þannig að þau séu ekki í vegi fyr­ir ann­arri um­ferð.

Tveggja mánaða tilraunaverkefni – Snýst um traust
„Það er er frábært að fá Hopp loksins í Mosfellsbæ,“ segir Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri Mosfellsbæjar. „Við stólum á Mosfellinga að fara vel með skúturnar og passa upp á hraðann.“
Um er að ræða tveggja mánaða tilraunaverkefni í sumar til að kanna notkun og umgengni. Mikilvægt er að Mosfellingar leggi skútunum vel, svo þær séu ekki fyrir gangandi vegfarendum eða úti á miðri götu.
Verið er að tengja Mosfellsbæ við þjónustuvæði Hopp á höfuðborgarsvæðinu og geta íbúar nú þegar nýtt sér þennan nýja samgöngumáta og skilið bílinn eftir heima.

Mikil eftirspurn og áhugi frá Mosfellingum
„Með mælanlegri eftirspurn og áhuga frá íbúum Mosfellsbæjar ákváðum við að senda formlegt erindi til bæjaryfirvalda. Við vonum svo innilega að samstarfið hér verði farsælt,“ segir Sæunn Ósk framkvæmdastjóri Hopp.
Rafskútur hafa notið sífellt meiri vinsælda á undanförnum árum og eru umhverfisvænn samgöngukostur, en hjólin eru knúin áfram á einungis rafmagni og eru því fullkomlega kolefnishlutlaus. Rafskúturnar munu gagnast bæði íbúum og gestum sveitarfélagsins enda þægilegur, nútímalegur og umhverfisvænn samgöngukostur.
Inn­leið­ing raf­hlaupahjóla í Mos­fells­bæ er meðal annars í sam­ræmi við þau markmið sem sett eru fram í um­hverf­is­stefnu Mos­fells­bæj­ar og með hlið­sjón af heims­mark­mið­um Sam­ein­uðu þjóð­anna.

Diddú og Davíð Þór á 200. stofutónleikum Gljúfrasteins

Stofutónleikar Gljúfrasteins hafa verið fastur liður í starfseminni frá því 2006 og sunnudaginn 9. júlí verða stofutónleikar númer 200 í stofu skáldsins.
Á þessum tímamótatónleikum munu Mosfellingarnir Sigrún Hjálmtýsdóttir söngkona og Davíð Þór Jónsson píanóleikari koma fram og syngja og spila af hjartans list. Efnisskrá verður fjölbreytt, lífleg og einlæg. Tónleikarnir hefjast kl. 16 og miðar verða til sölu í móttöku safnsins.

Minnast Önnu Guðnýjar píanóleikara
Það er við hæfi að þessir frábæru listamenn sem bæði hafa verið bæjarlistamenn Mosfellsbæjar komi fram á stofutónleikum númer 200 á Gljúfrasteini.
Á tónleikunum munu þau minnast Önnu Guðnýjar Guðmundsdóttur píanóleikara sem var tónlistarráðunautur Gljúfrasteins og lagði línur um fyrirkomulag tónleikahalds á Gljúfrasteini.
Diddú og Davíð eru bæði sannkallaðir vinir Gljúfrasteins og hafa margoft sungið og spilað í húsi skáldsins. Tónleikahald á Gljúfrasteini hefur verið fastur liður í starfsemi hússins og var til þeirra stofnað í anda Halldórs og Auðar Laxness.

Einn fjölhæfasti píanóleikari landsins
Davíð Þór Jónsson er einn fjölhæfasti píanóleikari landsins og fetar oft ótroðnar slóðir við hljóðfærið. Hann útskrifaðist frá Tónlistarskóla FÍH 2001. Hann hefur spunnið, samið tónlist fyrir fjölda leik – og listsýninga.
Davíð Þór var útnefndur bæjarlistamaður Mosfellsbæjar 2017 og hefur hlotið margvísleg verðlaun, Íslensku tónlistarverðlaunin og Grímuverðlaunin, auk þess sem tónlist hans úr kvikmyndinni Hross í oss var verðlaunuð á kvikmyndahátíðum í Evrópu.
Diddú hóf feril sinn ung á sviði
Diddú eða Sigrún Hjálmtýsdóttir hóf feril sinn ung á sviði tónlistar og þarf því vart að kynna. Hún hefur hlotið margs konar viðurkenningar fyrir söng sinn og meðal annars verið valin söngkona ársins þrjú ár í röð frá 1977-79. Hún var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag sitt á sviði sönglistarinnar árið 1995. Hún var einnig Stórmeistari af finnsku ljónsorðunni 1997 og var útnefnd bæjarlistamaður Mosfellsbæjar 1998. Diddú var heiðursverðlaunahafi Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2019.

Fljúgum hærra

Esjan er falleg. Flestir sem fara á Esjuna fara upp að Steini og svo aftur niður. Langfæstir fara alla leið upp á topp. Upp á Þverfellshorn. Ég sjálfur hafði ekki farið alla leið í svo mörg ár að ég man ekki hvað þau eru mörg fyrr en ég fór á toppinn með konunni og þeim yngsta í síðasta mánuði. Hann var í áheitaverkefni tengt fótboltanum og langaði að hafa göngu upp á Esjutopp hluta af verkefninu. Maður lifandi hvað þetta var gaman!

Svo gaman að ég fór aftur sömu leið viku seinna og stefni á margar fleiri í sumar. Það er ekkert að því að stoppa við Stein, leiðin þangað tekur vel í og útsýnið er fallegt. Síðustu metrarnir upp á topp eru brattari og aðeins meira krefjandi, en leiðin tekur samt bara um korter á jöfnum þægilegum hraða. Það er búið að leggja keðjur og tröppur í klettunum nánast alla leið og flestir þeirra sem komast upp að Steini ættu að geta komist líka á toppinn. Útsýnið þar er enn magnaðra. Síðasti spölurinn á toppinn er skemmtileg áskorun og tilfinningin að hafa farið alla leið frábær.

Afturelding er núna í toppbaráttu í Lengjudeild karla. Þeir stefna á Bestu deildina, alla leið á toppinn. Liðið hefur ekki farið þangað áður, en kvennalið Aftureldingar hefur farið alla leið og ætlar þangað aftur. Aðalþjálfari Aftureldingar hefur farið upp í efstu deild sem leikmaður og lykilmenn í leikmannahópnum hafa farið upp í deildina með sínum liðum. Reynslan og þekkingin er til staðar og það er mikilvægt þegar stefnt er á toppinn – að fara með einhverjum sem hefur farið áður.

Alveg eins og okkar yngsti fékk okkur foreldrana með í sína fyrstu ferð á Þverfellshornið. Aðalmálið er samt að sjá toppinn, vilja fara á hann og trúa því að leiðin sé greið.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 6. júlí 2023

 

Hlín Blómahús í 30 ár – fyrst og fremst þakklát

Hlín Blómahús fagnaði 30 ára afmæli þann 8. maí. Það eru hjónin Hlín Sveinsdóttir og Sigþór Hólm Þórarinsson sem eiga og hafa rekið blómabúðina í þennan tíma.
„Við erum fyrst og fremst þakklát fyrir þessi ár og einstaklega trygga viðskiptavini. Við opnuðum hér í þessu húsi 1993, fluttum í skamman tíma í Krónuhúsnæðið, vorum á tímabili með reksturinn heima en komum aftur hingað árið 2015,“ segir Hlín sem tekur brosandi á móti öllum viðskiptavinum.

Náttúruskreytingar okkar sérstaða
„Sérstaða okkar hefur alltaf verið náttúruskreytingar og við nýtum fallegu náttúruna hér í sveitinni til efnisöflunar. Við erum alltaf með fjölbreytt úrval af afskornum blómum, pottaplöntum, pottum og fleiru.
Það má segja að búðin sé mjög árstíðabundin, nú erum við með sumarblómin, á haustin einblínum við á haustskreytingar og jólin eru í algjöru uppáhaldi hjá mér.
Við erum líka mikið að sinna skreytingum á viðburðum, þá sérstaklega í kringum ferðamenn, og þar er verið að sækjast eftir íslenskum náttúruskreytingum.“

Tryggir viðskiptavinir
„Við höfum verið einstaklega heppin með kúnnahópinn okkar, við marga hefur myndast sterk og traust vinátta.
Maður er búinn að fylgja heilu fjölskyldunum á eftirminnilegum stundum jafnt í gleði sem sorg. Ég hef meðal annars gert skírnar-, fermingar- og brúðarskreytingu fyrir sama einstaklinginn.
Við höfum alltaf einsett okkur að veita persónulega þjónustu og lagt okkur fram við að mynda tengsl við okkar viðskiptavini,“ segir Hlín að lokum og tekur það fram að það sé einstaklega gefandi að starfa við að nýta náttúrlegan efnivið til að gleðja viðskiptavinina.

Halda Barnadjass í Mosó

Helgina 22.-25. júní verður hátíðin Barnadjass í Mosó haldin í fyrsta skipti.
Flytjendurnir eru á aldrinum 7-15 ára og koma frá Mosfellsbæ, Selfossi, Hafnarfirði, Reykjavík, Noregi og Færeyjum.
Listrænn stjórnandi hátíðarinnar er Odd André Elveland en hann er norskur djasstónlistarmaður og rekur tónlistarskólann Improbasen í Osló. Hann hefur þróað aðferðir til að kenna ungum börnum að spila djass eftir eyranu víðsvegar um heiminn.
Árlega stendur hann fyrir tónlistarhátíðinni „Kids in jazz“ í Osló og sækir hátíðin í Mosó innblástur þaðan. Hátíðin er partur af umfangsmiklu samnorrænu verkefni, styrktu af Nordisk kultur­fond, sem miðar að því að koma barnadjassi á kortið.

Tenging frá árinu 2017
Tenginguna á milli Odd André og Mosfellsbæjar má rekja allt til ársins 2017 þegar hann kom til landsins og hélt vinnustofu í spuna fyrir börn í Norræna húsinu.
Jakob Leó Allansson, stóri bróðir Rakelar Elaisu sem tekur þátt í hátíðinni í ár, var með í þeirri vinnustofu og var í framhaldinu boðið, ásamt þremur öðrum íslenskum krökkum, að taka þátt í Kids in Jazz hátíðinni í Osló. Síðan þá hafa yfirleitt verið einhverjir þátttakendur frá Íslandi og oftar en ekki leynst Mosfellingar í hópnum.

Gestgjafar hátíðarinnar 9-12 ára
Tónlistarskólinn í Mosfellsbæ hefur síðustu ár lánað aðstöðu sína þegar Odd André hefur komið til landsins til að kenna krökkunum og halda vinnustofur og hefur Sigurjón Alexandersson, deildarstjóri rytmísku deildar skólans, verið innan handar.
Árið 2021 tóku systkinin Emil Huldar Jonasson og Edda Margrét Jonasdóttir þátt í Kids in jazz í Osló og má segja að það hafi verið upphafið að stofnun 6 krakka djassbands sem er skipað mosfellskum börnum á aldrinum 9-12 ára. Þau eru gestgjafar hátíðarinnar og bera, ásamt erlendu gestunum, hitann og þungann af tónleikahaldinu.
Þar að auki koma fram tvær gestahljómsveitir. Hljómsveitin Rokkbál skipuð krökkum úr 9. bekk sem eru í Listaskóla Mosfellsbæjar undir handleiðslu Sigurjóns Alexanderssonar og hin hljómsveitin er skipuð krökkum úr 2.-4. bekk í Landakotsskóla.

Fyrsta djasshátíðin í Mosfellsbæ
Verkefnið er styrkt af Tónlistarsjóði Rannís, Mosfellsbæ, Kiwanisklúbbnum Mosfelli og Barnamenningarsjóði. Þetta er bara byrjunin þar sem verkefnið fékk veglegan styrk frá Barnamenningarsjóði til að ferðast með verkefnið um allt land.
„Við höldum að þetta sé í fyrsta skipti sem haldin er Djasshátíð í Mosfellsbæ og eins í fyrsta skipti djasshátíð þar sem börn eru í aðalhlutverki,“ segir Guðrún Rútsdóttir skipuleggjandi hátíðarinnar.

 


22. júní kl. 19 – Hlégarður (Mosfellsbæ)
23. júní kl. 17 – Hús máls og menningar (Rvk)
25. júní kl. 16 – Bankinn Bistro (Mosfellsbæ)
Ókeypis er inn á alla tónleikana.

Mjög vel tekið á móti okkur

Valur Oddsson húsasmiður flutti upp á land eftir gosið í Eyjum 1973.

Gosið á Heimaey í Vestmannaeyjum hófst aðfaranótt 23. janúar 1973 og stóð yfir í rúmlega fimm mánuði. Hraun og aska eyðilögðu þriðjung byggðarinnar eða tæplega 400 hús og byggingar. Flestir íbúarnir flúðu til meginlandsins og biðu milli vonar og ótta eftir því hvað framtíðin bæri í skauti sér.
Einn af þeim sem flutti með fjölskyldu sína er Valur Oddsson, þau fluttu ásamt fleirum íbúum í Mosfellssveit. Hann segist verða ævinlega þakklátur fyrir þær góðu móttökur sem Vestmannaeyingum voru sýndar hér.

Valur er fæddur í Vestmannaeyjum 27. júlí 1942. Foreldrar hans eru Magnea Lovísa Magnúsdóttir húsmóðir og verkakona og Oddur Sigurðsson skipstjóri.
Bræður Vals eru Magnús f. 1934 og Sigurður Pétur, ávallt kallaður Bói, f. 1936 en þeir eru báðir látnir.

Ólst upp við frjálsræði
„Ég ólst upp í Vestmannaeyjum og það var gott að alast upp þar við algjört frjálsræði, einu skyldurnar voru að koma inn á réttum tíma í mat og kaffi.
Fjöllin og bryggjan heilluðu mest, við vinirnir tókum oft árabáta traustataki og rérum út að Löngu, eins mokuðum við flæðigarða í fjörunni og biðum eftir að sjórinn flæddi inn. Við veiddum einn og einn smáufsa á bryggjunni og stundum marhnút en það þótti mikil hneisa, maður reyndi að láta lítið á því bera,“ segir Valur og brosir.
„Lífið á eyjunni breyttist alltaf í byrjun janúar þegar um 2.000 sjómenn og verkafólk komu á vertíð. Þá kom fleira fólk inn á heimilið og ættingjar ofan af landi komu gjarnan í kaffi á frídögum.“

Beitti bjóð á línu
„Ég gekk í barna- og gagnfræðaskólann og mér leið ágætlega í skóla en hann þvældist pínu fyrir mér þegar líða tók á vertíðirnar. Þá átti maður nefnilega möguleika á að beita eitt og eitt bjóð á línu og fá borgað fyrir það, svo þurfti maður að fara á bryggjuna til að fylgjast með hvernig fiskaðist.
Fyrsta vinnan mín var að breiða saltfisk, þá var ég 11 ára, ég fór sjálfur og bankaði upp á hjá verkstjóranum til að fá vinnu. Við krakkarnir unnum með eldri borgurum sem voru hætt að vinna en fóru í þessa íhlaupavinnu, þau leiðbeindu okkur. Þetta var einhver besta unglingavinna sem hægt var að hugsa sér. Þegar þessu lauk fór ég í frystihúsin, það fannst mér drepleiðinleg vinna.“

Aðstaðan mjög bágborin
„Árið 1958 fór ég á sjó, réri til að byrja með með Bóa bróður og pabba á vertíðum og þess á milli var ég á Halkion 46, 100 og 250 tonna, eða fram til ársins 1963.
Á þessum tíma var öll aðstaða á bátunum bágborin, hreinlætisaðstaðan engin og fata til að gera þarfir sínar í. Í lúkarnum sváfu menn í kojum í öllum fötunum og þar var líka eldað og borðað. Með tímanum batnaði aðstaðan, það var komið klósett og hvalbakur sem skýldi okkur við vinnuna.
Á þessum árum tók ég þátt í að bjarga 18 mönnum, tveimur skipshöfnum í tveimur sjóslysum, en því miður fórust tveir í öðru slysinu.
Árið 1963 byrjaði ég á Ísleifi 4 og síðar á Ísleifi, það aflaðist einhver ósköp á þessum skipum, síldin var í hámarki fyrir austan. Þetta var minn skemmtilegasti tími á sjó með óskaplega góðri áhöfn sem enn heldur hópinn. Ég var á sjó fram undir 1970 en þá fór ég að læra húsasmíði í Iðnskólanum í Vestmannaeyjum.“

Þyngstu spor sem ég hef stigið
„Árið 1968 féll Bói bróðir milli skips og bryggju í Aberdeen en hann var á leið með skipið sitt í vélarskipti til Noregs. Pabbi var til sjós með Bóa þegar slysið varð en það liðu nokkrar vikur þangað til hann fannst látinn. Þetta var hræðilegur tími, algjör óvissa og það var reynt að halda í vonina fram á síðustu stundu.
Bói var hvers manns hugljúfi, giftur og átti þrjá drengi sem þarna voru 6, 7 og 8 ára. Amma okkar lést á meðan leitað var að Bóa og þau voru jörðuð saman. Það voru þung spor, líklega þau þyngstu sem ég hef stigið,“ segir Valur alvarlegur á svip.

Stóðu uppi heimilislaus
Eiginkona Vals er Kristín Stefánsdóttir fyrrv. bankastarfsmaður, hún lést árið 2015. Dætur þeirra eru Ingibjörg f. 1970 og Ásdís f. 1976.
„Við Kristín kynntumst um borð í Gullfossi árið 1965, hún var úr Reykjavík en átti ættir að rekja til Eyja. Eftir að við giftum okkur þá bjuggum við okkur heimili í Vestmannaeyjum sem síðar fór undir hraun í gosinu 1973. Þá stóðum við hjónin uppi heimilislaus ásamt dóttur okkar sem var þriggja ára og það var ekkert annað í stöðunni en að flytja upp á land.

Fluttu í Mosfellssveit
„Sveitastjórn Mosfellshrepps með Jón á Reykjum og Hrólf Ingólfsson í fararbroddi buðu okkur sem misst höfðum húsin okkar lóðir við Arnartanga. Verkið var boðið út og sama fyrirtækið byggði flest einbýlishúsin sem þar standa. Þegar kom að því að borga lóðirnar var ekki búið að greiða út bætur úr Viðlagasjóði. Ólafur Helgason bankastjóri Útvegsbankans í Eyjum lánaði öllum án þess að hafa veð, sem er væntanlega fáheyrt. Arnartanginn var því nokkurs konar útibú frá Vestmannaeyjum.
Það var mjög vel tekið á móti okkur öllum hér í Mosfellssveit og við hjónin fluttum í Arnartanga 1975. Hér bjuggu um 1.100 manns og okkur leið eins og við værum flutt á hjara veraldar. Við náðum þó fljótt að samlagast bæjarbragnum og ég gæti hvergi annars staðar hugsað mér að eiga heima, en ég fer líka mikið á mínar æskuslóðir. Dætur mínar og fjölskyldur búa hér líka og við höldum vel hvert um annað.
Eftir að ég flutti upp á land þá fór ég að vinna við smíðar, hóf síðan störf hjá Borgarspítalanum þar sem ég starfaði í 30 ár með góðum félögum. Síðustu þrjú árin áður en ég fór á eftirlaun starfaði ég hjá framkvæmdasviði Reykjavíkurborgar og sinnti viðhaldi á eignum borgarinnar.“

Góðar stundir í Suðurey
„Lundaveiði hefur fylgt mér nánast alla ævi,“ segir Valur aðspurður um áhugamálin. „Ég fór fyrst í útey 5 ára. Ég veiði í Suðurey og það er mikill félagsskapur í kringum veiðina, sá góði hópur hefur gefið mér afskaplega mikið.
Ég hef spilað golf í 30 ár og svo byrjaði ég að stunda líkamsrækt fyrir nokkrum árum. Ég les líka mikið og nýti mér Storytel inn á milli. Ég var „forseti“ Gufufélags Mosfellsbæjar í tuttugu ár eða svo, það var afskaplega skemmtilegur félagsskapur. Svo sat ég í byggingarnefnd Mosfellsbæjar í fjögur ár og í yfirkjörstjórn í 16 ár fyrir Samfylkinguna þar sem ég hef hitt fyrir margt vandað og gott fólk sem hefur reynst mér vel.
Fyrir utan þessi hefðbundnu áhugamál er ég mjög áhugasamur um fjölskylduna mína og vil gjarnan verja sem mestum tíma með þeim og mínum mörgu og góðu vinum,“ segir Valur og brosir er við kveðjumst.