Bylting í umhverfismálum á Íslandi
Bygging gas- og jarðgerðarstöðvar í Álfsnesi er eitt stærsta umhverfisverkefni sem Íslendingar hafa ráðist í hingað til. Upphaf verkefnisins má rekja til ársins 2013 með undirritun eigendasamkomulags allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um meðhöndlun úrgangs. Fram kom m.a. í eigendasamkomulaginu að byggð skyldi gas- og jarðgerðarstöð og með því gert kleift að hætta urðun lífræns úrgangs. Stöðin er í samræmi við stefnu sem sveitarfélögin hafa mótað í sameiginlegri svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs.
Nú er komið að stóru stundinni en starfsemi hefst í gas- og jarðgerðarstöðinni (GAJA) á næstu dögum.
Stenst allar kröfur
Álfsnes er í eigu Reykvíkinga en blasir við í bakgarði okkar Mosfellinga og því hafa bæjarstjóri, bæjarfulltrúar og fulltrúar bæjarins í stjórn Sorpu lagt mikla áherslu á að urðun yrði hætt í Álfsnesi. Fulltrúar Sorpu, tæknimenn sveitarfélaga og verkfræðingar frá verkfræðistofum lögðust yfir hvaða lausn væri heppilegust og var niðurstaðan sú lausn sem nú hefur verið byggð.
Gas- og jarðgerðarstöðin í Álfsnesi stenst allar nútíma kröfur og var gert enn betur þegar samþykkt var að stöðin yrði yfirbyggð að kröfu okkar Mosfellinga. Við það hækkaði kostnaðurinn en það er nauðsynleg viðbót af umhverfsástæðum, sérstaklega fyrir okkur Mosfellinga.
GAJA markar byltingu í umhverfismálum á Íslandi og mun jafngilda því að taka 40 þúsund bensín– og díselbíla úr umferð og hefur mikil áhrif á kolefnisbúskapinn hér á landi. Um 80% landsmanna búa á höfuðborgarsvæðinu og stöðin því stórt skref í þá átt að koma umhverfismálum höfuðborgarsvæðisins í lag.
Tilgangurinn að hætta urðun lífræns úrgangs
Í stöðinni verður heimilissorpi eða lífrænum úrgangi breytt í metangas og moltu. Það skal skýrt tekið fram að tilgangur GAJA er ekki að framleiða metangas eða moltu heldur að hætta urðun lífræns og brennanlegs úrgangs og um leið spara útblástur sem nemur 90 þúsund tonnum af koltvísýringi árlega.
Allur úrgangur sem safnað er frá heimilum á samlagssvæði SORPU er forflokkaður í móttökustöðinni í Gufunesi og lífrænu efnin síðan flutt í GAJA. Lífrænu efnin verða unnin í stöðinni í metangas og jarðvegsbæti eða moltu, en málmar og önnur ólífræn efni svo sem plast fara til endurnýtingar.
Metangas og molta eru jákvæðar afurðir stöðvarinnar sem munu nýtast samfélaginu. Mikið hefur verið horft á þessar afurðir og margir efast um ágæti stöðvarinnar af þeim sökum. Stöðin var ekki byggð til að framleiða metagas og moltu, hún var byggð til að hætta urðun úrgangs samkvæmt Evróputilskipun og kröfum Umhverfisstofnunar og einnig að kröfu okkar Mosfellinga.
Komið að tímamótum
Þótt ferlið að byggingu stöðvarinnar hafi verið langt og strangt er ánægjulegt að það sé komið að þeim tímamótum að taka í notkun gas- og jarðgerðarstöð í Álfsnesi. Sérstaklega er þetta ánægjulegt fyrir okkur Mosfellinga því þegar GAJA verður komin í full afköst mun lyktarmengum úr Álfsnesi heyra sögunni til.
Nánari upplýsingar um starfsemi GAJA á www.sorpa.is
Kolbrún Þorteinsdóttir bæjarfulltrúi
og fulltrúi Mosfellsbæjar í stjórn Sorpu.