Börnin í Reykjadal fá flotta sumargjöf

Í Reykjadal hafa verið starfræktar sumarbúðir fyrir fötluð börn og ungmenni í 62 ár. Sund og leikur hefur alla tíð verið mikilvægur þáttur í starfsemi sumarbúðanna og sundlaugin er ómissandi hluti af upplifuninni. Mörg barnanna fara oft á dag í laugina og það er alltaf jafn gaman. Sundlaugin þarf verulega á viðgerð að halda og voru landsmenn hvattir til að bjarga sumrinu með því að gefa sundferð í sérstakri söfnun sem sett var af stað. Fyrst var markmiðið að safna 7.194 sundferðum og tókst það strax á fyrstu dögunum. Draumamarkmiðið var hinsvegar sett á 14.388 sundferðir og hefur það markmið einnig náðst en þegar þetta er skrifað hafa safnast 15.400 sundferðir. Það er því ljóst að börnin í Reykjadal fá flotta sumargjöf frá vinum og velunnurum. Enn er hægt að leggja til framlög í gegnum síðuna www.sofnun.reykjadalur.is. Fyrsti hópur ungmenna mætir í lok maí og er von á 200 krökkum í sumar. Vonir standa til að sundlaugin verði klár fyrir þennan tíma.